Eitt flottasta innlitið úr nýja IKEA-listanum er hér!

Aðdáendur sænska móðurskipsins IKEA eru yfirleitt yfirspenntir á þessum árstíma því þá kemur nýr vörulisti. Í ár verður kemur listinn ekki inn um bréfalúguna því hann er aðeins gefinn út rafrænt. Vörulistinn er með sama sniði og undanfarin ár og er hugsaður sem handbók sem nota má til að fá hugmyndir fyrir heimilið. Í nýja vörulistanum er kíkt í heimsókn á sex heimili sem eru hvert öðru ólík.

Smartland fékk að koma í heimsókn á eitt þessara heimila en þar hafa nýbakaðir foreldrar komið sér fyrir á heillandi hátt. Þau höfðu þrjú meginatriði að leiðarljósi í verkefninu; hugmyndaflug, mikinn drifkraft og tímamörk, en þau rétt höfðu það af að klára að breyta íbúðinni áður en frumburðurinn fæddist.

Þessa nýbökuðu foreldra langaði í hlýlegt og notalegt heimili en höfðu ekki hugmynd um hvernig þau færu að því að búa það til. Þau byrjuðu á að finna litaprufur og textíl sem þeim líkuðu, notuðu útilokunaraðferðina og enduðu með djúpa jarðliti og náttúrulegt efni. Þau áttu mikið af húsgögnunum fyrir og bættu aðallega við skrautmunum og fylgihlutum ásamt nokkrum húsgögnum til að gera rýmið notadrýgra.

Eldhúsið var þegar á staðnum en þau skiptu úr örfáum hlutum og bættu við hirslum. Ótrúlegt en satt þá er þetta sama rýmið!

Það krefst forgangsröðunar að búa í litlu rými en ef eitthvað skiptir raunverulega máli er hægt að búa til pláss fyrir það. Til dæmis rúmar borðstofuborðið þeirra átta sæti en vinir og fjölskylda koma oft í heimsókn og því þjónar það þeim mjög vel.

Þau þurftu að hugsa fram í tímann þegar þau útbjuggu barnahornið en hugmyndin að rýminu var einföld. Þau vildu framkalla rólega stemningu og hafa hlutlaus húsgögn sem gætu annaðhvort vaxið með barninu eða hægt væri að nota þau aftur ef þau eignuðust annað barn. Eða jafnvel nýta annars staðar í íbúðinni seinna meir.

Málning, aukahillur og brakandi fersk handklæði geta skipt sköpum fyrir baðherbergið sem fer úr því að vera lúið með yfirþyrmandi flísum liðins tíma yfir í hlýlegt og notalegt rými.

Þetta er aðeins eitt þeirra sex heimila sem lesendur fá innsýn í í nýja vörulistanum og þar er alveg örugglega eitthvað fyrir alla. Þar má finna hafsjó af hugmyndum hvort sem ætlunin er að fara í stóraðgerðir eða gera heimilið litríkara, skipulagðara, sjálfbærara eða einfaldlega notalegra.

mbl.is