Félag Sigurðar Valgeirs keypti höllina af Ingimundi

Hjónin Ólöf Hildur Pálsdóttir og Sigurður Valgeir Guðjónsson.
Hjónin Ólöf Hildur Pálsdóttir og Sigurður Valgeir Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagið Hvannakur ehf. hefur fest kaup á fasteign við Skildinganes 38 sem áður var í eigu Ingimundar Sveinssonar arkitekts.

Húsið var byggt 1977 og teiknað af Ingimundi sjálfum og má segja að hönnunin eldist vel og standist tímans tönn. Stór stofa prýðir húsið sem hefur að geyma vandaðan arin en úr stofunni er hægt að labba beint út í garð. Fallegar viðarklæðningar eru í loftinu. Fast­eigna­mat húss­ins er 157.450.000 kr. og fóru kaupin fram 4. september síðastliðinn. 

Húsið hafði verið í eigu Ingimundar frá 2013 eða þar til Hvannakur ehf. eignaðist húsið en það félag er í eigu Sigurðar Valgeirs Guðjónssonar lögfræðings sem starfar hjá ADVEL lögmönnum en hann er jafnframt einn af eigendum stofunnar. Áður var hann lögfræðingur og verkefnastjóri hjá Glitni, starfaði sem lögfræðingur hjá Kaupþingi banka í Lúxemborg og hjá Kaupþingi hérlendis. 

Sigurður Valgeir er kvæntur Ólöfu Hildi Pálsdóttur framkvæmdastjóra fjármálasviðs Advania.

mbl.is