Þessi eru tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2020

Peysa með öllu, Drangar og Flotmeðferð eru tilnefnd til Hönnunarverðlauna …
Peysa með öllu, Drangar og Flotmeðferð eru tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2020. Samsett mynd

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hafa tilnefnt þrjú framúrskarandi verkefni til Hönnunarverðlauna Íslands árið 2020. Verkefnin hafa verið tilkynnt síðastliðna morgna og var þriðja verkefnið tilnefnt í gær. Verkefnin Peysa með öllu eftir Ýrúrarí, Drangar eftir Studio Granda og Flotmeðferð eftir Flothettu sem hlutu tilnefningarnar í ár. 

Verðlaunin verða veitt í beinni útsendingu á vefnum þann 29. janúar klukkan 11. 

Peysa með öllu eftir Ýrúrarí

Textílhönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir stendur að baki verkefninu. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Öllum finnst gaman að lífga upp á útlitið, hvers vegna ætti ekki það sama að gilda um peysur sem hafa endað í Rauða Krossinum. Verkefnið Peysa með öllu var frumsýnt á HönnunarMars í júní 2020 og vöktu peysurnar, skreyttar skemmtilegum tilvísunum í pylsur, mikla athygli.

Ýr Jóhannsdóttir.
Ýr Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Miðstöð hönnunar og arkitektúrs

Textílhönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir eða Ýrúrarí nýtti sér peysur frá Rauða Krossinum og glæddi þær lífi með hnyttnum og duttlungafullum hætti þannig að flíkurnar öðluðust alveg nýtt líf eftir allt volkið þar. Þetta eru flíkur sem oftar en ekki lenda í ruslagámunum meðal annars vegna sósubletta frá þjóðarrétti Íslendinga, pylsu í brauði, sem varð innblástur verkefnisins.

Í stað þess að fela blettina urðu þeir uppspretta skemmtilegra textílverka þar sem tómatsósa, sinnepshringir,hlæjandi munnar og fjölbreytilegar tungur fengu að njóta sín. Innan um öll uppskrúfuðu tískuhugtökin sem reiða sig á alvarlegt inntak og framsetningu veitti þetta verkefni heillandi og fjörlegt mótvægi, opnar leið til að glæða tískuna lífi með húmor og gleði.“

Drangar eftir Studio Granda

ArkitektastofanStudio Granda hlaut tilnefningu fyrir hönnun sína á gistiheimilinu Drangar. Stofan var stofnuð af þeim Margréti Harðardóttur og SteveChrister árið 1987. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Drangar er metnaðarfullt hönnunarverkefni arkitektastofunnar Studio Granda og afar vel heppnuð birtingarmynd aðkallandi viðfangsefnis arkitekta i nútímasamhengi, endurhugsun og endurnýting gamalla bygginga.

Drangar eftir Studio Granda.
Drangar eftir Studio Granda. Ljósmynd/Miðstöð hönnunar og arkitektúrs

Hér er sérstaklega vel útfærð breyting á gömlu sveitabýli og útihúsum í gistihús fyrir ferðamenn. Veðraðar byggingarnar fá að njóta sín og halda útlitslegu yfirbragði með sterkri vísun í sögu og samhengi, en um leið er heildarmynd staðarins styrkt og efld.

Dæmi um það er samspil útveggja gistihússins þar sem gömlu veggirnir standa hráir og opnir, án glugga og hurða og mynda áhrifaríkt samspil skugga og takts við nýja veggi. Innra rýmið markast af hlýlegri eik og litum dregið saman milli bygginga og rýma með hlýrri notkun timburs og lita. Mismunandi litatónar og áferð lita eru vísun í fyrri virkni býlisins, t.d. í lit nautgripa eða gljástig vinnuvéla.

Öll efnisútfærsla er sérlega vönduð og tengir rýmin saman í umlykjandi ramma um lífið innan byggingarinnar. Verkið er mikilvægt fordæmi og viðmið í ljósi vaxandi fjölda bygginga, ekki síst á landsbyggðinni, sem kalla á endurskilgreiningu og endurbyggingu vegna aldurs og annars konar nýtingar.“

Margrét Harðardóttir og Steve Christer stofnuðu Studio Granda árið 1987.
Margrét Harðardóttir og Steve Christer stofnuðu Studio Granda árið 1987. Ljósmynd/Miðstöð hönnunar og arkitektúrs

Flotmeðferð eftir Flothettu

Að baki Flothettu stendur Unnur Valdís Kristjánsdóttir en hún er hönnuður og jóga- og vatnsmeðferðaraðili. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á reynsluheimi hennar sem Íslendings sem hefur stundað náttúru- og sundlaugaferðir frá blautu barnsbeini. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Fyrirtækið Flothetta býður nú upp á hannaða flotmeðferð fyrir litla hópa þar sem áhersla er lögð á fullkomna slökun og vellíðan. Ferlið er úthugsað með það að leiðarljósi að þátttakendur upplifi djúpa slökun, vellíðan, hvíld og endurnæringu. Af frásögn þátttakanda að dæma er um að ræða einstaka slökun og hugleiðsluástand.

Flestar vatnsmeðferðir sem stundaðar eru í heiminum í dag er einstaklingsmeðferð. Það sem gerist í hópmeðferð er á öðrum skala, nærveran við aðra truflar ekkert heldur virðist þvert á móti efla áhrifin. Í tengslum við flothettuna hefur verið boðið upp á „samflot“ í mörgum sundlaugum á Íslandi undanfarin ár, sem er í sjálfu sér merkileg þróun, en flotmeðferðin tekur upplifunina skrefi lengra.

Í tengslum við meðferðina hefur fyrirtækið þróað og sett á markað vörur til viðbótar við flothettuna sem eflir enn upplifun notandans. Meðferðaraðilar hljóta sérstaka þjálfun þar sem kenndar eru grunnaðferðir og undirstöður í djúpri vatnsmeðferðarvinnu. Flotmeðferðin sprettur upp úr sundmenningu Íslendinga en er líka kærkomin viðbót við hana. Hún er í takt við þær áherslur sem við höfum fundið fyrir síðustu ár; að verðmætasköpun er ekki bundin við framleiðslu hluta heldur getur svo sannarlega falist í upplifun, vellíðan og samveru.“

Unnur Valdís Kristjánsdóttir.
Unnur Valdís Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál