Helga Árna á himneskt heimili í 101

Helga Árnadóttir hefur búið í sama húsinu nánast allt sitt …
Helga Árnadóttir hefur búið í sama húsinu nánast allt sitt líf. Ljósmynd/Saga Sig

Athafnakonan Helga Árnadóttir hefur búið í sama húsinu nánast samfleytt frá 1981. Húsið var áður í eigu foreldra hennar en hún eignaðist það árið 2005. Hún hefur unun af því að gera fallegt í kringum sig eins og sést á heimilinu. 

„Mér líður svakalega vel heima og þykir alveg óendanlega vænt um húsið mitt enda hef ég búið í því meira og minna frá árinu 1981. Sagan af því hvernig þetta hús endaði í fjölskyldunni er nokkuð skemmtileg.

Mamma mín, Margrét Jónsdóttir, var og er enn þann dag í dag mikil kjarnakona og það er henni að þakka að þetta hús endaði í eigu okkar. Pabbi vann á þessum tíma nokkuð mikið erlendis þannig að það kom í hlut mömmu að finna hús fyrir okkur fjölskylduna þegar við fluttum í bæinn frá Akranesi á sínum tíma. Þetta hús fangaði athygli hennar og eins og hennar er von og vísa gekk hún rösklega til verks og fór að bítast um húsið við nokkra áhugasama aðila. Til að gera langa sögu stutta hreppti hún hnossið þrátt fyrir að hafa ekki verið með hæsta tilboðið, heldur vegna þess að mamma og fyrrverandi eigandi hússins voru alnöfnur og áttu sama afmælisdag, sem þeim þótti ansi skemmtileg tilviljun. Þetta er sterkt og gott steinhús byggt af dönskum bruggara í kringum 1929. Ég er ekki í vafa um að hér hafi verið vandað vel til verks, allir veggir hnausþykkir og húsið hálfgerður klumpur og byggt á mikilli klöpp. Það hefur gengið í gegnum þó nokkrar breytingar í gegnum árin og fyrrverandi eigendur létu m.a. gera við það viðbyggingu. Eftir að hafa keypt húsið af foreldrum mínum árið 2005 lét ég gera nokkrar endurbætur á því og gerði það að „mínu“. Það er ýmislegt gott sem ég get sagt um húsið mitt en það sem mér finnst standa upp úr er þessi góði andi í því. Húsið umvefur mig og börnin mín með svo mikilli hlýju, það er eitthvað gott inni í þessu húsi og okkur líður alltaf vel í því. Svo að margoft hafa gestir sem koma hingað í fyrsta skipti nefnt það við mig hversu góður andi ríki í húsinu og mér finnst alltaf svo gaman að heyra þegar gestirnir mínir upplifa það sama og ég.“

Sófinn er sérvalinn af Hönnu Stínu og kemur frá Alter …
Sófinn er sérvalinn af Hönnu Stínu og kemur frá Alter London. mbl.is/Árni Sæberg
Það er hlýlegt og fallegt að hafa arin.
Það er hlýlegt og fallegt að hafa arin. mbl.is/Árni Sæberg
Ljósmynd/Saga Sig


Vellíðan heimilisfólksins gerir hús að heimili

Hvað gerir hús að góðu heimili?

„Það sem gerir hús að góðu heimili að mínu mati er fyrst og fremst að finna vellíðan heimilisfólks inni á heimilinu. Lítið eða stórt, svona stíll eða hinsegin skiptir mig ekki máli heldur að hafa eins snyrtilegt, hlýlegt, heimilislegt og huggulegt í kringum mann og maður getur. Svo finnst mér allt verða betra með góðum ilmi og fallegri tónlist. Allt sem gleður vitin gerir heilmikið fyrir mig. Heimilið mitt hefur alltaf verið mikill samkomustaður vina og fjölskyldu og hafa ófá boðin verið haldin hér í gegnum tíðina. Mér finnst gaman að fá fólk í heimsókn og reyni alltaf að gera eitthvað huggulegt fyrir gestina mína. Mér líður líka vel þegar krakkarnir koma með vini sína heim. Ég elska að heyra í þeim skvaldra og hlæja og því fleiri, þeim mun betra.“

Helga er hrifin af alls konar hlutum.

„Ég er hrifnæm og það er svo margt sem mér finnst fallegt. Mér finnst alltaf gaman að koma inn á heimili sem eru með heildstætt útlit, mér finnst máli skipta að það sé rauður þráður í gegnum heimilið og að innréttingar og útlit haldist í hendur við aldur, stíl og anda húsnæðis. Ég hef sankað að mér alls kyns dóti í gegnum tíðina. Ég hef gaman af gömlum hlutum og sumt sem ég á og keypti mér kannski í kringum tvítugt er enn í miklu uppáhaldi. Ég er orðin svolítið praktískari í seinni tíð og ég reyni ef ég hugsanlega get að bíða með að kaupa mér hlut nema ég sé gjörsamlega sjúk í hann því ég er að reyna að safna ekki að mér alls konar dóti sem flækist svo bara fyrir mér. Mamma var með antíkverslun í gamla daga og hjá henni fékk ég ýmsa gamla gripi sem mér finnst æðislegir og eiga sér langa sögu sem ég get einungis ímyndað mér.“

Margrét móðir Helgu rak antíkverslunina Antik Kúríósa og er hún ekki í nokkrum vafa um að það hafi haft mikil áhrif á hana þegar kemur að húsgögnum.

„Mjög ung hafði ég mikið dálæti á gömlum hlutum og mér hefur alltaf fundist gaman að blanda þeim saman við nýrri hluti.“

Eldhúsið var tekið í gegn fyrir áratug og var það …
Eldhúsið var tekið í gegn fyrir áratug og var það hannað af Thelmu B. Friðriksdóttur innanhússarkitekt. mbl.is/Árni Sæberg

Kemur sér vel að kunna vel við sig heima

Helga sjálf eltist ekki við tískubylgjur þó að henni finnist gaman að fylgjast með og fá innblástur. „Í gegnum árin hef ég verið með hálfgerða glasadellu og elska falleg glös og mér finnst voða gaman að drekka úr fallegu glasi.“

Helga segir að á góðum degi þegar hún vilji gera vel við sig komi hún sér vel fyrir í stofunni, kveiki upp í arninum og á kertum, setji fallega tónlist á og hafi húsið ilmandi.

„Það er toppurinn. Svo á hinn bóginn finnst mér mjög gaman að taka til, setja tónlistina í botn og spila sem dæmi Prince. Þá fer ég eins og stormsveipur um heimilið og endurraða, tek til í hirslum og ástunda það sem er eins konar heilun fyrir mig. Að sjá hlutina verða betri í kringum mig. Þessi áhugi minn hefur komið sér ágætlega í inniveru síðustu vikna.“

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn í húsinu?

„Ætli ég myndi ekki segja arinstofan. Það er ótrúlega kósý að sitja við arininn á dimmu vetrarkvöldi og njóta ilmsins sem frá honum kemur. Stundum á daginn finnst mér einnig voðalega notalegt að setjast í sófann og horfa út um gluggann en þaðan get ég séð Hallgrímskirkju turn. Það er róandi og notalegt að sjá turninn og hlusta á kirkjuklukkurnar hringja. Ætli það mætti ekki segja líka að eldshúsið sé einnig svolítill uppáhaldsstaður í húsinu.

En kannski skiljanlega eyðum við mestum tíma í eldhúsinu og þar líður okkur líka mjög vel. Eyjan er stór og þar endum við einhvern veginn svo oft. Fyrir utan það augljósa að njóta máltíða saman þá klárum við oftast heimalærdóminn þar, ég og sonur minn litum mikið saman og svo er bara spjallað um lífið og tilveruna. Að ógleymdri Nespresso-kaffivélinni minni sem fær mig til að stökkva á fætur alla morgna. Það eru þessir litlu hlutir sem maður hefur lært enn frekar að meta síðustu vikur.“

Helga er ekki mikill lestrarhestur sjálf, þótt hún njóti þess mikið og vel að klára bók endrum og sinnum.

„Börnin mín eru í yngri kantinum og mér gefst lítill tími til að lesa, nema þá barnabækur. Annars er ég oft með alls kyns hlaðvörp í eyrunum sem mér finnst athyglisverð og gera heilmikið fyrir mig og slæ þannig tvær flugur í einu höggi.“

Ljósmynd/Saga Sig

Þykir gaman að finna hluti á ferðalögum

Hvað keyptir þú þér síðast inn á heimilið?

„Ég á töluvert af kaffiborðsbókum sem mér finnst skemmtilegar og síðast komst ég yfir mjög flotta þannig bók með myndum af Audrey Hepburn teknum af Bob Willoughby á árunum 1953-1966. Þetta er mjög vegleg bók sem var gefin út í aðeins 1.000 eintökum og mitt eintak er númer 250 og áritað af sjálfum Willoughby. Mig langaði mikið í hana en hún var náttúrulega uppseld fyrir löngu. Síðan fann ég hana notaða og þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um með þau kaupin.“

Uppáhaldslitir Helgu eru jarðtónar og brass.

„Svo finnst mér gaman að poppa upp með smá lit, þótt ekki sé nema í til dæmis púðum, bókum eða blómum. Að mínu mati er alltaf hægt að breyta um stemmningu með smáhlutunum.“

Helga á sér ekki einn uppáhaldshönnuð en er hrifin af mörgum hlutum sem gerðir eru í dag. „Skemmtilegast finnst mér að finna hluti sem mér finnst einstakir á hinum ýmsu stöðum og þá oft á ferðalögum. Þannig get ég tengt þessa hluti við ferðalögin og upplifanir og þykir þá enn vænna um þá fyrir vikið.“

Þegar kemur að barnaherbergjunum segir Helga að hún hafi reynt að velja eins fullorðinsleg húsgögn og hún gat í herbergi dóttur sinnar svo þau gætu nýst henni lengi.

„Við mæðgurnar erum um margt með mjög svipaðan smekk og við völdum ljósan lit og brass inn í herbergið hennar. Eins völdum við húsgögn með góðum hirslum til að hafa herbergið snyrtilegt. Í herbergi sonar míns þá var svipað upp á teningnum, góðar hirslur en þar völdum við dökkan við og bláa tóna þegar kom að málningu. Mjög reglulega tökum við okkur til og förum í gegnum fatnað og dót og gefum. Þannig verður meira rými í herbergjunum og börnin læra að það er gott að gefa.“

Kertastjakinn og vasinn koma frá Reflection og fást í Snúrunni.
Kertastjakinn og vasinn koma frá Reflection og fást í Snúrunni. mbl.is/Árni Sæberg
Helga er hrifin af antík eins og þessari styttu.
Helga er hrifin af antík eins og þessari styttu. mbl.is/Árni Sæberg
Marta dóttir Helgu á fallegt herbergi.
Marta dóttir Helgu á fallegt herbergi. mbl.is/Árni Sæberg
Hér er Róbert sonur Helgu í herberginu sínu.
Hér er Róbert sonur Helgu í herberginu sínu. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »