Færðu eldhúsið inn í borðstofu til að fá aukaherbergi

Katrín Atladóttir.
Katrín Atladóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjónin Katrín Atladóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Sveinn Friðrik Eydal Sveinsson fjármálastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi búa í fallegri íbúð við Teigana í Reykjavík. Hjónin eiga tvö börn, fjögurra og sjö ára, og vantaði aukaherbergi. Valið stóð á milli þess að flytja eða breyta íbúðinni og völdu þau síðari kostinn. 

Hvað vilduð þið kalla fram með þessum breytingum?

„Okkur vantaði herbergi fyrir fjögurra ára dóttur okkar, en hún hafði deilt herbergi með sjö ára bróður sínum. Okkur fannst líka skipulagið ekki alveg nógu skemmtilegt, með þessa borðstofu sem við nýttum eingöngu á afmælum og áramótum og eldhúsið svona lokað af frammi. Valið stóð á milli þess að flytja eða ráðast í breytingar. Svo erum við mjög ánægð með staðsetninguna innan hverfisins en við erum með útsýni yfir leikskólann og skólann þannig að við enduðum á að velja það síðarnefnda. Við sáum fyrir okkur skemmtilegri fjölskyldustemningu með eldhúsið samofið stofunni, sem hefur verið raunin,“ segir Katrín.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín og Sveinn færðu eldhúsið í borðstofuna. Fyrir valinu varð hvít sprautulökkuð innrétting með eyju.

„Við vorum alveg ákveðin í að hafa hvíta innréttingu og ljósan stein. Við erum hrifin af náttúrulegum efnum og okkur þykir marmari alveg ótrúlega fallegur en flestir vara við því að hann sé svo viðkvæmur. Við vorum búin að panta kvarts, en prufurnar voru lengi á gólfinu hjá farþegasætinu í bílnum og alltaf þegar ég rak augun í þær hugsaði ég um hversu miklu fallegri mér þótti marmarinn. Eftir svefnlausar nætur sneri ég því ákvörðuninni. Þetta er í raun það eina sem ég var svona efins með og lengi að ákveða. Ég sé alls ekki eftir ákvörðuninni, ég nýt þess að horfa á marmarann og svo er alveg ótrúlega gott að koma við hann, hljómar fáránlega en það er satt,“ segir hún og hlær.

Fenguð þið einhverja hjálp varðandi hönnun á innréttingum og litavali?

„Ég var algjörlega óviss um hvernig ætti að koma þessari innréttingu fyrir þarna og eftir heimsóknir frá vinkonum þar sem við fórum yfir málin og ég snerist bara í enn fleiri hringi rakst ég á auglýsingu frá Sólveigu Andreu innanhússarkitekt á Facebook sem var nýbúin að hanna svona flutning á eldhúsi og leist svo vel á. Ég lenti svo í sóttkví í byrjun framkvæmda og þá var algjörlega frábært að hafa hana. Hún lagði til hugmyndir að lit á veggjum, eina sem ég bað um var ekkert grátt. Mér leist svo vel á tillögurnar að ég ákvað að treysta henni bara alfarið fyrir þessu. Það var góð ákvörðun því ég er alveg rosalega ánægð með litavalið.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvernig breytir það stemningunni á heimilinu að þið færðuð allt til?

„Það breytir fjölskyldulífinu þónokkuð mikið að sá sem er að stússa í eldhúsinu er ekki einn í einhverju herbergi frammi heldur eru allir í sama rýminu. Það er miklu notalegra, hvort sem verið er að hjálpast að við eldamennsku eða fjölskyldumeðlimir að sinna mismunandi verkefnum. Það kemur mér líka á óvart hversu mikið það breytti að fá sérherbergi fyrir dótturina. Hún nýtur þess svakalega vel að vera með sitt dót í sínu herbergi, fram að breytingum hafði það að mestu verið í stofunni svo það er gott að losna við það þaðan. Hún fær oft vinkonur í heimsókn og það er æðislegt hvað þær eru duglegar að vera inni í herbergi og leika sér með dót í lengri tíma.“

Þurftuð þið að fjárfesta í nýjum húsgögnum við þessa breytingu?

„Við þurftum að kaupa nýtt borðstofuborð og -stóla en það sem við áttum passaði ekki lengur. Við gerðum mjög góð kaup í notuðu borði sem hafði verið nýtt sem fundarborð í Hrím á Laugavegi. Svo keyptum við nýjar hillur sem pössuðu betur inn, eina sem vantar núna er góður kústaskápur.“

Eru einhverjar breytingar í kortunum á heimilinu eða er þetta komið?

„Eina sem vantar núna er fyrrnefndur kústaskápur og svo er á planinu að teppaleggja stigaganginn. Við erum annars alveg ótrúlega lukkuleg hér með það sem okkur finnst vera nýja íbúðin okkar.“

Þegar Katrín er spurð út í hverfið sitt, Laugardalinn, segir hún að það hverfi búi yfir fjölmörgum kostum.

„Laugardalurinn er yndislegur. Ég er alin upp Langholtsmegin en bý nú í Laugarnesinu. Hér er skjólsælt og upplifunin smá þannig að hér sé alltaf gott veður. Það er hægt að sækja nánast alla þjónustu innan hverfis og börn geta stundað nánast allar íþróttir sem eru í boði hér í nágrenninu. Það er stutt í græn svæði og náttúru og stemningin er bara almennt notaleg. Börnin eiga marga vini í hverfinu og sonur minn fer allra sinna ferða áhyggjulaus á hjólinu sínu. Við erum ótrúlega ánægð með leikskólann og skólann sem og íþróttafélögin Þrótt og Ármann sem sinna börnunum okkar vel. Svo eigum við líka frábæra nágranna.“

Hvað finnst þér að góð borg þurfi að hafa til að bera?

„Góð borg þarf að bjóða upp á góða grunnþjónustu fyrir borgara. Þar þurfa að vera góðir skólar og tryggð daggæsla við lok fæðingarorlofs. Það þarf að vera gott að búa þar, lífsgæði mikil sem og lífvænleiki. Það þarf að vera fjölbreytileiki svo fólk hafi val um hvers konar lífi það vill lifa. Það þarf að vera frelsi og val varðandi til dæmis búsetu og samgöngumáta, og þá er ég að tala um raunverulegt frelsi. Kostirnir þurfa allir að vera góðir. Góð borg býður upp á mannlíf og menningu, skemmtilega viðburði að sækja og góða veitingastaði. Það þarf að vera frjór jarðvegur og umhverfi fyrir fyrirtækjarekstur. Án atvinnulífsins eru engin störf fyrir íbúa. Álögur á íbúa þurfa svo að vera í hófi svo fólk geti notið erfiðis vinnu sinnar.“

Hvað finnst þér að þurfi að gerast í borginni svo hún verði betri?

„Borgin þarf að þjónusta barnafólk betur. Það þýðir lítið að stæra sig af ódýrustu leikskólunum þegar í sumum hverfum komast börn ekki að fyrr en tveggja og hálfs árs. Mér finnst mikilvægara að veita bestu þjónustuna en ódýrustu. Fólk er að lenda í því að þurfa að keyra tugi kílómetra á dag með barnið sitt í leikskóla utan hverfis, sem eykur bæði umferð, mengun og streitu foreldra. Útsvar er í hámarki og fasteignagjöld hafa hækkað upp úr öllu valdi, heimilum og ekki síður fyrirtækjum til mikils ama. Við þetta má bæta stanslausu hiksti á ýmiss konar þjónustu á vegum borgarinnar. Húsnæðisskortur er áþreifanlegur, heimilislausum fjölgar og vandræðagangur við mönnun leikskóla er endurtekið efni.“

Hvað drífur þig áfram í vinnunni þinni sem borgarfulltrúi?

„Ástríða fyrir frelsi einstaklingsins, valfrelsi og til að búa til betri borg. Það er mjög gefandi að leggja fram tillögur að einhverju sem maður trúir að geri borgina betri og fá þær samþykktar og sjá þær í framkvæmd, finna að maður raunverulega hefur áhrif. Ég er núna formaður stýrihóps um nýja hjólreiðaáætlun, sem er mest spennandi verkefni sem ég hef fengið.“

Finnst þér vanta eitthvað í hverfið þitt?

„Hér í Laugardalnum er allt til alls og stutt í mikið af þjónustu, íþróttum og afþreyingu. Það væri kannski gaman að sjá íþróttaaðstöðuna uppfærða svolítið, þar sem hún er komin vel til ára sinna. Ég vissi ekki að það væri hægt að koma jafn mörgum krökkum á einn gervigrasvöll og raun ber vitni. Þróttur á ekkert íþróttahús, eins eru íþróttahúsin við skólana annaðhvort lítil eða ekki til staðar. Rakið mál að bæta úr því.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál