Fullkomið eldhús fyrir þá sem nenna ekki að vaska upp

Sumum finnst eldhús ekki vera sérstakt prýði og vilja helst ekki að það sé sýnilegt í smáu rými. Ef þú ert í eldhúshugleiðingum og villt ekki að eldhúsið sjáist þá ætti þetta að vera eitthvað fyrir þig. 

Arkitektarnir Andrew og Darya Zhlobich sem reka arkitektastofuna Archistudio eiga heiðurinn af þessu sniðuga eldhúsi sem er í lítilli íbúð í Borovlyany í Hvíta Rússlandi. Í íbúðinni er allt hvítt, bæði veggir og innréttingar. 

Eldhúsinnréttingin er hvít sprautulökkuð og þegar allir skápar eru lokaðir lítur veggurinn út eins og hefðbundinn skápaveggur. Þegar hinsvegar er búið að draga hurðarnar frá blasir dýrðin við. Inni í skápnum er vaskur, ofn, eldavél, uppþvottavél og örbylgjuofn svo eitthvað sé nefnt. Ef þú ert svona týpa sem finnst alveg grautfúlt að vaska upp eftir matinn og vilt frekar gera það þegar þú vaknar á morgnana þá gætir þú bara lokað skápnum og haldið áfram að horfa á Sjónvarp Símans án þess að vera með samviskubit. 

mbl.is