Hefur unnið nánast alla sína ævi á sama staðnum

Guðmundur Vernharðsson eigandi gróðrarstöðvarinnar Mörk.
Guðmundur Vernharðsson eigandi gróðrarstöðvarinnar Mörk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ef Guðmundur Vernharðsson væri ein af plöntunum í Gróðrarstöðinni Mörk þá hefði hann ævintýralega djúpar rætur enda hefur hann hvergi unnið annars staðar á ævinni og unir sér best innan um gróðurinn. Hann er garðyrkjumaður af lífi og sál og lítur á garðyrkjuna sem leið fyrir fólk til að bæta heiminn og sjálft sig í leiðinni. 

Sautján ára flutti hann frá Holti rétt við Stokkseyri til höfuðborgarinnar til að hefja starfsnám í gróðrarstöðinni Mörk. Þetta var árið 1979 og hann er enn þar.

„Starfsferill minn hófst hér í Mörk svo hér hef ég starfað alla ævi, fyrir utan tvö ár. Í annað skiptið vann ég í görðum og svo fór ég í rekstrarnám í Danmörku árið 1999 því við konan mín keyptum gróðrarstöðina árið 2000,“ segir Guðmundur, eða Mummi í Mörk eins og hann er oftast kallaður.

Sjálfstýrð gróðurhús gera störfin léttari

Hann segir framfarirnar í faginu hafa verið miklar á þessum áratugum þó sumt hafi lítið breyst. Framfarirnar séu meðal annars í hönnun gróðurhúsa en sjálfvirkni þeirra er orðin gríðarlega mikil. Mummi fagnar þessu enda alltaf gott að láta tæknina létta sér störfin.

„Hér áður fyrr þá ræktuðum við til dæmis stjúpur í vermireitum sem glergluggar voru lagðir yfir. Þegar fólk kom að versla þá þurfti maður að lyfta glerinu, stinga blómin upp og pakka þeim svo inn í dagblöð. Nú sést þetta auðvitað ekki lengur,“ segir hann kíminn.

„Gróðurhúsin eru orðin svo fullkomin. Það er sjálfstýring á þessu öllu. Til dæmis eru mælar sem skynja uppgufun og sólarhita og stýra gluggaopnun eftir því svo að hitastig haldist rétt. Yfirleitt eru það þó fyrirtæki sem fjárfesta í svona húsum en það eru samt til gróðurhús ætluð almennum neytendum sem eru tæknivædd,“ segir hann og bætir við að þau kosti auðvitað sitt.

Garðrækt gengur misvel eftir hverfum höfuðborgarsvæðisins

Eins og flestir vita eru ræktunarskilyrði á Íslandi í takt við tíðarfarið og úrvalið eftir því. Nýjungagjarnir hafa því stundum tekið upp á því að frjóvga saman tegundir til að auka á fjölbreytileikann.

„Til dæmis hefur verið búið til rautt birki með því að blanda saman erfðum úr rauðu við íslenskt birki til að fá harðgerða tegund sem getur dafnað hér á landi. Þegar nýjar plöntur eru fluttar til landsins þá sækjum við þær á svæði sem liggja á svipaðri breiddargráðu en líka á staði þar sem loftslagið er svipað og þetta kemur mörgum á óvart en Alparnir eru eitt af þeim svæðum þar sem við getum sótt ýmsar gerðir. Alparnir eru háir og þar eru hitasveiflurnar svipaðar og hér tíðkast á sumrin,“ segir hann og bætir við að loftslagsbreytingar í heiminum hafi líka haft sín áhrif á hvað er hægt að rækta hér og hvað ekki. Þá skipti einnig máli hvort svæðið sem ræktað er í sé gamalt og gróið eða alveg nýtt og einnig hvort það sé nálægt sjó eða uppi á hæð. „Það fer í raun eftir því hvar maður er staddur á höfuðborgarsvæðinu hvort ein gerð sé heppilegri en önnur. Þegar hverfi eru orðin gömul og gróin myndast allt önnur ræktunarskilyrði. Árangurinn ræðst af því hversu gott skjólið er. Á norðanverðu Seltjarnarnesi reynir til dæmis mikið á gróðurinn, bæði út af vindi og salti frá sjónum og þá er mikilvægt að reyna að koma upp góðu skjóli.“

Borgin þarf að huga betur að grænum svæðum kringum nýjar byggingar

Mörg höfum við skoðanir á þéttingu byggðar og nýbyggingum í borginni. Guðmundur bendir á að þar mætti oft betur fara því garðar og gróður eru stundum vart sýnileg umhverfis húsin.

„Miðað við hvað nýju lóðirnar eru litlar ætti að leggja meira í að hafa gróður á svæðunum í kring sem tilheyra borginni og á milli húsanna, bæði upp á vellíðan íbúanna og til að gera veðurfarið betra. Menn vita í raun alveg að þetta er rétta leiðin en fjármagnsöflin fara ekki alltaf eftir því og stýra jafnvel alveg í þveröfuga átt. Nýta flatarmálið sem mest undir byggingar, vegi og gangstéttir. Bæði borgin og byggingarverktakar græða meira á þessu, fasteigna- og gatnagerðargjöld verða hærri en auðvitað kemur þetta niður á því hversu vistleg nýju hverfin verða,“ segir hann en bendir samt á að sums staðar sé þó farið að huga vel að þessu.

Aukinn áhugi á garðinum þegar enginn kemst til útlanda

Líkt og annars staðar kemur fram hér í blaðinu þá hafði efnahagskreppan meðal annars þau áhrif að fólk gerði ákveðnar lífsstílsbreytingar hjá sér og það sama hefur átt sér stað nú þegar Covid og sóttkvíin hægði á okkur öllum.

„Núna þegar fólk kemst bara ekkert til útlanda og er miklu meira heima hjá sér hefur áhugi á garðyrkjunni aukist mikið og þetta hefur ekki farið framhjá mér. Umhverfið fer að skipta meira máli í daglegu lífi. Stór hluti þjóðarinnar hefur auðvitað verið í útlöndum yfir sumarið og það skapar á vissan hátt vandamál í garðinum. Auðvitað viljum við byrja að upplifa sumarið sem allra fyrst og fólk reynir stundum að skreyta og setja niður áður en það fer úr landi. Svo kemur það heim og þá eru blómin steindauð úr þurrki,“ segir Mummi sem hefur pælt svolítið í því hvernig fólk virðist byrjað að líta á garðinn sinn með nýjum augum í takt við bæði umræðu um hlýnun jarðar, útrýmingu dýrategunda og annað sem hefur gerst af mannavöldum og hefur neikvæð áhrif á náttúruna.

Sjálfsþurftarhugsun og umhyggja fyrir býflugum

„Mér finnst eins og þetta hafi leitt það af sér að fólk finni meiri þörf fyrir að bæði gera eitthvað fyrir náttúruna og tengjast henni. Dæmi um þetta er að nú fæ ég stundum spurningar um blessaðar býflugurnar. Að þær eigi erfitt og því vill fólk gjarnan hjálpa þeim með því að kaupa blóm sem þær laðast frekar að. Þetta finnst mér mjög jákvætt. Svo má lesa annað út úr þjóðarsálinni, bæði í gegnum það sem gerðist í kreppunni og er að gerast aftur núna, að áhugi á matjurtagörðum hefur snaraukist. Fólk vill vera sjálfbjarga með mat og rækta eitthvað til að borða. Þó það sé bara tilhneiging, og lítið endi kannski á disknum, þá er virkilega gaman að þessi sjálfsþurftarhugsun sé enn í þjóðarsálinni og mér finnst þetta merkilegt í þessu samhengi. Í kreppunni, með allan þennan tíma, stoppar flandur um allt og margir leita ósjálfrátt inn á við og sú leit leiðir fólk út í garðinn eða nær náttúrunni.“

Hann segir að í öllu stressinu verði viðhorfið til garðsins þannig að fólk sjái bara fyrir sér vinnu, kvöð og leiðindi af því að það hefur engan tíma.

„Einn viðskiptavinurinn sagði einhverntíma við mig að hún liti á garðvinnuna eins og heimilisstörf. Þetta væri bara eitthvað sem þyrfti að gera. Svona ætti þetta ekki að vera. Þau sem komast upp á lagið með að njóta sín í garðinum, fara út eftir vinnu eða á kvöldin, fá eitthvað svipað út úr þessu og að stunda jóga og hugleiðslu. Aðrir líta út um gluggann og sjá fyrir sér vinnu en ekki að stinga puttunum í moldina og tengjast, sem er heilun út af fyrir sig.“

„Að skapa fallegan garð er eins og að búa til listaverk“

Líkt og Hafsteinn Hafliðason lítur Mummi á garðyrkjuna sem menningu eða „kúltúr“ eins og það kallast á flestum tungumálum. „Galdurinn er að kunna að njóta. Margir alast upp við að njóta tónlistar, skáldskapar eða myndlistar og þannig ætti því að vera farið með náttúruna og blómin, þá tegund af fegurð. En svo er fólk svo misjafnt og það finnum við í gróðrarstöðinni. Sumir rjúka inn og vilja bara kaupa nokkra kassa, svona eins og að líta á uppstillingu í Ikea og vilja kaupa hana, meðan aðrir gera þetta af innlifun, skynjun og löngun til þess að skapa og njóta. Að skapa fallegan garð er eins og að búa til listaverk. Fyrst byrjar maður á því að sjá það fyrir sér, skissar það upp og teiknar svo með plöntum,“ segir Mummi.

Árangurinn ræðst af góðu skipulagi og skýrri sýn

Hann bendir á að því meira sem maður skipuleggur garðinn sinn fyrirfram, og sér fyrir sér hvernig hann á að vera, því minni verði kostnaðurinn við framkvæmdina.

„Svo reynum við alltaf að stilla þessu þannig upp að viðhaldið verði sem minnst og að aðalsvæðin fái að njóta sín. Til dæmis skiptir aðkoman að húsinu miklu máli sem og þessir staðir sem maður dvelur mikið á, til dæmis pallurinn og útsýnið frá stofugluggum. Svo sparar maður baksvæðin,“ útskýrir hann og heldur áfram: „Það á líka að hugsa matjurtagarðinn út frá sömu forsendum. Fyrst þarf maður að hugsa út í hvað maður borðar og stinga því svo niður í stað þess að byrja að rækta grænmeti sem skemmist svo bara af því að fólk hvorki borðar það né hefur pláss til þess að geyma. Þá er mikið skynsamlegra að rækta til dæmis salat og kryddjurtir sem má hafa í eldhúsglugganum eða við grillið svo maður gleymi nú ekki að nota þær.“

Að endingu leggur hann sérstaka áherslu á gleðina sem skapast af því að rækta garðinn sinn og að það sé í raun hinn eini sanni tilgangur með garðræktinni. Að kalla fram gleði og ánægju.

„Í mínum huga snýst garðræktin fyrst og fremst um að njóta og það er fátt sem jafnast á við þá umbun að sjá árangurinn af eigin framlagi, hvað sem við erum að gera. Að sinna garðinum sínum, hlúa að honum og rækta til að geta notið fegurðarinnar og árangursins er með því besta sem fólk getur gert fyrir sjálft sig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál