Fékk gróðurhús að gjöf frá vinkonu sinni

Rósa Björg Óladóttir fékk gróðurhús frá vinkonu sinni.
Rósa Björg Óladóttir fékk gróðurhús frá vinkonu sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Rósa Björg Óladóttir býr í sannkölluðu ævintýrahúsi í Blesugróf. Hún setti nýverið upp gróðurhús sem hún notar á alls konar spennandi vegu. 

Innan um grenitré á stórri lóð hafa Rósa Björg Óladóttir og fjölskylda hreiðrað um sig í 23 ár. Í sumar bættust aukafermetrar við litla timburhúsið þegar Rósa fékk gamalt gróðurhús að gjöf frá vinkonu sinni. Jólin í ár verða fyrstu jólin í gróðurhúsinu en líka fyrstu jólin sem verslunarstjóri í nýrri blómabúð í Suðurveri sem heitir Blóm og fiðrildi.

„Gróðurhúsið hafði staðið í garði vinkonu minnar í um 25 ár en hún hafði ekki not fyrir það og bauð mér að koma og sækja það. Ég var auðvitað himinlifandi með það og sumarið fór svo í að taka það í gegn og púsla því aftur saman. Það þurfti að endurnýja nokkur gler en annars voru gömlu glerin bara pússuð upp. Þetta var alltaf draumurinn, að eignast svona gróðurhús. Ég er alltaf eitthvað að rækta blóm og annað en svo er þetta tilvalið til að rækta sjálfan sig og vinskap líka,“ segir Rósa sem lagði á borð í gróðurhúsinu með áherslu á náttúrulegar skreytingar.

Skreytir ekki með hefðbundnu jólaskrauti

Bleiki liturinn er áberandi á dúkuðu borði Rósu en hún er ekki endilega vön að skreyta með hefðbundnu jólaskrauti og hinum klassíska rauða lit. Bleik sessa og bleikir púðar gera gróðurhúsið notalegt ásamt lifandi pottaplöntum. Á borðinu er bleikur dúkur, bleik kerti og munstrað stell setur svip á borðið ásamt greni og könglum.

„Þessa stundina er ég dálítið hrifin af bleiku en ég hef alveg fengið svona gullæði og spreyjað allt gyllt. Ég er mikið fyrir að skreyta en kaupi ekki mikið af jólaskrauti. Ég er með stór grenitré hérna í kring sem þarf oft að grisja og tek bara rosa mikið úr náttúrunni. Mér finnst það flottasta skrautið. Ég er mjög hrifin af könglum, steinum, skeljum, greinum og trjám,“ segir Rósa.

Rósa á mikið af hlutum síðan hún byrjaði að búa og segist vera nýtin. Í stað þess að kaupa nýtt reynir hún að breyta því sem hún á. Málar og pússar upp. Fyrir utan húsið stendur fallegt gamalt reiðhjól sem Rósa skreytti með seríum og notar undir blóm. Hjólið keypti hún á þrjú þúsund krónur í Sorpu og málaði bleikt.

„Stellið mitt sem ég er með í gróðurhúsinu keypti ég í Miklagarði þegar ég var 16 ára. Ég man að vinkonum mínum fannst pínu spes að kaupa sér matar- og kaffistell á þessum aldri. Ég sé dóttur mína sem er 17 ára ekki alveg í anda vera að spá í nokkuð svoleiðis.“

Rósa notaði greni úr garðinum hjá sér til þess að skreyta borðið í gróðurhúsinu. Hún fór svo í Elliðaárdalinn og tíndi köngla þar. Hún er dugleg að tína köngla til þess að skreyta með. Áður en hún býr til skreytingar bakar hún könglana í ofni með kanil á lágum hita í um tvo tíma. Þá losar hún sig við pöddur, fær góða lykt og könglarnir opnast. Hún spreyjar könglana til dæmis í litum eða leyfir þeim að vera náttúrulegum.

Rósa býður fólki í kaffi í garðskálanum og segir að krakkarnir hennar sem eru 17 og 20 ára noti líka skálann til að hitta vini.

„Þetta er fínn staður til þess að hittast, borða og hlusta á tónlist. Á kvöldin er myrkur og maður sér stjörnurnar, það er svo geggjað að vera inni í svona glerhúsi. Þótt það sé brjálað rok og rigning úti þá er alltaf logn og þurrt inni í gróðurhúsinu,“ segir Rósa.

Sköpunarkraftur Rósu kemur bersýnilega í ljós á fallegu heimili hennar og í starfinu í blómabúðinni en líka í eldhúsinu. Rósa á erfitt með að fara eftir uppskriftum og segist alltaf vera að bæta og breyta, líka á jólunum.

Alltaf að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu

„Mér finnst gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég er ekkert fyrir stress en er samt vön að vera á síðustu stundu með allt. Fer jafnvel að versla í matinn á Þorláksmessu með engan miða og kaupi bara eitthvað. Mér finnst spennandi að vera ekki með uppskrift þegar ég elda og baka og ef svo ólíklega vill til að ég sé með uppskrift þá er ég alltaf búin að bæta einhverju við af því þá kemur eitthvað óvænt út úr ofninum sem er skemmtilegt. Það skiptir ekki máli þótt maður klúðri einhverju stöku sinnum. Jólin eru í mínum huga sambland af stemningu og nostalgíu. Þessi tími kemur alltaf svo það er um að gera að njóta hans bara og tapa sér ekki í einhverjum þrifum og stressi.“

Rósa segir það algjör forréttindi að fá að vinna innan um blóm og fallega hluti á hverjum degi í blómabúðinni. Aðventan er háannatími og er Rósa spennt fyrir því að standa vaktina í Blómum og fiðrildum.

„Ég er mjög spennt fyrir jólavertíðinni. Við erum með alls konar fallegar skreytingar og gott úrval af íslenskri hönnun og gjafavöru. Suðurver er í alfaraleið með gott aðgengi svo það er þægilegt að koma við og kaupa sér blómvönd, pottaplöntu í safnið eða fallegar gjafir. Við erum einnig með kerti, luktir og skreytingar á leiði. Við útbúum skreytingar við öll tækifæri og auk afskorinna blóma bjóðum við upp á mikið úrval af þurrkuðum blómum og stráum sem eru svo vinsæl núna.

Ég hef alltaf verið umkringd blómum. Mamma mín er mikil blómakona og nú er sonur minn búinn að fylla gluggakistuna hjá sér af pottaplöntum. Ég elska að hafa fersk blóm í vasa, bæði þau sem koma úr búðinni en ekki síður þau sem maður tínir úti í garði. Allt í lagi að hafa smá drasl því blómin gleðja og lyfta andanum. Þetta á mjög vel við mig, að vera í blómabúð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »