Íslensk ösp úr Heiðmörk prýðir baðinnréttinguna

Íslenskir skógar framleiða sífellt meira af gæðatimbri og góðum smíðavið. Þessi baðherbergisinnrétting er gott dæmi um hvernig megi nýta íslenska ösp sem felld var í Heiðmörk í byrjun árs. Byggingafræðingurinn Ari Þorleifsson hjá Basalt arkitektum á heiðurinn af hönnuninni.

„Þegar skógarnir vaxa verður þörf á að grisja skógana og er það hluti af heilbrigði skóga til að gera hann sterkari gegn vindum. Einnig verður skógurinn fallegri og bjartari útivistarskógur fyrir vikið. Við grisjum skógarins fellur til timbur sem við hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur erum að læra að nýta. Fyrir nokkrum árum komum við okkur upp flettisög en með henni náum við að búa til viðarborð.

Ári síðar fjárfesti Skógræktarfélag Reykjavíkur í klefa til að þurrka timbur. Þetta er sem sagt tölvustýrður klefi þar sem skynjarar skynja rakainnihald viðarins á meðan þurrkun á sér stað. Töluverð fræði eru á bak við að vinna timbur úr skóginum. Gæta þarf að því að viðurinn springi ekki við þurrkun. Þetta gerir það að verkum að nú getum við afgreitt inniþurran við í fyrsta skipti. Skemmtilegt dæmi um nýtingu viðarins úr Heiðmörk er baðherbergisinnrétting sem Ari Þorleifsson gerði úr ösp úr Heiðmörk,“ segir Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Byggingarfræðingurinn, Ari Þorleifsson, segist hafa valið ösp vegna þess hve falleg hún er og nokkuð sérstæð í útliti. Hann segir að öspin hafi lítið sem ekkert verið notuð og því gaman að prófa. Viðurinn sé mjúkur og fínt að vinna með hann. Hann starfar hjá arkitektastofunni Basalt og segir mikið lagt upp úr því að nota umhverfisvæn efni í verkefnum sem stofan tekur að sér.

Basalt hannaði til dæmis VÖK Baths sem stendur við Urriðavatn hjá Egilsstöðum. Böðin hafa algerlega slegið í gegn og þykja einstaklega fallega hönnuð. Þar var lerki úr nágrenninu notað í klæðningu og palla. Ari segist oft leggja það til við viðskiptavini að notað sé timbur, gjarna íslenskt, og fólk sé spennt fyrir því. Áhuginn á að nota íslenskt timbur í hvers kyns byggingar er svo sannarlega fyrir hendi að mati Ari, en helst spurning um magn og að auðvelt sé að nálgast efniviðinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »