Slepptu því að kaupa sumarbústað og breyttu garðinum í paradís

Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Fyrir fimm árum keyptu hjónin Hallur Gunnarsson og Andrea Hjálmsdóttir draumahúsið á Akureyri. Húsið hafa þau tekið í gegn að innan sem utan og nú er fókusinn á garðinum. Þar er komin steypt verönd og skemmtilegur spírallaga pottur en fleiri framkvæmdir eru í farvatninu. 

Það er varla hægt að fá veðursælli garð á Akureyri, hann snýr í hásuður og hér er skjól frá hafgolunni. Í stað þess að fá okkur sumarbústað ákváðum við að setja peninga í garðinn því hér er okkar sumarsæla,“ segir Andrea. Það er vor í lofti og hjónin drekka kaffið utandyra á nýsteyptum palli. „Við ætluðum að klára þetta síðasta sumar en það rigndi svo mikið, aldrei þessu vant, og því urðum við að skilja ákveðinn frágang eftir. En við stefnum að því að klára þetta í sumar,“ segir Hallur og er vongóður um gott sumar. Áður en veturinn skall á náðist þó að steypa pallinn sem er 90 fm að stærð með niðurgröfnum heitum potti. „Okkur fannst pallurinn vera óþarflega stór í byrjun en eftir að veggirnir komu er töluvert skuggavarp af þeim svo það er gott að hafa hann rúman.“

Þau segja að steyptur pallur hafi verið það eina sem kom til greina, trépallur hefði einfaldlega ekki passað við húsið sem byggt var árið 1950. „Það er steypt girðing fyrir framan húsið svo þetta var rökrétt framhald.“

Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Áberandi karrígult

Þegar þau keyptu húsið var bara gras og tré á lóðinni. „Fyrsta sumarið felldum við nokkur tré og grisjuðum til að fá meiri sól í bakgarðinn. Þó við séum komin með þennan stóra pall þá er nóg eftir af garðinum því húsið er byggt framarlega á lóðinni sem er um 600 fm að stærð,“ segir Andrea. Það fyrsta sem þau gerðu eftir kaupin var að mála húsið karrígult og það meira að segja áður en þau fengu það afhent. Andrea ítrekar að húsið hafi verið dánarbú svo þau lágu nú ekki á gluggunum hjá fyrrverandi íbúum þó þau hafi verið óþolinmóð við að hefjast handa við að gera húsið að sínu.

„Þetta hús var búið að vera draumahúsið okkar lengi. Afi og amma Halls bjuggu í húsinu beint á móti svo við vorum oft búin að horfa á húsið frá þeim. Húsið er mjög skemmtilegt í laginu, með tvo strompa og flotta glugga,“ segir Andrea þegar hún er spurð út í það hvers vegna þau hafi fallið fyrir því. Karríguli liturinn sem þau völdu á húsið undirstrikar sérkenni þess enn frekar og fær það til að skera sig enn betur úr umhverfinu, ekki síst á veturna þegar allt er á kafi í snjó.

Í pottinum er korktappi.
Í pottinum er korktappi. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Eins og kuðungur í laginu

Fljótlega eftir að þau keyptu húsið kviknaði sú hugmynd að gera pott í garðinum. „Þó við séum ekki langt frá sundlauginni þá er einhvern vegin allt öðruvísi að hafa eigin pott í garðinum og það kom okkur eiginlega á óvart hvað við höfum notað hann mikið í vetur. Að ekki sé minnst á Covid-tímabilið þegar allt var lokað, þá var það algjör lúxus að hafa pott í bakgarðinum,“ segir Hallur. Andrea samsinnir og bætir við: „Ég er ekki viss um að við hefðum notað hann jafn mikið ef við hefðum ekki sett hita í pallinn. Það munar um það þegar verið er að trítla út að vetri til. Það hefur verið mjög notalegt að fara í pottinn á kvöldin og svo beint upp í rúm.“ Potturinn sem um ræðir er óvenjulegur að því leyti að hann var steyptur í einu lagi ofan í stéttina og eins er hann eins og kuðungur í laginu. Hallur segir að engin teikning hafi verið gerð af pottinum heldur var farið beint í það að gera form úr krossvið sem var svo minnkað þar til rétt stærð var fundin. „Potturinn var eiginlega bara hannaður á staðnum en fyrirmyndin er heitasti potturinn í Akureyrarlaug, hann er með svipað lag og þessi,“ segir Hallur og heldur áfram: „Þetta er í rauninni bara útibaðkar því við látum renna í pottinn í hvert sinn sem við notum hann en hann tekur um 1.500-2.000 lítra. Yfirfallið var sett undir sætin og þar af leiðandi heyrist ekkert í soginu, sem mér finnst mikill kostur.“

Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Minni sól, meira næði

Ákveðið var að steypa vegg í spíral í kringum pottinn og ná þannig meira næði. „Húsin hér í kring standa frekar hátt þannig að við erum með nágranna á alla kanta. Þó við náum ekki eins mikilli sól með því að hafa vegg í kringum pottinn þá fáum við næðið í staðinn. Við notum hann líka mest á kvöldin þannig að það skiptir ekki öllu,“ segir Andrea. Við pottinn er útisturta og sérinnfluttur arinn frá Kanada sem tengjast á gasi. „Fyrst vorum við að hugsa um að brenna við í arninum en fundum út að það væri of mikið vesen að viðhalda eldinum þegar verið er í pottinum svo gaslogi varð niðurstaðan, en hann gefur ekkert síðri stemningu,“ útskýrir Hallur sem er með fleiri plön í farvatninu en bara að tengja arininn. Hinum megin við vegginn er planið að koma upp yfirbyggðu útieldhúsi með pítsuofni. Eins er búið að leggja stíg lengra út í garðinn, steypa þar plötu fyrir garðskúr sem þar á að rísa og leggja lagnir fyrir gróðurhús. „Svo reikna ég með því að við notum þennan hluta garðsins til þess að rækta salat og slíkt,“ segir hann og bendir á vesturhluta garðsins. Þá eru ótalin plön um gufubað, garðbekk meðfram steypta veggnum og fleira. En hvernig ganga allar þessar hugmyndir upp hjá þeim hjónum? „Við vinnum vel saman og erum nokkuð sammála um flest. En það má nota neitunarvaldið og ef því er beitt þá er bara fundin enn betri lausn sem allir eru sáttir við,“ segja þessi samhentu hjón.

Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »