„Mitt skref í átt að því að fullorðnast“

Valgerður keypti sína fyrstu íbúð á árinu og hefur verið …
Valgerður keypti sína fyrstu íbúð á árinu og hefur verið að gera hana að sinni síðan hún flutti inn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tónlistarkonan Valgerður Þorsteinsdóttir keypti sér sína fyrstu íbúð í sumar. Hún keypti fallega litla íbúð í Vesturbænum og hefur verið að gera hana að sinni síðustu vikurnar. 

Valgerður var á leigumarkaðnum þegar hún var í myndlistarnámi fyrir norðan en flutti svo aftur heim til móður sinnar þegar hún flutti aftur suður. Hún segir að það hafi verið orðið ágætlega tímabært fyrir sig að kaupa sér íbúð núna, en Valgerður er 27 ára gömul.

„Eins mikið og ég elska foreldra mína fannst mér þreytandi að geta ekki bara sest við píanóið og sungið eins hátt og mig langaði, eða gengið um berrössuð eftir sturtu. Þetta var svona mitt skref í átt að því að fullorðnast, og það gengur bara alveg ágætlega,“ segir Valgerður. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Áður en ég fann mína íbúð hafði ég þannig séð engar ákveðnar hugmyndir, ég trúi því að lífið taki mann þangað sem maður á að vera hverju sinni. Ég var að heimsækja fjölskylduna mína á Akureyri þegar mamma sendi á mig hlekk af íbúðinni á Hringbraut og spurði hvort ég hefði áhuga á að skoða, það væri opið hús daginn eftir og ég þyrfti þá að drífa mig suður.

Ég ákvað að láta vaða og hugsaði: „Ef þessu er ætlað að verða, þá verður það.“ Ég var síðan mætt á opið hús daginn eftir og féll algjörlega fyrir íbúðinni, gerði tilboð og það var samþykkt sólarhring síðar. Íbúðin var björt og falleg, á fullkomnum stað, með rúmgóðum svölum og bókstaflega í næstu götu við foreldra mína svo ég fór nú ekki of langt frá mömmu. Ég keypti af yndislegu pari, þau voru búin að gera íbúðina mikið upp og þetta var í rauninni bara algjör draumur fyrir mig og ég gæti ekki verið sáttari,“ segir Valgerður. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Leyfði hjartanu að ráða för

Valgerður hefur síðustu vikur verið að gera íbúðina að sinni og segist algjörlega hafa leyft hjartanu að ráða för. „Ég myndi segja að íbúðin endurspeglaði mig og minn karakter. Ég hef sterkar skoðanir og veit yfirleitt alveg hvað ég vil og vil ekki. Mig langaði t.d. alls ekki að fá mér sjónvarp, ég horfi aldrei á sjónvarp og frekar en að koma heim eftir langan dag og kveikja á sjónvarpinu set ég plötu á fóninn og dúlla mér.

Það að hafa ekki sjónvarp verður líka til þess að fólk talar meira saman þegar það kemur í heimsókn til mín, og spjallar við mig á meðan elda og er með gesti. Þá er ekki þetta utanaðkomandi áreiti og stundin verður verðmætari fyrir vikið. Hver einasta ákvörðun sem ég tók varðandi íbúðina kom mjög náttúrulega til mín, ég hugsa að þetta snúist að miklu leyti um að treysta eigin innsæi,“ segir Valgerður.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Öryggi og hlýja skipta mig miklu máli, mig langaði að skapa heimili með karakter og sál. Ég lít á heimili mitt sem minn griðastað og þar á manni að líða vel. Ég er kertasjúk og er með kerti um alla íbúð, hljóðfærin mín eiga stóran sess í mínu lífi og mér finnst dásamlegt að vera umvafin hljóðfærum, bókum, vínilplötum, fallegum húsgögnum og huggulegri birtu,“ segir Valgerður þegar hún er spurð hvers konar andrúmsloft hana langaði til að skapa á heimilinu. 

Valgerður er í söng- og píanónámi við MÍT og stefnir á hljóðfæratónsmíðar í Listaháskóla Íslands á næsta ári. Þess á milli vinnur hún sem sundlaugarvörður í Sundlaug Seltjarnarness. „Ég fer í sund á hverjum degi, vatnið er svo heilandi og endurnærandi, maður er bæði laus við áreiti frá símanum, svo lendir maður oft á spjalli við áhugavert fólk í pottinum.“

Innlit
Innlit Kristinn Magnússon

„Maður á að þiggja alla þá aðstoð sem manni býðst“

Valgerður hefur notið aðstoðar fjölskyldu sinnar og vina í flutningunum og öðru. Hún segir að maður eigi að þiggja alla þá aðstoð sem manni býðst því það sé svo miklu skemmtilegra að brasa með fólkinu sínu.

Það má segja að heimili Valgerðar sé hin fullkomna blanda af nýju og gömlu. Þar má finna húsgögn frá ömmu hennar og ömmusystur, sem hún var svo heppin að fá. „Það er mikill pakki að ætla að kaupa allt nýtt, ég var líka mjög dugleg að fara á nytjamarkaði og geri það reglulega, mér finnst algjörlega æðislegt að gefa gömlum húsgögnum nýtt líf,“ segir Valgerður. 

Þegar Valgerður fékk íbúðina afhenta langaði hana að taka baðherbergið smávegis í gegn, mála flísarnar, skipta um blöndunartæki og baðskáp. „Þegar ég tók baðskápinn niður hafði myndast mygla á bak við spónaplötu á veggnum, og ég með mitt stóra skap og þrjósku ákvað bara að rífa allt út. Eins og ég sagði áður, þá fékk ég mikla hjálp frá yndislegu fólki, ég væri klárlega ekki búin með baðið án þeirra. Ég hafði mjög gaman af því að innrétta baðið frá grunni og ég lærði mikið af þessu og mér þykir vænt um baðherbergið mitt fyrir vikið.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún á þó erfitt með að gera upp á milli herbergja á heimilinu. „Það er yfirleitt mesta lífið í stofunni. Þar eru hljóðfærin mín og plötuspilarinn, þar kem ég til með að mála, trönurnar eru að minnsta kosti komnar upp.

Út um stofugluggann horfi ég svo á grænan garð og tignarleg tré sem veita mér jarðtengingu. Það er yndislegt andrúmsloft í þessari íbúð og enginn einn staður í meira uppáhaldi en annar, hvert og eitt herbergi er mikilvægt fyrir það sem maður er að gera hverju sinni, hvort sem ég er að elda, syngja í sturtu, hvíla mig, semja eða með matarboð.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál