Netverslun Góða hirðisins opnuð í dag

Netverslun Góða hirðisins opnar í dag.
Netverslun Góða hirðisins opnar í dag. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Netverslun Góða hirðisins var opnuð í morgun á slóðinni www.godihirdirinn.is. Góði hirðirinn er ekki alveg grænn í sölu á netinu því netsala hófst á facebooksíðu hans þegar fyrsta bylgja Covid-19 reið yfir. Viðtökurnar voru svo góðar að því var haldið áfram eftir að fyrsta bylgjan gekk niður.

Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins, segir að netverslunin sé rökrétt skref fyrir Góða hirðinn. Hagnaðarvon er ekki það sem ýtir undir þessa starfsemi. Góði hirðirinn er ekki rekinn í hagnaðarskyni heldur til að stuðla að sjálfbærni með því að veita notuðum hlutum framhaldslíf og draga þannig úr sóun og úrgangsmyndun.

„Með netversluninni getum við náð meiri árangri á sviði sjálfbærni með aukinni þjónustu við viðskiptavini okkar. Netverslunin er ekki síður mikilvæg í baráttunni við Covid-19 og nauðsynleg svo við getum unnið að markmiðum okkar á þessum tímum. Netverslun Góða hirðisins er því bæði skref í átt að meiri sjálfbærni og á sama tíma þjónusta við fólk sem treystir sér ekki til að mæta í verslunina okkar í Fellsmúla. Með netversluninni viljum við gera enn betur, bæði á sviði sjálfbærni og smitvarna,“ segir Ruth.

Hér má sjá hvernig hin nýja netverslun lítur út.
Hér má sjá hvernig hin nýja netverslun lítur út. Skjáskot

19 milljóna tap eftir fyrstu bylgjuna

Góði hirðirinn, líkt og fleiri verslanir, lokaði tímabundið í vor meðan fyrsta bylgja faraldursins reið yfir og þótt salan á Facebook hafi gengið vel var tapið 19 milljónir. Verslunin var svo opnuð aftur 20. apríl en þó með fjöldatakmörkunum. Að sögn Ruthar gekk vel í sumar og haust og náðu þau að vinna upp tapið og gott betur. 

Vegna hertra samkomutakmarkana sem tóku gildi á mánudag gilda fjöldatakmarkanir aftur í versluninni og geta aðeins 15 viðskiptavinir komið inn í hana í einu. 

„Komum að verkefninu á forsendum sjálfbærni“

Fulltrúar Smartmedia komu að máli við forsvarsmenn Góða hirðisins fyrir nokkrum mánuðum þegar þau sáu að hægt væri að ná meiri árangri í netsölu með eiginlegri netverslun. Arnar Jónsson, sölustjóri Smartmedia, segir fyrirtækið stolt af því að geta stuðlað að aukinni sjálfbærni með samstarfi við Góða hirðinn. „Við komum að verkefninu á forsendum sjálfbærni og samfélagsábyrgðar. Það eru forréttindi að geta stutt við starfsemi þar sem fólk vinnur af heilum hug við að draga úr sóun og stuðla að betri framtíð fyrir komandi kynslóðir.“ 

Viðskiptavinir Góða hirðisins geta keypt valdar vörur í öruggri netverslun og sótt keyptar vörur næstu tvo laugardaga eftir kaupin.

Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins.
Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Ketilbjöllurnar mættar á svæðið

Í fyrstu bylgjunni spáði Ruth því í viðtali við mbl.is að ketilbjöllur og ýmis æfingabúnaður myndi skila sér inn í verslunina nokkrum mánuðum eftir að fyrsta bylgjan reið yfir. Hún reyndist sannspá.  „Við höfum verið að sjá aukningu í líkamsræktartækjum. Við erum að fá spinninghjól, hlaupabretti, skíðavélar og svo lóð, teygjur og bolta,“ segir Ruth.

Það hefur líklegast ekki farið fram hjá áhugafólki um hreyfingu að líkamsræktarstöðvum var lokað á mánudaginn vegna hertra samkomutakmarkana. Þeir sem ekki nældu sér í búnað til að stunda heimaæfingar í fyrstu bylgjunni ættu því ekki að koma að tómum kofunum hjá netverslun Góða hirðisins.

mbl.is