Af hverju erum við með stofu sem enginn notar?

Guðbjörg Glóð er búin að gera svalirnar eintsaklega huggulegar hjá …
Guðbjörg Glóð er búin að gera svalirnar eintsaklega huggulegar hjá sér. mbl.is/Árni Sæberg

Guðbjörg Glóð býr ásamt Gunnari Barra syni sínum í Sjálandshverfinu í Garðabæ. Fyrir tveimur árum ákvað hún að breyta um lífsstíl. „Ekki það að lífsstíllinn minn hafi verið verulega óhollur en hann var samt ekki hollur heldur. Ég fann að árin voru farin að segja til sín og að ég þyrfti að fara að gera eitthvað í málunum.“

Guðbjörg Glóð byrjaði nýja lífsstílinn á því að synda.

„Ég byrjaði á nokkrum ferðum sem svo urðu fleiri. Ég fékk svo mikinn áhuga fyrir bringusundi að ég var farin að vafra á netinu og horfa á kennslumyndbönd á Youtube á kvöldin.“

Lífsstílsbreyting sem byrjaði með hreyfingu

Í ársbyrjun 2018 byrjaði Guðbjörg Glóð í núvitundar- og hugleiðslunámi hjá Eckhart Tolle sem tók sex mánuði og er kennt á netinu.

„Þar lærði ég meðal annars að hugleiða og auk núvitundar kynntist ég alls konar leiðum til þess að gera lífið betra. Vegna kórónuveirunnar mátti ekki fara í sund og þá byrjaði ég að labba úti og nú finnst mér það svo gaman að ég má varla sleppa úr degi án þess að fara út að labba. Göngutúrar er svo einföld hreyfing. Maður þarf ekkert annað en að fara í skó, opna útidyrnar og leggja af stað. Engar tímapantanir og engin íþróttataska.

Stofan á heimilinu er stílhrein og falleg.
Stofan á heimilinu er stílhrein og falleg. mbl.is/Árni Sæberg

Ég sem fyrrverandi sjónvarpsáhugamanneskja eyði nú mestum tíma heima við í hreyfingu, grúsk og hugleiðslu en samt langmest í samveru með syni mínum.“

Hvað geturðu sagt mér um breytingarnar sem þú gerðir í svefnherberginu?

„Gunnar Barri sonur minn er níu ára en um leið og hann varð meira sjálfbjarga fór ég að finna fyrir því hvað einkalíf mitt varð sífellt minna inni á heimilinu. Hann vakir lengur, skilur meira og hlustar þegar maður er í símanum eða er með gesti í heimsókn. Íbúðin okkar er mjög opin og hvort okkar með eigið herbergi. Hann er ekkert voða mikið inni í sínu frekar en ég í mínu herbergi. Mig var því farið að vanta stað til þess að vera meira ein þegar hann er með vini í heimsókn eða þegar ég vildi ræða mál í síma út af fyrir mig. Vinkona mín kom með þá snilldarhugmynd að nýta svefnherbergið, sem ég og gerði. Ég setti þangað inn einn af stólunum úr stofunni og nú nota ég herbergið mitt mjög mikið. Er bara oft inni í herbergi. Þetta var ekki stór breyting en hún breytti mjög miklu fyrir mig.“

Guðbjörg Glóð gerir jóga reglulega og safnar að sér hluti …
Guðbjörg Glóð gerir jóga reglulega og safnar að sér hluti sem minna á það. mbl.is/Árni Sæberg

Lítið fyrir óskrifaðar almennar heimiliskröfur

Heimilið er að hennar mati staður utan um áhugamál þeirra sem búa þar.

„Það er svolítið merkilegt hvað við festumst í því að hlutir eigi að vera á ákveðinn hátt þrátt fyrir að það henti okkur engan veginn. Ég held að mjög margir fermetrar á heimilum nýtist í fátt annað en uppfylla einhverjar óskrifaðar almennar heimiliskröfur. Af hverju má svefnherbergi fullorðinna ekki nýtast til annars en að sofa þegar barnaherbergi eiga að vera afþreyingarstaður líka? Af hverju erum við með stofu sem enginn notar og áhugamálin geymd úti í skúr?

Einmitt á þessum nótum keypti ég stóran leðurskemil sem ég sá auglýstan til sölu á netinu. Hann passaði ekki alveg inn hjá okkur en þegar ég fattaði að minnka borðstofuborðið, sem við köllum afmælisborðið því það er nánast bara notað í afmælum og á jólum, myndaðist pláss fyrir hann. Skemillinn er í mikilli notkun því sonur minn spilar á horn og æfir sig á honum alla daga og ég hugleiði þar á kvöldin. Það voru því góð skipti að skipta út stækkuninni á afmælisborðinu og koma honum fyrir. Ég held líka að þetta sé bara byrjunin á svona breytingum hjá okkur.“

Guðbjörg Glóð er dugleg að viða að sér þekkingu í …
Guðbjörg Glóð er dugleg að viða að sér þekkingu í gegnum bækur. mbl.is/Árni Sæberg

Auðvelt að hreyfa sig heima

Er eitthvað sem þú gerir daglega heima sem er út fyrir kassann?

„Ef hugleiðslan er út fyrir kassann þá já en svo hef ég líka gríðarlega gaman af því að dansa heima hjá mér. Það byrjaði á því að epla-úrið sem ég var nýbúin að eignast lét mig vita að ég ætti eftir að hreyfa mig í 25 mínútur ef ég ætlaði að ná takmarki dagsins. Mér fannst það mjög fyndið því úti var niðamyrkur, sonur minn sofandi inni í rúmi og ég föst heima. Ég fór þá að pæla hvað ég gæti gert og endaði á að dansa mig sveitta í 45 mínútur við alls konar tónlist. Síðan þá dansa ég oft þegar ég næ ekki að fara út að labba eða í sund og stundum bara til þess að líða betur. Það er ekki hægt að dansa án þess að komast í gott skap.“

Á heimilinu eru fallegir hlutir sem Guðbjörg hefur fundið víða …
Á heimilinu eru fallegir hlutir sem Guðbjörg hefur fundið víða um heiminn. mbl.is/Árni Sæberg

Ertu mikið fyrir að elda sjálf?

„Já, ég hef alveg svakalega gaman af því að elda. Þess vegna finnst mér starfið mitt í Fylgifiskum líka svona skemmtilegt. Það er eitthvað svo gefandi að vinna með mat. Blanda saman bragði og leika sér með hráefni. Ég var hins vegar orðin ansi gömul þegar ég byrjaði að baka. Ég á svo erfitt með að fara eftir uppskriftum og í bakstri verður maður að gera það. Ég er algjör dassari og hafði lengi vel mjög lítinn skilning fyrir fólki sem þarf að gera allt upp á gramm.“

Af hverju valdir þú að búa í þessu hverfi?

„Það var meðal annars vegna þess að Gunni bróðir minn, sem á og rekur Fylgifiska með mér, bjó hér í götunni. Þetta var 2011 og krakkarnir okkar litlir, það var alveg frábært að hafa þau í næsta húsi á þessum árum en svo er hann fluttur ofar í hverfið en við erum hér enn.“

Blóm gera mikið fyrir heimilið.
Blóm gera mikið fyrir heimilið. mbl.is/Árni Sæberg

Öll íbúðin í miklu uppáhaldi

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn heima?

„Íbúðin okkar er mjög opin og björt og mér finnst mjög gott að vera heima hjá mér. Held að íbúðin öll sé bara svolítið uppáhalds nema þvottahúsið, sem mætti vera stærra.“

Hvernig bjóstu til aðstöðu fyrir hugleiðslu?

„Maður þarf í raun og veru enga sérstaka aðstöðu til þess að hugleiða. Það er bara nóg að stoppa, slaka á og sleppa allri innri stjórn. Það er ótrúlegt hvað maður er spenntur á ýmsum stöðum í líkamanum þegar maður fer að gefa því gaum. Hausinn er líka stöðugt að og þegar maður fer að leggja við hlustir er hann síblaðrandi. Gaggandi um hitt og þetta sem skiptir ekki neinu máli. Í hugleiðslu lærir maður að hlusta. Ekki á hausinn á sér heldur á líkamann, innri vitund og hjartað. Það er magnað. Allir þekkja ástandið sem maður kemst í þegar maður er að gera eitthvað sem maður gleymir sér alveg við og hverfur inn í það. Sumir úti í náttúrunni, aðrir í íþróttum, sumir við að prjóna og aðrir við lestur. Að hugleiða sem dæmi er að ná því ástandi, það er rosalega gott að hafa lært að hugleiða og ég er rétt að byrja. Þess vegna vil ég að hugleiðsla eigi sér stað á heimilinu mínu.“

Það er hægt að gera herbergið að góðum griðarstað.
Það er hægt að gera herbergið að góðum griðarstað. mbl.is/Árni Sæberg

Sælkeri sem kann að gera vel við sig

Guðbjörg Glóð byrjar alla daga á góðum kaffibolla.

„Þegar kemur að kaffitímanum í vinnunni fæ ég mér nánast án undantekninga baguette-brauð með besta túnfisksalati í heimi. Ég er alltaf jafn ánægð með morgunmatinn minn og segi daglega hvað mér þyki samlokan mín góð. Þetta er órofið rúmlega 18 ára ástarsamband sem ég fæ ekki nóg af. Um helgar þegar ég er ekki að vinna finnst mér best að fá mér góðan kaffibolla og ristað brauð með osti. Ég held að það yrði nokkurn veginn minn versti dagur ef ég yrði að hætta að borða brauð, eða fisk, eða osta og margt fleira. Ég er algjör sælkeri.“

Hvað keyptir þú inn á heimilið síðast?

„Ég keypti mér ljósbrúnan leðursófa í Tekk og skipti þar með út hornsófanum sem var keyptur til að duga tímabilið með syninum þegar mikið var hoppað og borðað í sófanum. Mjög tímabær skipti og góð.“

Listaverkin inn á heimilinu eru falleg og litrík.
Listaverkin inn á heimilinu eru falleg og litrík. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað gerir gott mataræði og það að taka út sykur á kvöldin?

„Ég hef ofurtrú á gullna meðalveginum og þar af leiðandi litla trú á alls konar kúrum. Ég hef til dæmis alltaf lagt mikið upp úr því að við vinnum alla fiskréttina í Fylgifiskum frá grunni. Að notaður sé ferskur fiskur, ferskt grænmeti, ferskar kryddjurtir og vönduð krydd og olíur og eins lítið af rotvarnarefnum og mögulegt er. Þannig mat tel ég bestan.

En þegar ég fór að hreyfa mig reglubundið fann ég hvað ég jók á nasl á kvöldin. Mér fannst ég eiga það skilið en það stóð í vegi fyrir að ég næði árangri. Þess vegna ákvað ég að hætta að borða allt á kvöldin, ekki bara sykur. Ég fann snjallforrit á sama tíma sem heitir Habitify og hjálpar manni að skipta um lífsstíl. Það hentar mér rosalega vel en mig óraði ekki fyrir því hvað þetta yrði erfitt. Ég stóð sjálfa mig að því að vera komin með súkkulaði upp í mig þegar ég tók það út úr mér aftur og hanga utan á kexskápnum og nánast klóra hann til að komast inn. Ég hef aldrei þurft að hætta að reykja en ég get ekki ímyndað mér að þetta sé neitt léttara. Alla vega tók það mig vel yfir 30 daga að komast yfir mestu þörfina. Nú rúmu ári seinna tek ég varla eftir þessu. Samt koma kvöld þar sem hausinn fer að selja mér það að víst sé þetta í góðu lagi. Þá er gott að hafa appið og hugleiðsluna.“

Guðbjörg segir að hún eldi úr því sem hún eigi hverju sinni, eftir því hvernig skapi hún er í og hverjir eru að koma í mat. Eftirfarandi fiskréttur er í hennar anda:

Ceviche – sítrusleginn fiskur

600 g hvítur fiskur skorinn í strimla (þorskur, ýsa, lúða eða rauðspretta)

2 sítrónur

2 límónur

2 appelsínur

2 msk sæt chilisósa

1 msk fínt skorið chili

1 msk soja

fullt af fínt skornum kóríander

Það má bæta við sesamfræjum og skvettu af djús úr ísskápnum.

Setjið skorinn fiskinn í skál. Fínrífið börkinn af sítrónu, límónu og appelsínu með rifjárni yfir. Kreistið safann úr öllum ávöxtunum ofan í skálina. Setjið allt hitt saman við og blandið vel. Látið standa í að minnsta kosti klukkutíma. Má geyma í lokuðu íláti í ísskáp í tvo til þrjá daga.

Rétturinn er góður með nachos eða öðru stökku kexi eftir smekk.

Fallegar styttur eru á víð og dreif um herbergið.
Fallegar styttur eru á víð og dreif um herbergið. mbl.is/Árni Sæberg
Guðbjörg og sonur hennar lesa mikið heima hjá sér.
Guðbjörg og sonur hennar lesa mikið heima hjá sér. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »