Borðskreytingarnar gáfu tóninn fyrir veisluna

Sigurborg Selma skreytti borðið í anda þess sem það var …
Sigurborg Selma skreytti borðið í anda þess sem það var í brúðkaupinu hennar. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurborg Selma Karlsdóttir hélt brúðkaupsveislu í lok júní. Hún lagði mikið í borðskreytingar í brúðkaupinu því hún segir að þær gefi tóninn fyrir veisluna. Hún kann ekki að meta borðskreytingar úr plasti og því notar hún náttúruleg hráefni eins og mjaðjurt, lyng, blóm úr garðinum og hvítar rósir. Til að setja punktinn yfir i-ið verður brúðkaupstertan einnig skreytt með sömu blómum og í borðskreytingunum. 

„Ég og móðir mín, Guðbjörg Káradóttir, keramikhönnuður hjá Keri, sáum um borðskreytingarnar sjálfar. Við ákváðum að hafa þemað grænt og hvítt, og vorum með hvítar rósir í bland við lyng og önnur náttúruleg blóm úr garðinum. Mamma bjó til fjóraLavala-vasa á hvert borð sem hún handrenndi úr postulíni og eldfjallaösku svoleiðis að skreytingarnar urðu einstaklega persónulegar. Svo vorum við með kertaljós á borðunum til að hafa yfirbragðið hlýlegra,“ segir Sigurborg.

Að mati Sigurborgar skipta borðskreytingar miklu máli.

„Borðskreytingarnar geta í mörgum tilfellum sett stemninguna fyrir veisluna. Ég er með frekar mínímalískan og klassískan stíl og hef alltaf haft áhuga á blómum úti í náttúrunni frá því að ég man eftir mér. Karítas Sveinsdóttir hönnuður og ein smekklegasta kona landsins aðstoðaði okkur einnig við skreytingarnar.“

Hvað vildir þú leggja áherslu á í þínum borðskreytingum?

„Ég er svo heppin að fá vasa eftir mömmu mína á öll borð þannig að skreytingarnar urðu mjög persónulegar. Við röðuðum fólki til sætis og settum bakarabönd með litlum miðum með nöfnum gesta og lyngi á servétturnar. Auk þess vorum við með matseðil við hvert sæti sem tónaði þá við brúna litinn á miðunum.“

Hvað setti punktinn yfir i-ið?

„Falleg blóm, góð lýsing og í mínu tilfelli að hafa verk móður minnar á hverju borði sem mér þykir alveg ofboðslega vænt um.“

Hver eru helstu mistök sem fólk gerir þegar kemur að borðskreytingunum?

„Mér finnst alltaf gaman þegar fólk getur endurnýtt án þess að þurfa að kaupa of mikið af skreytingarefnum úr plasti sem er bara hægt að nota einu sinni og endar beint í ruslinu daginn eftir.“

Hér er Sigurborg Selma ásamt móður sinni, Guðbjörgu Káradóttur keramikhönnuði.
Hér er Sigurborg Selma ásamt móður sinni, Guðbjörgu Káradóttur keramikhönnuði. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »