Góð ráð fyrir þá sem hyggjast fella tré

Ljósmynd/Unsplash

Fólk ætti alls ekki að ráðast til atlögu við tré án þess að ráðfæra sig fyrst við fagmann. Hjörleifur Björnsson segir að það að fella voldugt tré á öruggan hátt geti verið ákaflega vandasöm aðgerð. 

Fyrir þrjátíu eða fjörutíu árum hefði fáa grunað að hávaxin tré gætu orðið til vandræða í þéttbýli á Íslandi. En raunin er að víða má núna finna tré og gerði sem valda ama og jafnvel slysahættu. Þau teygja sig hátt til himins og varpa löngum skugga, eða byrgja útsýni yfir fallegt landslag og geta jafnvel fallið um koll og valdið eignatjóni.

Hjörleifur Björnsson hjá Garðaþjónustu Íslands segir í sumum tilvikum geta verið bæði flókið og kostnaðarsamt að fella tré en varasamt fyrir þá sem ekki kunna vel til verka að freista þess að magna fram sinn innri skógarhöggsmann og reyna að spara pening með því að fella tréð sjálf.

„Að mörgu þarf að huga, s.s. hvernig aðstæður eru umhverfis tréð og hve gott aðgengi er að því. Stundum þarf að nota kranabíl og síðan flytja tréð heilt eða í bútum yfir á flutningabíl til urðunar. Sú aðgerð að fella tré krefst töluverðrar sérþekkingar og þarf sá sem fellir að átta sig vel á hlutföllum trésins, vita hvar þyngdarpunktur þess er og kunna viss handtök eins og að saga fláann í stofninn svo að tréð falli í rétta átt.“

Þung, stór og varasöm

Verður að sýna fyllstu aðgát því tré geta verið níðþung og ekkert fær þau stöðvað. Segir Hjörleifur þyngdina breytilega eftir tegundum og árstíma, en stærstu tré á höfuðborgarsvæðinu séu svo mikil um sig að þrjá flutningabíla þurfi til að fjarlægja stofninn allan. „Kostnaðurinn getur verið frá nokkrum tugum þúsunda upp í nokkur hundruð þúsund en þegar komið er upp í þann verðflokk er oft samkomulagsatriði á milli nágranna að deila kostnaðinum með sér enda fellingin iðulega gerð til að draga úr skugga sem fellur á garðinn við næsta hús.“

Ef tré sýnir merki þess að vera orðið veikt eða fúið ætti ekki að draga það að hringja í fagmann. Hjörleifur segir einkennin oftast blasa við og nefnir t.d. að rótin kunni að byrja að lyftast upp öðrum megin eða sprungur að koma í ljós í kvikunni á margstofna trjám. „Af ýmsum ástæðum hikar fólk við að hringja og telur sér trú um að allt sé í lagi með tréð – finnst það kannski hafa of mikið tilfinningagildi – en hikið þýðir að hætt er við að í næsta roki gefi eitthvað eftir og gerist það á ári hverju á höfuðborgarsvæðinu að tré falla á hús og bifreiðar með tilheyrandi tjóni.“

Best að fella í árslok

Það ætti að reyna að forðast að fella tré um hásumarið, bæði til að trufla ekki fugla sem kunna að hafa gert sér hreiður á greinunum, en líka vegna þess að á sumrin er tréð þungt og fullt af vökva. „Október, nóvember og desember henta best enda engin dýr sem lifa lengur á trénu og vökvastreymið allt niður á við. Stofninn og greinarnar eru þá léttari, og ef eitur er borið ofan í skurðinn berst það greiðlega út í rótarkerfið,“ útskýrir Hjörleifur. „Svo á það við um tegundir eins og öspina að ef hún er felld á röngum tíma er hætta á að rótarkerfið sæki í sig veðrið og rótarskot taki að birtast úti um allt.“

Vaninn er að nota plöntueitur eins og Roundup til að drepa rótina en Hjörleifur segir að vega þurfi og meta hvort hætta sé á að eitrið berist yfir í önnur tré enda geta ræturnar verið tengdar neðanjarðar. „Á það t.d. við um reynitré sem standa mjög nálægt hvort öðru að ef fella á annað tréð er töluverð hætta á að eitur sem á að drepa rótarkerfið berist yfir í hitt. Það sem við gerum þá í staðinn er að setja svartan ruslapoka yfir stubbinn svo að stofninn fái ekkert ljós, og gæta þess að klippa öll rótarskot sem koma í ljós.“

Gott viðhald betra en stórar viðgerðir

Liðin eru ellefu ár síðan Hjörleifur stofnaði Garðaþjónustu Íslands með bróður sínum Róberti Bjargarsyni. Er fyrirtækið í dag leiðandi í alhliða garðaþjónustu fyrir einstaklinga, húsfélög og fyrirtæki, og spanna verkefnin allt frá reglubundinni garðsláttu yfir í viðamiklar lóðaframkvæmdir og hellulögn.

Hjörleifur segir mörgum þykja mikið hagræði í því að greiða öðrum fyrir að sjá um garðinn og þannig hafa meiri tíma til að njóta frístunda að sumri. Hann minnir á mikilvægi þess að hafa samband fyrr en síðar, því það geti orðið dýrt að þurfa að koma garði í horf ef honum hefur ekki verið nægilega vel sinnt um langt skeið. „Að koma úr sér vöxnum garði í lag gæti kostað meira en ef fengin hefði verið reglubundin garðþjónusta strax í upphafi. Þegar garðurinn er síðan orðinn eins og hann á að vera er framhaldið tiltölulega einfalt, með runna- og trjásnyrtingum og sex til sjö heimsóknum garðsláttuteymisins yfir sumarið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál