„Þessi krútt“ eru mikil skaðræðisdýr í gróðurlendi landsins

Hafsteinn Hafliðason segir að kanínur séu miklir skaðvaldar.
Hafsteinn Hafliðason segir að kanínur séu miklir skaðvaldar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafsteinn Hafliðason er meðal þekktustu garðyrkjumanna landsins. Hann sá meðal annars um garðyrkjuþætti í útvarpi og sjónvarpi á árunum 1982-1995 og starfaði í mörg ár hjá Blómavali í Sigtúni sem sölumaður og neytendaráðgjafi. Þá er hann stjórnandi hópsins Stofublóm, inniblóm, pottablóm á Facebook og er óspar á heilræðin þar, blómaunnendum til gagns og gamans. Margrét Hugrún | margret.hugrun@gmail.com

Árið 2018 hlaut hann heiðursverðlaun garðyrkjunnar en hann hefur alla tíð verið gjöfull að miðla yfirgripsmikilli þekkingu sinni á garðyrkju og ræktun til almennings og áhugamanna og þannig haft mótandi áhrif á garðyrkju hér á landi.

„Í nágrannatungumálum íslenskunnar nær hugtakið „kúltúr“ yfir hugtökin garðrækt, akuryrkju, kvikfjárrækt, skógrækt, sjávarútveg, höggmyndalist, málaralist, ritlist, leiklist, lækningar, skólarekstur og tónlistarflutning, svo eitthvað sé nefnt af mannlegum athöfnum,“ segir Hafsteinn þegar hann er spurður að því hvort hann sjái sóknarfæri í garðyrkju hér á landi og kannski tækifæri sem betur mætti nýta. „Menningarþjóðir munu því áfram stunda garðyrkju og allt af þessu, en líklega í takti við aldafar, stjórnsýslusveiflur og tíðaranda eins og verið hefur,“ bætir hann við.

Nú þegar atvinnuleysi hefur sjaldan verið meira liggur beint við að spyrja Hafstein hvort hann lumi á ráðum um hvernig hægt sé að spara peninga við garðyrkjuna.

„Það má til dæmis gera með því að nýta ýmiskonar dollur og ílát – eittsinnumbúðir – sem henta fyrir sáningu eða langvarandi ræktun. Endurvinna allan lífrænan eldhúsúrgang í moltugerð og nota moltuna svo sem íblöndun í ræktunarmold,“ segir hann og bendir á að á netinu megi finna ýmiskonar útfærslur á því ferli.

Svona má snuða sniglana

Margir eiga í stríði við hverskonar innrásardýr í görðum sínum. Hafsteinn segir að það sé ekki mikið um að kettir eða önnur heimilisdýr valdi usla í matjurtagörðum en mýs og rottur geti nagað kartöflur og annað rótargrænmeti.

„Sniglar hafa lengi verið til leiðinda í matjurtagörðum og munu verða það um aldir alda er ég hræddur um. En við þeim má bregðast með því að tína þá upp og fyrirkoma þeim í hvert sinn sem þeir sjást. Nota má svokallaðar „bjórgildrur“ t.d. skyrdollur eða niðursuðudósir sem grafnar eru niður og hellt ögn af maltöli, bjór eða þurrgersblönduðum sykurlegi í botninn á þeim og dollurnar svo grafnar niður þannig að opið á þeim sé því sem næst við moldaryfirborð,“ útskýrir hann.

„Sniglarnir laðast að og láta sig gossa í ljúfmetið – skipta því út fyrir salatið en eiga svo ekki afturkvæmt úr veislunni. Líka má snuða sniglana með því að útbúa handa þeim kjörin varpstæði seinni part sumars með því að leggja fjalarbúta eða eitthvað þungt og flatt sem liggur kyrrt á moldinni – en með dálitlu holrými undir þar sem þeir fara um. Þá verpa þeir eggjum sínum gjarna þar, einkum sé þess gætt að hafa þetta á nokkuð rökum og skuggsælum stað inni á milli gróðursins. Svo má bara ganga þar að eggjunum vísum áður en vetur gengur í garð. Og það ætti nú öllum að vera ljóst hvað verður um þau eftir að við höfum haft hendur á þeim. Fyrir vikið verður sniglafarganið sumarið á eftir aðeins viðráðanlegra.“

„Þessi krútt“ eru mikil skaðræðisdýr

Hafsteinn talar um að annar óvelkominn gestur sé byrjaður að herja á gróðurlendi landsins.

„Á síðustu árum er farið að koma upp annað vandamál sem enn er ekki byrjað að fjalla mikið um í íslenskum garðyrkjuritum. Og vissulega orðið mjög tímabært á stjórnvaldsstiginu líka, en það eru kanínurnar. Fjöldi íslenskra fáráðlinga hefur verið að sleppa kanínum hist og her í kringum þéttbýli um allt land á undanförnum áratugum án þess að gera sér grein fyrir hve „þessi krútt“ eru mikil skaðræðisdýr í gróðurlendi landsins, einkum ræktunarlöndum, görðum, garðlöndum, gróðrarstöðvum og skógrækt. Þar valda þær ræktendum beinu fjárhagslegu tjóni. Fyrir nú utan leiðindin sem af þeim stafa, hafi maður misst í þær einhverjar uppáhaldsplöntur sem búið er að eyða mikilli vinnu og fyrirhöfn í að koma á legg.“

Tilbúinn áburður er eins og vítamíntöflur úr heilsuvöruhorni

Nýgræðingar í garðyrkju gera oft sömu mistökin en ein af þeim eru að gleyma að gæta að því að moldin sé næringarrík.

„Áburður einn og sér er ekki svo mikilvægur í venjulegri heimilisgarðrækt. Meira máli skiptir að moldin sem ræktað er í sé lifandi og haldi sér við með þeim ræktunaraðferðum sem beitt er. Lífrænn áburður af öllu tagi lífgar upp á moldina, eykur örverulífið sem frjósemi og endurnýjunarkraftur moldarinnar byggist á,“ segir hann og bætir við að tilbúinn áburður sé vissulega þarna og gott sé að geta gripið til hans, sé moldin tiltölulega líflaus massi sem krafinn er um full afköst.

„En tilbúinn áburður er fyrst og fremst sölt og hafragrauturinn verður ekkert betri ef við erum að kakka í hann meira salti í von um að gera hann hollari og lystugri svo að krakkarnir vaxi hraðar og verði feitari. Tilbúinn áburð er ágætt að líta á sem vítamíntöflurnar sem við kaupum í heilsuvöruhornum apótekanna eða stórmarkaðanna – og notum hann samkvæmt því.“

Spurður að því hvort runnar og tré þurfi sérstakan áburð segir Hafsteinn svo ekki vera en að dálítil meðgjöf við gróðursetningu sé ágætis byrjun og veganesti fyrir þau.

Stálpuð tré í görðum standi yfirleitt vel á eigin fótum og þurfi ekki áburðargjöf úti í náttúrunni og sama gildi um runnagróður. „Aftur á móti þiggja berjarunnar og aðrir ræktunarrunnar sem standa þétt í görðum dálitla áburðargjöf og þá gjarna um 30-35 grömm af tilbúnum garðáburði á hvern fermetra snemma á vorin – eða svo sem eina hjólbörufylli á fermetra af lífrænum áburði (moltu eða taði) annað til þriðja hvert haust.“

Mælir alls ekki með því að láta úða tré og runna

Margir garðeigendur taka upp á því að láta úða tré og runna á vorin en Hafsteinn mælir alls ekki með því.

„Allir garðar eru í sjálfu sér heilt vistkerfi með sjálfstæðum lífkeðjum. Líka lífinu sem við sjáum ekki. Þess vegna er eiginlega út í hött að grípa þar inn í og rugla ferlið,“ segir hann. „Með eiturúðun falla líka frá gagnlegu dýrin sem halda skaðvöldunum niðri og sé látið ógert að úða myndast fljótt jafnvægi. Hinsvegar getum við gengið um með slatta af volgu sápuvatni í dollu og tínt þar í lirfur og önnur kvikindi sem við sjáum og vitum að muni skilja eftir sig spor á laufum plantnanna. Þá er bara að kynna sér kvikindin og lesa gjarna um þau þar sem um þau er fjallað. Fallegir garðar byggjast kannski fyrst og fremst á athygli, skilningi og virðingu fyrir því sem í þeim er.“

Tilraunareitir víða um land og gott úrval af gömlu og nýju

Svo vitnað sé í orð Hafsteins um að garðyrkjan sé „kúltúr“ þá fara tískustraumar í garðyrkju ekki framhjá þeim sem fylgjast með. Fólk reynir að koma upp nýjum plöntum og sumt tekst en annað ekki.

„Í aldanna rás hefur fólk dregið að sér plöntur frá öllum hlutum heims til að rækta í görðum sínum – og seint verður lát á því reikna ég með,“ segir hann og bendir á að á hverju ári bætist við nýjar tegundir, eða tilbrigði af þeim í ræktunarflóruna. „Sumt af því er og verður til frambúðar. Annað gefst upp á veðurfarinu þegar meira reynir á,“ segir hann og bætir við að ekki sé hægt að minnast á eina tegund umfram aðra í þessu samhengi. „Ef fólk vill fylgjast með er best að skoða úrvalið í gróðrarstöðvunum um land allt – og kíkja reglulega í grasagarðana á Akureyri og í Reykjavík. Og Garðyrkjufélag Íslands, Félag garðplöntuframleiðenda og Landbúnaðarháskólinn standa fyrir yndisgörðum – sem eru tilraunareitir víða um landið fyrir garðagróður, nýtt úrval sem gamalt, þar sem er verið að finna úrval af plöntum sem henta í skrúðgarða um allt land – og þá gjarna flokkað niður eftir vaxtarsvæðum,“ segir ráðagóði garðyrkjumeistarinn Hafsteinn Hafliðason að lokum.

Kanínínur eru miklir skaðvaldar að mati Hafsteins.
Kanínínur eru miklir skaðvaldar að mati Hafsteins. mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »