Guðrún Lilja gerði upp kofa í Skammadal á undraverðan hátt

Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir hönnuður hefur sett kofann sinn á sölu.
Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir hönnuður hefur sett kofann sinn á sölu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir hönnuður festi kaup á kofa fyrir nokkrum árum sem hún hyggst nú selja. Hún segir kofann hafa marga góða kosti en einn sá besti er að netsamband er léleg á þessu svæði og því fullkomin leið til að núllstillast. 

„Fyrir 5 árum þá fórum við hjónin í bíltúr upp í Skammadal, höfðum ekki komið þangað áður. Í stuttu máli þá heilluðumst við af staðnum og umhverfinu og vorum búin að kaupa ónýtan kofa daginn eftir, áttum 870 þúsund inni á reikningnum okkar og vorum á leið til útlanda, keyptum kofann á 800 þúsund og áttum því 70 þúsund í gjaldeyri í viku í Barcelona. Lifðum spart þar og létum okkur dreyma um hvað væri gaman að gera í Skammadal þegar við kæmum heim. Þann kofa ætlum við að eiga áfram, það er alveg eftir að gera hann upp en erum búin að byggja lítið skjólhús og útieldhús svo að þetta er lítill draumareitur.

Kofinn sem er til sölu er er rétt hjá okkar kofa og upphaflega þá keyptum við hann því að ég þarf alltaf að hafa einhver verkefni og við hugsuðum að krakkarnir okkar vildu kannski nota hann eða jafnvel sem litla vinnustofu,“ segir Guðrún Lilja sem lítur á það sem mikla hvíld að smíða, hlúa að, græja og gera. 

„Mín hvíld er í því að smíða. Maðurinn minn gerir stundum grín að mér þegar ég er eirðalaus að ég þurfi að fara að smíða eða grafa holu eða eitthvað til að fá útrás. Það skemmtilega við að smíða að það er alltaf árangur. Hann er hinsvegar í lóðinni og gróðrinum, þar er ég ekkert sérstaklega þolinmóð en hann með græna fingur.“

Hvers vegna viltu selja kofann núna?

„Nú langar mig bara að fara að endurbyggja fyrri kofann og það er bara of mikil vinna að vera með tvo kofa og tvær lóðir - stundum þarf maður að vera bara í sólbaði,“ segir hún og hlær. 

Fyrir hvern er svona kofi?

„Svona kofi er fyrir félagsveru sem finnst samt gott að vera út af fyrir sig. Þetta er lítil skuldbinding þar sem ódýrari sumardvalarstað er varla hægt að fá, lítil lóðaleiga og fasteignagjöld, ekkert vatn, samt aðgangur að því og vatnsklósetti. Það er heldur ekkert rafmagn og lélegt netsamband sem er mikil hvíld í.

Þannig allt mjög beisik og gott að aftengja sig daglegu amstri þarna. Ég fer oft fyrir eða eftir vinnu því að það er ekki nema 20 mín akstur úr 101 sem ég bý. Að fara eftir vinnudag upp í Skammadal og kyrra huga, frá útrás fyrir smíðina og leyfa hundinum aðeins að hreyfa sig er bara geggjað.“

Guðrún Lilja segir að þessi kofabyggð sé einstök. 

„Þetta er eina kofabyggðin sem er til á Íslandi og því einstök að því leiti, flestir kofarnir eru ekki nema 8 - 15 fermetrar og með lóðarskika í kring. Það er fallegt samfélag þarna, mikið um útivistarfólk, hestamenn að fara framhjá, hjól og göngufólk því að það eru fjölbreyttar gönguleiðir á svæðinu, Helgafellið, og fleiri fell. Grænmetisgarðarnir eru á miðju svæðinu en þá er hægt að fá hjá leigða ef maður er stórtækur í ræktunarmálum. Svo eru hestar á beit, mjög mikið fuglalíf og einstök veðursæld þarna.

Það eru margir að uppgötva þetta svæði núna og kofar seljast fljótt koma þeir í sölu og frábært að sjá hvað margir eru að gera þá upp núna en margir þarfnast líka ást og umhyggju. Ég reyndi að hugsa endursmíðina þannig að hver stund dagsins væri hugsuð inn í umhverfið, að það væri hægt að elta sólina hringinn í kring um kofann og njóta eða bara sitja og láta fara vel um sig inni og horfa á fjallið, lífið og umhverfið bara út um gluggann og lesa góða bók.“

HÉR getur þú fengið nánari upplýsingar. 

mbl.is