„Þakklát mömmu fyrir að hanna draumahúsið mitt“

Hinrik Gunnarsson og Herdís Hallmarsdóttir.
Hinrik Gunnarsson og Herdís Hallmarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Herdís Hallmarsdóttir lögmaður býr í fallegu húsi sem stendur í mikilli náttúruperlu við Elliðavatn. Hún býr í draumahúsinu sínu sem móðir hennar, arkitektinn Sigríður Sigþórsdóttir, hannaði. Hugmyndin um að mæður viti best fær byr undir báða vængi í þessu viðtali. 

Herdís Hallmarsdóttir lögmaður starfar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Hún hefur áhuga á flestu því sem viðkemur húsum og hönnun eins og sjá má á hennar heimili.
Eldhúsið er einstaklega fallegt. Þar er hátt til lofts og …
Eldhúsið er einstaklega fallegt. Þar er hátt til lofts og fallegt útsýni. mbl.is/Árni Sæberg
Horft inn í eldhús. Könglullinn frá Louis Poulsen fer vel …
Horft inn í eldhús. Könglullinn frá Louis Poulsen fer vel yfir eldhúsborðinu og passar vel við stóla Hans J. Wegners. mbl.is/Árni Sæberg
Hnota prýðír innréttinguna sem skapar hlýleika á móti steyptu veggjunum.
Hnota prýðír innréttinguna sem skapar hlýleika á móti steyptu veggjunum. mbl.is/Árni Sæberg

Hún segir eitt það mikilvægasta við heimilið að það haldi vel utan um fjölskylduna. Fegurð og notagildi skiptir hana einnig máli.

„Þegar ég var að leita að húsi var mér bent á lóð á einstökum stað sem hafði verið skilað. Ég sótti um og var víst ekki ein um það, en dregið var milli umsækjenda og hafði ég heppnina með mér. Þannig kom þetta upp í hendurnar á mér, þetta einstaka tækifæri til að byggja mitt eigið draumahús – hannað af arkitektinum henni mömmu.“

Þess má geta að móðir Herdísar er arkitektinn Sigríður Sigþórsdóttir, stofnandi Basalt-arkitektastofunnar. Húsið, sem stendur í náttúruparadísinni við Elliðavatn, er einstaklega vel hannað og er náttúran eins og listaverk inn um glugga heimilisins.

„Ég verð að hrósa mömmu og félögum hennar á Basalt fyrir að gera okkur kleift að njóta náttúrunnar til hins ítrasta. Húsið er á þremur hæðum, það lagar sig vel að landinu og við njótum útsýnisins alls staðar í húsinu en fáum líka skjólsælan garð sem er mjög „prívat“ og snýr í suðurátt. Þrátt fyrir stóra glugga eru þeir þannig staðsettir að ég þarf varla á gardínum að halda. Ég nýt útsýnisins en horfi aldrei inn til nágrannana. Einfaldleiki í efnisvali er gegnumgangandi í hönnuninni. Sjónsteypa að utan sem tekur á móti manni og leiðir mann í gegn, í bland við hlýleika frá hnotu sem er í hurðum og innréttingum sem gefur sterkan blæ. Sto´rar grábrúnar flísar tengja það svo saman á hlutlausun hátt. Guðjón L. Sigurðsson í Lisku sá um lýsinguna og það skiptir verulegu máli að hún sé góð. Húsið er líka hannað með það í huga að geta tekið breytingum eftir aðstæðum og fjölskyldustærð.“

Hvað eruð þið mörg sem búið í húsinu?

„Ég bý með kærastanum mínum Hinriki Gunnarssyni, Hallmari syni mínum og kærustunni hans og Birtu dóttur Hinriks. Þá er hér alltaf athvarf fyrir stelpurnar okkar þær Sigríði Maríu dóttur mína og Sóleyju dóttur hans. Við erum öll „fullorðin“ og það fer mjög vel um okkur. Ég má auðvitað ekki gleyma sjálfri drottningunni á heimilinu, Míu, sem er fjögurra ára gömul aussie-tík sem hefur mjög ákveðnar skoðanir um hver megi fara með hana út að ganga og hvenær er kominn tími á að segja dagsverkið gott og hörfa upp í svefnherbergi.“

Þessi gluggi gefur fallega lýsingu í eldhúsinu.
Þessi gluggi gefur fallega lýsingu í eldhúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Eldhúsið er hjarta heimilisins

Hvað getur þú sagt mér frá svefnherberginu þínu og útsýninu þaðan?

„Útsýnið heima er engu líkt og það er síður en svo leiðinlegt að vakna á morgnana og fylgjast með sólinni rísa yfir Elliðavatninu. Umhverfið er mjög friðsælt og það á vel við mig að njóta kyrrðarinnar sem fylgir því að búa í sveit í borg. Svefnherbergið er ekki bara svefnherbergi og við hönnun hússins var sérstaklega tekið mið af því að ég elska næði og þægindi. Þannig er herbergið eina svefnherbergið á hæðinni og deilir í raun litlu sem engu plássi með öðrum rýmum hússins. Mömmu tókst ótrúlega vel upp enda eyði ég miklum tíma í rýminu. Það er fátt notalegra en að setja á góða tónlist, fara í heitt bað og setjast svo með góða bók með alveg ótruflað útsýni yfir íslenska náttúru.

Fyrir neðan húsið er malarvegur, með töluverðri umferð útivistarfólks og hestamanna, en hæð glugga er hönnuð þannig að ekki sést inn í rýmið utan frá.“

Hvað er hjarta heimilisins?

„Eldhúsið og borðstofan eru hjarta heimilisins. Við eigum öll okkar persónulegu athvörf í húsinu þar sem allir geta haft næði en svo er það í eldhúsinu og borðstofunni þar sem heimilisfólkið kemur saman. Rýmið býður fólk velkomið heim, það er opið, hátt til lofts en um leið vandað til hljóðvistarinnar. Stórir gluggafletir gefa mikla náttúrulega birtu, þar sem útsýnið er nýtt til hins ítrasta. Bein tenging við suðurhluta garðsins gerir að verkum að við njótum hans þegar veður leyfir.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikill kokkur sjálf, þótt ég njóti þess vissulega að borða góðan mat. Ég er meira fyrir það að elda á hátíðisdögum þar sem maður getur staðið í nokkra klukkutíma í eldhúsinu, en minna fyrir hversdagslegri máltíðirnar. En svei mér þá ætli ég sé ekki duglegri núna, enda er þetta eins og félagsmiðstöðin okkar heima og hún togar í mann.“

mbl.is/Arnþór Birkisson

Hver er uppáhaldsliturinn þinn?

„Ég er náttúrubarn og elska jarðliti. Hinrik fær mig svo annað slagið út fyrir boxið í litavali, hann kallar það að brjóta upp. Við höfum gaman af því að nostra heima og gera fallegt og í raun er í mestu uppáhaldi hjá mér þegar við blöndum saman litum og það heppnast að skapa vissa stemningu.“

Hefur alltaf tekið sér góðan tíma í að kaupa húsgögn

Hvað keyptir þú þér af húsgögnum fyrir heimilið?

„Ég hef sankað ýmsu að mér í gegnum tíðina en skandinavísk og ítölsk hönnun er í uppáhaldi. Þegar ég var ung sleppti ég því frekar að kaupa húsgagn þrátt fyrir að vanta það af því ég var að safna mér fyrir því sem mig raunverulega langaði í og ég sé ekki eftir því í dag. Þá velti ég hlutunum fyrir mér lengi og er ekkert að flýta mér. Þannig hef ég ekki átt sófaborð síðan Hinrik flutti inn, enda er ég enn að sverma fyrir ákveðnu borði. Ég tek samt annað slagið rúntinn og heimsæki það í búðinni. Einn daginn kemur það kannski heim með mér – hver veit?“

Leðurstóllinn var keyptur í Snúrunni.
Leðurstóllinn var keyptur í Snúrunni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hvað er gott heimili í þínum huga?

„Ég er mjög lukkuleg með húsið og þakklát mömmu fyrir að hanna draumahúsið mitt. Heimili er griðastaður sem manni þykir vænt um og líður vel í. Staður sem maður hefur lagt alúð í að stilla upp eftir eigin lífi og í kringum fólkið sitt og endurspeglar fólkið sem þar býr.“

Leðursófarnir voru keyptir í Epal og líka standlampinn sem er …
Leðursófarnir voru keyptir í Epal og líka standlampinn sem er frá Louis Poulsen. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
Listaverkið er eftir Tolla.
Listaverkið er eftir Tolla. mbl.is/Arnþór Birkisson
Útsýnið úr svefnherberginu er engu líkt.
Útsýnið úr svefnherberginu er engu líkt. mbl.is/Árni Sæberg
Hjónasvítan og baðherbergið mætast á sniðugan hátt.
Hjónasvítan og baðherbergið mætast á sniðugan hátt. mbl.is/Árni Sæberg
Falleg birta flæðir inn í baðrýmið.
Falleg birta flæðir inn í baðrýmið. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is/Arnþór Birkisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »