„Stöpullinn í húsinu er Ronja konan mín“

Klemens fyrir framan skápinn sem hann smíðaði.
Klemens fyrir framan skápinn sem hann smíðaði. mbl.is/Árni Sæberg

Klemens Nikulásson Hannigan er fjölbreyttur listamaður sem hefur vakið athygli sem ögrandi poppstjarna, Eurovisionfari og fjölskyldufaðir. Húsgögnin sem hann hannar og smíðar eru engu öðru lík. 

Klemens hugsar með auganu og nýtur sín sem stílisti bæði með Hatara og heima fyrir. Áður en hann byrjaði í hljómsveit lærði hann til smiðs og hefur hannað húsgögn samhliða tónsmíðunum.

„Ég lærði húsgagnasmíði í Tækniskólanum og fór svo í vöruhönnun í LHÍ en fann fljótt að ástríðan lá annars staðar. Ég þurfti víðara litróf til sköpunar og hef fundið athyglisbrestinum og ofvirkninni farveg í myndlistinni. Við Ronja Mogensen, konan mín, erum saman í bekk í Listaháskólanum.“

Hér má sjá skáp sem hannaður og smíðaður er af …
Hér má sjá skáp sem hannaður og smíðaður er af Klemens. mbl.is/Árni Sæberg

Hefur alltaf fundið ró í því að skapa

Hefurðu alltaf verið að búa eitthvað skapandi til?

„Síðan ég man eftir mér! Hef alltaf fundið ró í því að skapa og það er ekkert jafn skapandi og barnslegt eðli, enda týnir maður sakleysinu einhvers staðar á yfirgefnum leikvelli og er mestalla ævina að finna hana á ný. Sköpun snýr hnettinum í endalausa hringi í hausnum á okkur og kveikir á hugmyndafluginu, sem leyfir okkur að eiga ótrúlegustu ævintýri, tjá og takast á við söknuð, sorg, ótta, vonbrigði, gleði, von, allan skalann af tilfinningum sem er oft svo erfitt að hrækja út úr sér. Ég hef alltaf sótt mikið í tónlistina fyrir þessa útrás en jafnóðum í smíði og myndlist, hvort sem það var að drullumalla gúrkur úr mold, skúlptúra úr sæði og hári eða stóla úr eik.“

Hvað er gott heimili í þínum huga?

„Það er alltaf talað um að heimilið sé þar sem fjölskyldan er, og það er mikið til í því. Fyrir einhverjum árum hefði ég kannski ekki sagt það og hefði aldrei ímyndað mér að vera tveggja barna faðir og trúlofaður í eldheitu ástarsambandi en heimilið og ástin stíga hönd í hönd og maður þarf að taka ákvörðun um hvar maður ætlar að lifa og deyja, svo að ég sé heimilið sem meira huglægt ástand. Gott heimili er sæmilega heilbrigður hugur en ef ég myndi ímynda mér draumaheimilið fýsískt þá væri það hús úti í sveit með smíðaverkstæði eða vinnustofu, tónlistaraðstöðu, nokkrar hænur og kannski geit sem heitir Gamli Túbal, lækur sem við vöðum allsber í, grænmetisgarður og glerhús með ávöxtum, risastór kastali uppi í tré sem hægt er að príla í og við höfðum smíðað húsið og allt inni í það sjálf.“

Seldi útskriftarverkefnið á staðnum

Hvenær gerðir þú fyrsta húsgagn þitt?

„Ég uppgötvaði smíðina í smíðatíma í Austurbæjarskóla, rámar í að hafa smíðað lampa með útskornu andliti fyrir mömmu og pabba, hvort það átti að vera sjálfsmynd man ég ekki. Svo renndi ég líka hafnaboltakylfu sem var svo reyndar stolið. En kannski voru fyrstu almennilegu húsgögnin sem ég hannaði og smíðaði í Tækniskólanum þegar ég var nítján ára. Það voru stóll og skenkur, sem eru í svona 70's stíl með módernísku ívafi. Fann þá ánægjuna af því að búa til einstakan nothæfan mun sem fylgir manni út ævina og lifir helst enn lengur.“

Ég heyrði að útskriftarverkið þitt hefði selst á staðnum. Er það rétt?

„Já, ég fékk pöntun frá innanhúsarkitektinum Thelmu Friðriksdóttur, tímdi ekki að selja upprunalega eintakið því ég ætla að neyða barnabörnin til að erfa það. Þá var það eina í stöðunni að dröslast til að smíða nýjan skáp í aðeins öðruvísi hlutföllum út frá óskum hennar í lítilli kompu uppi á annarri hæð í Sundahöfninni. Það eru bara tvö eintök af þeim skáp til.“

Listin er frá sjálfum manni kominn

Er sami sköpunarkraftur á bak við listaverk í tónlist, húsgögnum og myndlist?

„Ég er naívisti með fullkomnunaráráttu.

Ég tek það alvarlega að gera mig að fífli.

Ég skoða minn eigin nafla af auðmýkt.

Ég geng fús til verka við að vorkenna sjálfum mér.

Ég viðurkenni vanmátt minn gagnvart listinni.

Ég vil hafa fullkomið vald á listinni.

Þetta er stutt ljóð sem við frændurnir Matthías og ég sömdum til að reyna að kjarna listsköpun mína. Ég tek eftir því að þegar ég er sjálfur í ramma verður tónninn annar en þegar myndin, skúlptúrinn, húsgagnið, verksummerkin fá sjálf að tala sínu máli. Annars vegar geng ég sjálfur holdi klæddur í hlutverk listamannsins og viðfangsins, fjalla þá gjarnan um miðilinn í gegnum miðilinn og geri grín að sjálfum mér í leiðinni. Listamaðurinn Klemens gerir ljósmyndaseríu sem gerir grín að fyrirbærinu „ljósmyndasería“ og um leið grín að Klemensi. Þegar Klemens gengur í hlutverkið „poppstjarna í pólitískri súpergrúppu“ er gengið í öfgakennda sviðsetningu þar sem hann líkamnar sexý klámstrák, pervertískan narsissista í djúpri sjálfsvorkunn. Þótt maður noti húmor sem hlífiskjöld þarf að horfast í augu við að listin er, þegar allt kemur til alls, frá sjálfum manni komin. Þannig stendur maður alltaf berskjaldaður gagnvart listinni, hún verður að eilífri naflaskoðun um leið og ég vona að hún nái yfir víðara samhengi – eigi sér stærra bakland en bara mínar persónulegu upplifanir. Þegar ég stíg sjálfur úr mynd blasir við allt annar tónn, eins og með skápinn eða skúlptúrana. Auðmýktin gagnvart sköpunarverkinu verður meiri og ég leita eftir áferð sem gæti í senn verið kölluð naívísk, expressjónísk en um leið formföst og lituð af smekkbundinni áráttu. Óbeislaðar fígúrur líta dagsins ljós og lifa sjálfstæðu lífi án þess að fjalla um miðilinn „mynd“ og gera grín að þeim sem hana málar.“

Hvernig er myndlistarnámið í Listaháskóla Íslands?

„Þetta er skemmtilegt og gott nám. Ég er að vísu í árs leyfi vegna barneigna og missti af seinni helmingi fyrsta ársins út af Eurovision-geðveikinni okkar í Hatara. Ég bíð spenntur eftir því að byrja aftur núna í haust.“

Hvað getur þú sagt mér um húsgögnin sem þú hefur gert fyrir heimilið þitt?

„Þau setja ákveðinn karakter inn í húsið og ég er stoltur af þeim.“

Smíðaði bókahillur fyrir foreldrana

Bókahillurnar hjá foreldrum þínum eru einstakar, frágangurinn svo fallegur og litur á viðnum æðislegur. Gerðir þú þetta eftir pöntun eða fékkstu að ráða og hanna sjálfur?

„Þau vildu í rauninni bara styrkja fátækan atvinnulausan listamann á tímum Covid-veirunnar og gáfu mér þau fyrirmæli að smíða hillur á þennan vegg. Pælingin var að henda einhverjum vinklum á vegginn og planka ofan á, en ég fann enga vinkla sem mér fannst nógu fallegir, ákvað þá að smíða þá frá grunni, og í rauninni í hálfgerðu hugsunarleysi henti ég þeim saman án þess að teikna þá upp nema bara einhverja grófa skissu, ég var jafn spenntur og foreldar mínir að sjá hvernig þeir myndu koma út.“

Hvernig lýsir þú þínu eigin heimili?

„Muy grandioso!“

Hverjir búa heima og eruð þið unnustuparið með sama smekk?

„Stöpullinn í húsinu er Ronja konan mín, svo deilum við húsinu með dætrum okkar Valkyrju og Aþenu eða V-key og A-J. Aþena er ekki komin með mikinn smekk enda bara tíu mánaða, hin tveggja ára Valkyrja dáist að öllu og finnst allt vera listaverk svo hún er ekki kröfuhörð nema þegar það kemur að því hvernig á að dýfa hafrakexi í haframjólk. Við Ronja erum kannski ekki með svipaðan smekk en styrkleikar hennar bæta upp veikleika mína og hún sýnir fullkomnunaráráttunni í mér mikla þolimæði.“

Hvað er skemmtilegast að gera heima?

„Horfa á börnin hlæja og gráta, vökva blómin, bora í nefið og láta tímann líða.“

Hér má sjá hillurnar sem Klemens smíðaði fyrir foreldra sína.
Hér má sjá hillurnar sem Klemens smíðaði fyrir foreldra sína. mbl.is/Árni Sæberg
Eins og sést er handbragðið einstakt.
Eins og sést er handbragðið einstakt. mbl.is/Árni Sæberg

Vill helst smíða öll húsgögn heima sjálfur

Ertu með vinnustofu þar sem þú sinnir húsgagnasmíðinni?

„Ekki eins og er, þó að það sé vissulega markmið. Smíðameistararnir Halldór Hreinsson og Kristinn Björnsson, sem reka DK húsgagn, hafa verið svo góðir við mig að leyfa mér að nota aðstöðuna þeirra og svo er mjög gott verkstæði uppi í Listaháskóla.“

Án allra hindrana, hvað býr innra með þér á þessu sviði?

„Ég lifi drauminn.“

Þegar þú velur húsgögn heim, blandarðu saman nýju og þínu eða þínu og tímabilshúsgögnum?

„Það er algjört púsluspil, blanda hinu og þessu saman sem ég hef fengið gefins eða keypt notað og reyni að láta það virka, reyni að forðast Ikea og fjöldaframleidda hluti þótt þeir séu margir hverjir fallegir. Ég dáist mest að sérstöðu. Best er að smíða flest sjálfur.“

Hvaða tímabil í húsgagnahönnun heillar þig mest?

„Mid-century modern og slick.“

Þegar þú leitar hugmynda, hvert ferðu þá?

„Niður í djúp undirmeðvitundarinnar og í verk Foucault.“

Skiptir garður eða útisvæði miklu máli þegar maður er kominn með börn?

„Ó, já. Nýja trampólíníð, sem er reyndar fjöldaframleitt, hefur reynst okkur vel.“

Hver er uppáhaldsviðurinn þinn til að smíða úr?

„Eik.“

Hver er uppáhaldsliturinn þinn á veggina?

„Það fer algjörlega eftir samhenginu í herberginu, birtunni og laginu á rýminu, en ég elska mjög skæra liti og vil hafa mikið af þeim.“

Er eitthvað sem þú ert mjög góður í að gera heima sem enginn veit?

„Ég er mjög liðugur af Guðs náð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »