Hannaði geggjuð speglaverk í lúxusíbúðunum við höfnina

Í nýju húsunum við Austurhöfn sem Smartland fjallaði um á dögunum er að finna stórar og fallegar veggmyndir sem prýða anddyri húsanna. Verkin hafa vakið talsverða athygli en það var hönnuðurinn Siggi Odds sem hannaði veggmyndirnar. Hann sækir innblástur í gamla hafnarsvæðið í þessum verkum sínum. 

„Ég sótti innblástur í Austurhöfnina eins og hún var á árum áður þegar skipin lögðust að bryggjunni í röðum og mynduðu lóðréttan rytma sem tókst á við láréttar línur hafsins og landslagsins. Ég sótti líka innblástur í aðra borgargersemi sem hefur sama hafnarlandslag að fyrirmynd, verk Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu,“ segir Siggi sem hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín. Hann starfaði í áratug sem hönnuður og art director hjá Jónsson & Lemacks en er nú fluttur til starfa hjá hönnunarstofunni Hugo & Marie í New York, sem hefur unnið fyrir þekkt vörumerki á borð við Saint Laurent, Apple, Nike o.fl., ásamt því að vinna sjálfstætt sem hönnuður og myndskreytir.

„Það er spennandi að vinna hjá Hugo & Marie, sem er ung og kraftmikil hönnunarstofa sem vinnur við ímyndarhönnun, vefhönnun og herferðir fyrir fyrirtæki af öllum skala,“ segir Siggi en hann vinnur þó frá Íslandi um þessar mundir vegna heimsfaraldurs. „Það hefur lengi verið draumur minn að búa og starfa í New York þar sem margar af fyrirmyndum mínum hafa starfað þar og verkefnin eru öll af aðeins stærri sniðum, gæðakröfurnar hærri, hraðinn mun meiri og verkefnin eiga það til að ná til mun fleiri en á Íslandi.“

Sigurður hefur unnið mikið við hönnun fyrir tónlist, bókmenntir og önnur menningartengd verkefni, má þar helst nefna bókakápuhönnun fyrir Þórarin Eldjárn og plötuumslög fyrir Hjaltalín, GDRN, Högna, Sturlu Atlas, Sykur og Young Karin. Þá hefur hann verið iðinn við að stofna til eigin verkefna til sýningar á HönnunarMars, og má þar nefna verkefnin Infinite String Quartet, sem var gagnvirkt tónverk unnið í samvinnu við Úlf Eldjárn og Halldór Eldjárn; 101 Nights by Sturla Atlas, þar sem herferð og umbúðir utan um ilmvatn ásamt sýningu varð aðalkynningarefni nýrrar útgáfu tónlistarhópsins; og síðast verkefnið Rúnamerki, þar sem Sigurður endurteiknaði þekkt íslensk vörumerki í rúnaletri og sýndi í Þjóðminjasafni Íslands.

Hægt er að skoða verk hans á vefnum Siggiodds.com. 

mbl.is