Guðrún er nýflutt á besta stað í borginni

Guðrún Jónsdóttir.
Guðrún Jónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún Jónsdóttir er menntuð í sálfræði og lýðheilsuvísindum og hefur starfað við bæði mennta- og heilbrigðismál í gegnum tíðina. Hún er nýflutt í húsnæði á besta stað í borginni og segir fátt skemmtilegra en að elda og baka með sonum sínum. 

Guðrún er mikið fyrir að vera heima og segir að það sem gerir hús að góðu heimili sé fólkið, sálin, samtöl og minningar.

„Mér finnst ég alltaf komin heim þegar myndirnar eru komnar á veggina og bækurnar í hilluna.“

Áttu þér uppáhaldsstað heima?

„Já, það er við gluggann í borðstofunni sem vísar til norðurs yfir Esjuna og Snæfellsjökul og ég sé yfir í Borgarfjörðinn minn.“

Ekki þekkt fyrir að slaka mikið á

Guðrún segir hreyfingu og útivist vítamínið hennar.

„Hvort sem það er á hestbaki, á kajak, á fjallaskíðum, að hlaupa eða að hjóla. Það heldur mér í góðu jafnvægi andlega ekki síður en líkamlega. Ég hef enn þá ekki upplifað neitt sem góð hreyfing og útivera getur ekki lagað. Hreyfing gerir mann betur í stakk búinn að takast á við veikindi og áföll. Hjarta- og æðakerfið er í betra formi, lungun eru hraustari og hjartað flytur blóð betur til vefja líkamans. Þetta er það augljósa og svo er betra útlit mjög jákvæð hliðarverkun. Síðan er það andlegi þátturinn og á tímum eins og við erum að upplifa núna er alveg gríðarlega mikilvægt að finna til eigin getu; að takast á við lífið. Umhverfisaðstæður eru þess eðlis að við ráðum ekki vel við þær og þá er svo mikilvægt að gera það sem við getum og er á okkar valdi. Breyta því sem við getum breytt og hreyfing gerir það tvímælalaust fyrir mig.“

Guðrún segist vita að ef hún passar upp á eigin heilsu þá sé hún fær um að hugsa um fólkið í kringum sig.

„Það er inni á mínu valdsviði og þá legg ég áherslu á það. Hinn kosturinn er einfaldlega að velta sér upp úr því sem maður ræður ekki við og það endar aldrei vel, það er augljóst. Alltaf að gera það sem gerir gagn og er hjálplegt, það er ágætismantra.“

Ertu góð að útbúa staði til að slappa af heima?

„Ég hef nú aldrei verið þekkt fyrir að slappa mikið af, en af því að maður á að reyna að bæta það sem maður getur bætt þá hef ég reynt að leggja áherslu á að læra að slappa af líka. Þegar ég fæ mér kaffibolla á morgnana kemur augnablik sem ég reyni að einbeita mér að bara að einu í einu. Þá kem ég stundum inn smá „mindfulness“ og þá sest ég við gluggann og horfi út á hafið og yfir á Esjuna og Snæfellsjökul. Það er án efa uppáhaldsstaðurinn minn í íbúðinni.“

Guðrún Jónsdóttir Innlit Grandavegi.
Guðrún Jónsdóttir Innlit Grandavegi. Árni Sæberg
Guðrún Jónsdóttir Innlit Grandavegi.
Guðrún Jónsdóttir Innlit Grandavegi. Árni Sæberg

Hægeldaður heimilismatur í uppáhaldi

Hvaða bók lastu síðast?

„Síðasta skáldsaga sem ég las var The Nightingale eftir Kristin Hannah. Saga sem fjallar um tvær systur á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og segir frá hlutverki og stöðu kvenna í stríðinu.

Síðasta bók sem ég las var hins vegar On Fire eftir Naomi Klein sem er fréttamaður og umhverfissinni. Hún fjallar um umhverfisvána og hvernig efnahagskerfi heimsins þurfa í raun að kollvarpast til að takast á við hana. “

Hvað keyptir þú þér síðast inn á heimilið?

„Ljós sem er í eldhúsinu.“

Áttu gott ráð til að róa taugarnar, sofa betur og slaka á?

„Ég reyni að koma hugleiðslu fyrir á hverjum degi. Þá meina ég svona meðvitaða hugleiðslu sem er bara hugleiðsla, en mér finnst ég alveg hugleiða líka þegar ég er að hlaupa, hjóla eða synda. En þá hef ég notað Headspace-appið til að koma mér á sporið og svo fer ég líka mikið inn á mindful.org og finn góðar hugleiðsluaðferðir þar. Þá hlusta ég á einn hugleiðsluþátt áður en ég sofna. En ég finn mikinn mun á mér þegar ég stunda hugleiðslu. Það róar hugann og gerir það sama og hreyfing að því leyti að mér finnst ég vera gera eitthvað sem er á mínu valdi. Ég er að höndla aðstæður.“

Ertu mikið í eldhúsinu?

„Ó já! Ég elska að elda og finnst fátt eins skemmtilegt og að bjóða fólki í mat.“

Hver er uppáhaldsrétturinn þinn þar?

„Mér finnst skemmtilegast að gera hægeldaðan heimilismat og sennilega er Boeuf Bourguignon í uppáhaldi. Ég hef mjög gaman af að elda franskan klassískan mat. Sennilega af því Julia Child er í miklu uppáhaldi hjá mér. En núna er ég með æði fyrir að steikja góða fallega rauðsprettu og hafa ferskt salat með. Svo hef ég alltaf gaman af að baka og þá vil ég hafa strákana mína með mér í því.“

Gaman að bjóða fólki í mat

Hvað gerir þú skemmtilegt á kvöldin og um helgar?

„Þegar maður æfir svona mikið eins og ég þá er helgardjammið laugardagsmorgunn klukkan 7 með æfingafélögunum í Ægi3. Ég er að æfa þríþraut og þá tökum við svokallaðar brikk-æfingar á laugardagsmorgnum. Það er hjól og hlaup strax í kjölfarið. Þetta eru um það bil þriggja tíma æfingar. Það er klikkað stuð! Stefnan er að fara til Danmerkur í júní og taka hálfan járnkarl, ef farbanni verður aflétt. En þetta er með því skemmtilegra sem ég hef gert, að æfa og keppa í Ironman. En svo elska ég líka að fara á skíði og nýjasta æðið mitt er fjallaskíði. Kvöldin eru svo bara afslöppun uppi í sófa að horfa á eitthvað gott í sjónvarpinu eða enn betra að bjóða fólki í mat.“

Áttu gott ráð fyrir þá sem eiga erfitt með að láta sér líða vel einir heima?

„Já, algjörlega. Það er eitt af mikilvægari hlutverkum okkar að láta okkur líða vel með sjálfum okkur og til mikils að vinna að líða vel einum líka. Þrátt fyrir að við séum félagsverur þá lærum við mest ein og flestar góðar hugmyndir fæðast þannig. Til að öðlast styrk og færni í að vera einn mæli ég eindregið með hugleiðslu eins og Headspace og mindful.org. Svo er það heilmikil hugleiðsla og mannbætandi að lesa góðar bækur. En það er líka mikilvægt að vera í góðum samskiptum og sennilega hefur aldrei verið jafn gott að vera í einangrun og einveru og núna, því við getum svo auðveldlega verið í félagslegum samskiptum þó að við séum líkamlega einangruð. Ég held það sé góður tími núna að heyra í fólki sem maður hefur ekki heyrt í lengi, nýta tímann til að efla sambönd og athuga með fólkið sitt í leiðinni. Núna er tíminn að læra eitthvað nýtt, taka námskeið á netinu eða fara bara á YouTube. Ég hef alltaf ætlað að nýta mér að hlusta á hljóðbók og prjóna á sama tíma og þá þarf ég að kíkja á kennslumyndbönd til að rifja upp. Finnst það bara frábær hugmynd að slá tvær flugur í einu höggi. En ég held að við græðum bara á að láta okkur líða vel í einveru. Það er bara styrkjandi fyrir sjálfstraustið og getur verið mjög frjór tími. Þetta gæti alveg orðið mjög skapandi tímabil hjá okkur öllum.“

Foreldrarnir fyrimyndirnar í lífinu

Áttu þér fyrirmyndir í lífinu?

„Agjörlega. Foreldra mína. Þau eru gott og vandað fólk í alla staði og svo augljóslega topp uppalendur! Allar konurnar sem komu á undan okkur og ruddu brautina, hvort sem var hljóðlátt eða upphátt. Vigdís Finnbogadóttir er náttúrlega hetja sem við ungar konur í dag lítum til og sjáum núna hversu magnað afrek hennar var. Einstæð móðir í karllægum heimi og bara kjarkurinn að fara út í þetta verkefni og að takast það er ótrúlegt afrek. Sem einstæð móðir og kona ber ég ótrúlega virðingu fyrir henni. Mér fannst Karen Blixen alveg ótrúlega flott og Out of Africa er ein af mínum uppáhaldsmyndum. Hún fór ein inn í mjög karllægan karlrembuheim og lét það ekki stöðva sig í að gera það sem hún vildi. Ég man eftir því þegar ég var lítil stelpa í sveit og maður sá fljótlega að strákar máttu meira og var treyst fyrir meiru, að maður þurfti að láta vaða ef maður vildi fá sömu tækifæri og ekki missa af neinu. Ég held að konur í dag séu að sýna nákvæmlega þetta og veigra sér ekki við að vera með allt á sinni könnu og fara í fjallaferðir, keppa í erfiðum keppnum á hjólum, gönguskíðum, crossfit, hlaupum eða hvað eina, ofan á allt annað. Og það er ekki síst út af þessum fyrirmyndum sem fóru á móti straumnum og það þýðir ekkert að kvarta eða skæla ef maður vill sömu tækifæri og strákarnir. Þannig er það bara. Þetta eru allt mínar fyrirmyndir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál