Eyðilagði Melania Trump rósagarð Hvíta hússins?

Melania Trump endurhannaði rósagarðinn í Hvíta húsinu.
Melania Trump endurhannaði rósagarðinn í Hvíta húsinu. Samsett mynd

Melania Trump sýndi á dögunum frá endurhönnun rósagarðsins fræga við Hvíta húsið í Washington D.C. í Bandaríkjunum. Endurhönnunin hefur hlotið mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum en garðurinn er töluvert líflausari en hann var áður. 

Melania tilkynnti fyrr í sumar að hún hygðist endurhanna garðinn og gera hann þægilegri fyrir tæknimenn og fjölmiðlaútsendingar. Garðurinn er einn af uppáhaldsstöðum eiginmanns hennar, Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, og er hann mjög hrifinn af því að flytja ræður í garðinum. Þá stefnir forsetafrúin einnig á að flytja ræðu á flokksþingi repúblikana í garðinum á næstunni.

Garðurinn var hannaður í forsetatíð Johns F. Kennedys. Náin vinkona Jackie Kennedy, Rachel „Bunny“ Mellon, hannaði garðinn með aðstoð þeirra hjóna. Að sögn Mellon vildu Kennedy-hjónin að garðurinn yrði jafn góður og garðar sem þau höfðu heimsótt í Evrópuferðum sínum. 

Rósagarðurinn áður en Melania Trump endurhannaði hann og svo afraksturinn.
Rósagarðurinn áður en Melania Trump endurhannaði hann og svo afraksturinn. Skjáskot/Twitter

Hönnun garðsins lauk árið 1962 og að mati Mellon endurspeglaði hann smekk Kennedys vel; hann var líflegur og skemmtilegur með litríkum blómum og plöntum. Hún valdi í hann fjölda plantna sem voru í blóma á mismunandi tíma og 12 falleg eplatré.

Eftir endurhönnun garðsins hefur hann að mati margra misst sjarma sinn. Litirnir eru horfnir og í stað þeirra hefur Melania valið hvítar og ljósbleikar rósir. Hún lét fjarlægja eplatrén og í stað þeirra eru komnir runnar.

mbl.is