Leiðist garðar sem eru hannaðir af timbursölumönnum

Vilmundur Hansen garðyrkjumaður og blaðamaður á Bændablaðinu.
Vilmundur Hansen garðyrkjumaður og blaðamaður á Bændablaðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilmundur Hansen, garðyrkjumaður og blaðamaður hjá Bændablaðinu, er ókrýndur garðyrkjugúru þjóðarinnar en hann stofnaði Facebook-hópinn Ræktaðu garðinn þinn sem hefur tæplega 38.000 meðlimi. Þar eys hann óspart úr viskubrunni sínum og miðlar reynslu sem hann hefur öðlast í sínu starfi síðustu fjörutíu árin. 

Vilmundur gleðst yfir því hversu mikið áhugi á garðyrkju og garðrækt hefur aukist á liðnum áratug. Hann segist sérstaklega hafa tekið eftir kipp eftir hrun en þá byrjaði landinn að fá áhuga á ræktun grænmetis í ríkum mæli enda óhætt að segja að hrunið hafi haft áhrif á lífsstíl og viðhorf okkar flestra.

„Allur hugsunarháttur í kringum garðyrkju hefur í raun tekið stakkaskiptum frá því ég byrjaði á þessu árið 1980. Til dæmis héldu foreldrar mínir að ég myndi svelta þegar ég ákvað að fara í þetta nám. Þetta væri bara algjör vitleysa, svona svipað og ef ég hefði tilkynnt að ég ætlaði bara að gerast ljóðskáld og lifa á því,“ segir hann og hlær.

Hann segir að sér finnist sérstaklega gaman að koma í hverfi þar sem hann vann fyrir þrjátíu til fjörutíu árum og virða fyrir sér breytingarnar.

„Sums staðar eru þær alveg magnaðar og það er ólýsanlega gefandi að sjá árangurinn af því sem maður hefur gert og um leið staðfestingu á því hvað það er í raun auðvelt að koma sér upp fallegum garði. Fólk er meira að segja byrjað að rækta ávaxtatré. Ég hef séð plómutré svigna undan ávöxtum í garði hér í Reykjavík,“ segir hann.

Heimaræktun er ekki keppni um stærðina heldur bragðið

Segja má að með heimsfaraldrinum sem nú gengur yfir hafi átt sér stað önnur bylgja viðhorfsbreytinga hjá þjóðinni og aftur lítur fólk inn á við, nýtur útiveru og byrjar að rækta garðinn sinn í orðsins fyllstu merkingu. Sumir hafa orðið fyrir tekjumissi og þá gerist það aftur að fólk fær áhuga á því að drýgja tekjurnar með því að rækta sitt eigið grænmeti. En hvernig á nýgræðingur í þessu að bera sig að? Hvað á að gera eftir að búið er að stinga upp beðið eða smíða ræktunarkassa?

Vilmundur segir að fyrst og fremst þurfi moldin að vera næringarrík og góð og að það sé alveg nauðsynlegt að nota áburð, sér í lagi lífrænan áburð.

„Lífrænn áburður er til dæmis þörungamjöl, hænsnaskítur, molta og þessháttar. Hugsanlega er svo hægt að fara í hesthúsin og fá kerru hjá hestafólkinu en slíkur áburður er mjög góður. Svo þarf að blanda þessu öllu vel saman,“ segir hann og bætir um leið við að matjurtir á borð við kartöflur, gulrófur og grænkál séu mjög góðar tegundir að rækta fyrir þau sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu.

„Í matjurtagarða er gott að nota tilbúinn áburð en maður þarf að passa sig að nota ekki of mikið. Hann pínir plönturnar upp í vexti og það getur verið á kostnað bragðsins. Matjurtarækt í heimagörðum er nefnilega ekki keppni um stærð heldur fyrst og fremst bragð,“ segir hann og bætir við að í ræktun kálplantna, rófna og hvítkáls sé nauðsynlegt að hafa akrýldúk yfir beðinu fram á aðra viku í júlí til að halda á þeim hita og hrinda frá kálflugum og annarri óværu.

Borgin mætti fjölga grenndargörðum

Spurður að því hvort hann eigi sér einhverja uppáhaldsgarða í borginni nefnir hann fyrst Grasagarðinn í Laugardal. Þar séu miklir snillingar í garðrækt að störfum og fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með. Þá nefnir hann einnig Fornalund sem er í grennd við BM Vallá. Grunnurinn að þeim garði var lagður af Jóni Dungal sem bjó á bænum Hvammi sem áður stóð á þessum stað. Fornilundur er fallegur lystigarður með ólíkum dvalarsvæðum, bekkjum og blómabeðum í öllum stærðum og gerðum.

„Svo er það auðvitað Hellisgerðið í Hafnarfirði og gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu sem er mjög fallegur og fjölbreyttur í sínu blóma- og trjáskrúði. Reykjavíkurborg mætti alveg fjölga fallegum görðum og gróðursvæðum og hvað þá grenndargörðum þar sem börn geta lært að rækta.“

Sólstofur geta lengt sumarið um þrjá mánuði

Líkt og með flest annað eru tískustraumar í görðum sem og öðru sem snýr að lífsstíl. Á tímabili og jafnvel ennþá hafa landsmenn haft mikla dellu fyrir því að fella tré og koma upp stórum sólbaðspöllum úr svokölluðu pallatimbri. Vilmundur er blátt áfram í skoðunum sínum á þessu.

„Það er hálfleiðinlegt að segja þetta því sum fyrirtæki sem selja hellur og pallaefni bjóða viðskiptavinum upp á ókeypis garðhönnun. Það er í sjálfu sér ekkert slæmt en auðvitað er leikurinn gerður til þess að selja fólki efni. Allir garðar sem eru hannaðir hjá timbursölum eru með pöllum og allir garðarnir sem eru hannaðir hjá hellusölum eru með hellum. Þetta hefur gert það að verkum að hér skortir oft fjölbreytileikann í görðum. Garðurinn og umhverfið í kringum húsið er alltaf fallegra og notalegra þegar fjölbreytileikinn fær notið sín og aldrei hefur verið auðveldara en núna að hanna sinn eigin garð því á netinu er úrval af allskonar forritum til þess,“ segir Vilmundur og bætir við að með þessu sé hann samt ekki að segja að fólk ætti að sleppa sólpallinum.

„Það er ekki skrítið að fólk sé svona hrifið af því að fá sér pall því hann er einskonar framlenging á stofunni í góðu veðri. Í mörgum tilfellum mætti fólk samt frekar íhuga að byggja sér garðskála því það lengir sumarið um þrjá mánuði í hvorn enda. Það er notalegt að sitja á pallinum, grilla og fá sér rauðvín, auðvitað er þetta allt mjög næs en það er smá synd hvað við getum notið þess í fáa daga á ári og þess vegna gæti garðskáli verið mikið betri kostur. Það er hægt að útfæra þá á margvíslegan máta, hafa opna að hluta til og margt fleira svo ég held það væri sniðugt fyrir þau sem eru í framkvæmdahug að kynna sér þann valkost.“

Pottaplöntur í tísku, innan sem utan dyra

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar nutu pottaplöntur gríðarlegra vinsælda á heimilum landsmanna en svo hurfu þær næstum alveg af sjónarsviðinu. Fyrir örfáum árum skutu þær svo aftur upp kollinum og njóta nú blússandi vinsælda, aðallega hjá yngri kynslóðinni. Vilmundur segir að nú séu pottarnir líka komnir út í garða þar sem bæði tré og blóm séu höfð í pottum til að fegra umhverfið. Þá segir hann líka að fólk sé byrjað að skreyta skjólveggi, til dæmis með hengiplöntum.

„Ein besta leiðin til að rækta jarðarber er í hengipottum sem er auðvelt að festa á skjólveggina og þau má líka rækta úti á svölum,“ segir hann.

„Svo er líka hægt að rækta talsvert fleiri tegundir af gómsætum berjum á Íslandi en flestir gera sér grein fyrir. Til dæmis eru sumir byrjaðir að rækta stikilsber og aðra tegund sem heitir því afleita nafni hlíðaramall en hét áður hunangsviður og það er nafn með rentu því berin á honum eru alveg ævintýralega góð. Hunangsviðurinn er sterkur og harðgerður og þannig mátuleg áskorun fyrir áhugasama ræktendur. Það er hægt að rækta alveg furðulega mikið á þessu landi og með ólíkindum hvað hægt er að gera í görðunum og á svölum ef fólk nær að gefa sér tíma. Þó sumarið sé stutt þá er það vel þess virði því lífið verður alltaf betra með gróðri og plöntum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »