2020 - þegar heimilið varð miðpunktur alls

Guðrún Ólöf Gunnarsdóttir
Guðrún Ólöf Gunnarsdóttir Kristinn Magnússon

2020 byrjaði óskaplega vel. Janúar var hefðbundinn og febrúar líka en svo fór að síga á ógæfuhliðina þegar veiran fór að gera heimsbyggðinni lífið aðeins leiðara en vanalega. Svona eftir á að hyggja var 2020 árið þar sem heimilið var miðpunktur alheimsins, hvort sem fólki líkaði betur eða verr. 

2020 var heimili ekki bara einhver klénn griðastaður heldur vinnustaður, fjarfundastaður, skóli, leikskóli, íþróttasalur, snyrtistofa, skemmtistaður, hárgreiðslustofa, heimaspa og mötuneyti svo eitthvað sé upp talið.

Heimavinnan kallar á öðruvísi uppröðun á hlutum. Flestir áttuðu sig …
Heimavinnan kallar á öðruvísi uppröðun á hlutum. Flestir áttuðu sig á því að þeir yrðu að koma sér upp alvöru skrifborðsstól eftir að hafa verið að drepast í bakinu eftir setu í óþægilegum hönnunarstólum.

Þegar heimilið verður miðpunktur alls breytast þarfirnar. Fólk flutti í stórum stíl 2020 því það kom í ljós að heimilið var kannski ekki eins vel heppnað þegar á reyndi. Sparistofa vék fyrir leikfimiaðstöðu og heimaskrifstofan þurfti að gera gagn. Fólk flutti vegna fjölmargra ástæðna en eitt af því var að lán voru með hagstæðari vöxum en áður og einhverjir ákváðu að hoppa upp á skuldavagninn í von um betra líf.

Þeir sem fluttu ekki hófust handa við að breyta og bæta, færa til húsgögn og fegra þetta stórbrotna virki sem þeir höfðu komið sér upp. Enda besta vörnin gegn veirunni að halda sig inni á heimilinu og hitta helst ekki neinn.

En hvað var það sem fólk var að gera inni á heimilinu á árinu annað en að flytja lögheimili sitt inn í ísskáp?

Hér má sjá fallegan grágrænan lit á heimili Katrínar Atladóttur …
Hér má sjá fallegan grágrænan lit á heimili Katrínar Atladóttur borgarfulltrúa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jú, fólk málaði og málaði. Grágrænir tónar voru vinsælir og svo fengu hlýir jarðlitir að vera með. Brúnbleikur og brúnleitir tónar fengu hljómgrunn hjá þeim allra smörtustu. IVAR-skáparnir úr IKEA seldust eins og enginn væri morgundagurinn og voru þeir oft og tíðum málaðir í sama lit og veggirnir. Fólk var líka svolítið í því að mála opnar hillur og kaupa gömul húsgögn á Bland eða Facebook til að gera upp. Marmarinn varð afar vinsæll og þeir sem gerðu upp eldhús létu gjarnan setja marmaraborðplötu í eldhúsið.

Hér má sjá hvernig marmari fær að njóta sín á …
Hér má sjá hvernig marmari fær að njóta sín á heimili Jónu Vestfjörð. Gríma Björg Thorarensen innanhússhönnuður hannaði. mbl.is/Árni Sæberg

Svo voru það pottaplönturnar sem urðu einn heitasti tískustraumur ársins. Plöntur hafa marga góða kosti. Þær auka til dæmis loftgæði heimilisins, fegra það og svo var auðveldara að halda í þeim lífi þegar enginn var í útlöndum. Fólk sem leiddist mjög mikið í vinnunni gat umpottað á daginn, sem það hefði aldrei nennt að gera í venjulegu árferði. Vandamálið er bara að það er ekki nóg að vökva bara plönturnar. Þær þurfa að vera rétt staðsettar því plöntur eru lifandi – ekki dauðir hlutir. Á árinu blómstruðu lokaðir facebookhópar sem snerust um að halda lífi í pottaplöntum.

Hér má sjá pottaplöntur á fallegu heimili á Íslandi.
Hér má sjá pottaplöntur á fallegu heimili á Íslandi.

Andi áttunda áratugarins sveif yfir vötnum 2020 og panillinn fékk uppreist æru. Allir sem voru búnir að sprautulakka panilklæddu veggina heima hjá sér eru nú komnir í net-þerapíu til þess að koma í veg fyrir að stranda aftur í lífinu vegna lélegra ákvarðana og glataðs smekks.

Panillinn gerði allt vitlaust á árinu. Hér er klæðning frá …
Panillinn gerði allt vitlaust á árinu. Hér er klæðning frá Ebson.

Svo var það svarta matta lakkið sem hélt áfram að vera vinsælt. Fólk málaði heilu innréttingarnar á meðan það átti að vera á fjarfundum. Sumir skráðu sig inn og „mjútuðu“ svo ekki myndi harðna í penslinum. Milli þess sem það málaði innréttingar lét það gera göt í innréttinguna til að koma fyrir vínkæli – enda lágmarksmannréttindi að geta hellt í sig vínanda í réttu hitastigi því heimilið var ekki bara heimili heldur líka varð líka skemmtistaður.

Fólk valdi bestu sjónarhorn heimilisins fyrir fjartíin og fjarfundina því 2020 var öllum boðið heim í gegnum tölvuskjáinn.

Gluggatjöld sem minntu á hótelherbergi voru vinsæl á árinu. Þessi …
Gluggatjöld sem minntu á hótelherbergi voru vinsæl á árinu. Þessi gluggatjöld eru frá Z-brautum og gluggatjöldum.
Voel-ið er sérlega vinsælt. Þessi gluggatjöld koma frá Z-brautum og …
Voel-ið er sérlega vinsælt. Þessi gluggatjöld koma frá Z-brautum og gluggatjöldum.

Svo voru það gluggatjöldin. Eftir langa tíð strimlagluggatjalda og hálfgegnsærra rúllugardína (sem reyndar sést alveg í gegnum) tóku hótelgardínur við keflinu sem vinsælasta gluggatjaldaefni ársins. 2020 var enginn maður með mönnum nema vera með „New Wave“-rykkingu á gluggatjöldunum.

Þegar upp er staðið var 2020 gott heimilisár þar sem fólk áttaði sig á mikilvægi þess að hafa sómasamlegt í kringum sig. Stærsta áskorunin var kannski einna helst að halda heimilinu hreinu því það tekur á að vera í sama rýminu sólarhring eftir sólarhring. Svo ekki sé minnst á alla vinnuna við það að spritta snertifleti og vera ekki með puttana úti um allt. Það eina sem ekki mátti var að drekka handsprittið, þótt það stæði tæpt á sumum heimilum, en það er önnur saga!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »