Einstakur hönnunarheimur í 105

Við Njálsgötu í Reykjavík stendur afar falleg 76.6 fm íbúð í húsi sem byggt var 1936. Þegar Auður Gná Ingvarsdóttir innanhússarkitekt festi kaup á íbúðinni hafði hún verið nánast óhreyfð frá upphafi. 

Árið 2018 var innra skipulagi íbúðarinnar breytt og gamla eldhúsið tekið undir hluta af baðherbergi, en fatahengi komið fyrir í hinum hlutanum og gengið er inn í það rými strax þegar komið er inn í íbúðina.

Gamla baðherberginu var breytt í stóran sturtuklefa sem er því eins og sér herbergi. Opnað var á milli svefnherbergis í gegnum rýmið þar sem í dag er sturtuklefi og yfir í rými sem nú er orðið hluti af baðherbergi, þar sem er að finna vask og salerni. Þaðan er síðan hægt að ganga út í gegnum fatahengið og myndast þannig hringrás frá svefnherbergi yfir í fatahengið og öfugt. Hugsunin var að gera íbúðina meira eins og hótelíbúð þar sem innangengt er úr svefnherbergi inn á baði og óvenjuleg nýting á rýmum gerir íbúðina einstaka. Hluti af því að skapa öðruvísi upplifun var að loka ekki fyrir hurðaropið inn á gamla baðið, heldur koma fyrir stóru gleri sem opnar baðrýmið skemmtilega inn í íbúðina og hleypir líka birtu og dýpt inn í rýmið. 

Anddyrið er málað með fallegum gylltum litum og frá anddyri liggja síðan hurðarop inn í annars vegar stofu og eldhús og hins vegar svefnrými og baðherbergi. Þessi rými eru aðgreind með svörtu og hvítu háglansgólfi. Svarta gólfið er á svefnrými og inn á baðherbergið, en sá hluti íbúðarinnar snýr til norðurs og því var ákveðið að dekkra gólfið færi þar og hvíta gólfið er á þeim hluta íbúðarinnar sem snýr til suðurs þar sem mikil birta flæðir inn í eignina. Á þennan hátt eru suður- og norðurhluti íbúðarinnar aðgreindir. 

Eldhúsið er opið inn í stofunni og það sem gefur því rými mikinn svip eru frístandandi pottofnar sem voru pólýhúðaðir í mjög fallegum djúpfjólubláum lit. Ákveðið var að leyfa ofnunum að standa á upprunalegum stað eftir að veggur sem aðgreindi stofurýmin var rifinn niður. Ofnarnir verða eins og skúlptúrar í rýminu og njóta sín mjög vel frístandandi í stofunni. 

Af fasteignavef mbl.is: Njálsgata 104

mbl.is