Skandinavískt sófasett seldist á 84 milljónir

Sófasettið seldist á 84 milljónir króna.
Sófasettið seldist á 84 milljónir króna. Ljósmynd/Bruun Rasmussen

Sófasett eftir danska innanhúshönnuðinn Finn Juhl seldist á metfjárhæð á uppboði í Bruun Rasmussen í Danmörku í desember síðastliðnum. Settið seldist á rúmlega 84 milljónir íslenskra króna. 

Um er að ræða sófa og tvo stóla úr Fílasófasettinu svokallaða en það kom á markað árið 1939. Það var í eigu listamannsins Mogens Loretzens og hefur verið í eigu fjölskyldunnar eftir andlát hans.

Settið sló ekki í gegn þegar það var fyrst sýnt og var talið vera „of mikið“ fyrir smekk nútímafólks á þeim tíma. Sófasettið var því ekki ofarlega í huga margra um áratuga skeið en þegar myndir af því birtust í bók um danska hönnun urðu margir innanhússhönnuðir forviða því þeir héldu að settið væri ekki lengur til. Það rataði síðan á uppboðsölu Bruun Rasmussen hvar það var gert upp áður en það var sett á uppboð.

Juhl var einn þekktasti innanhússhönnuður Dana á 20. öldinni og hafa húsgögn hans verið áberandi í skandinavískri innanhússhönnun allt frá því á 5. áratug síðustu aldar. Hönnun eftir hann má finna á dönskum hönnunarsöfnum og hafa verðlaun verið veitt í hans nafni til upprennandi húsgagnahönnuða í Danmörku frá árinu 2003.

„Ég trúði varla mínum eigin augum þegar ég sá Finn Juhl-sófann. Ég hef unnið með dönskum hönnuðum allt mitt líf, en þetta er áhugaverðasta húsgagn sem ég hef nokkurn tímann unnið með. Sófinn er bara þekktur af myndum í bókum, allir í hönnunarheiminum héldu að hann væri glataður. Mér finnst við hafa leyst eina stærstu ráðgátuna í danskri hönnunarsögu eftir þennan fund,“ sagði Peter Kjelgaard hjá Bruun Rasmussen.

Scandinavian Design

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál