Flutti út á land og byrjaði að hnýta

Katla Marín Stefánsdóttir er macramé-listakona.
Katla Marín Stefánsdóttir er macramé-listakona. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katla Marín Stefánsdóttir er 24 ára meistaranemi við Háskóla Íslands og macramé-listakona. Hún er með BSc í sálfræði og vinnur sem ráðgjafi hjá Klettabæ. Þess á milli stundar hún áhugamál sín sem eru meðal annars macramé-hnýtingar. Katla kenndi sjálfri sér að hnýta macramé-listaverk fyrir rúmulega einu ári. Í dag prýða listaverkin ekki bara hennar eigin íbúð heldur fjölda annarra. Undir nafninu Hekla Macramé kennir hún hnútalistina og selur listaverk. 

Macramé komst í tísku fyrir nokkrum misserum en Katla segir að listgreinin eigi sér aldagamla sögu. Á 13. öld í Arabíu hnýtti fólk til dæmis gluggatjöld og rúmteppi. Um það leyti var einnig byrjað að hnýta vegghengi í Kína. Á 17. öld komst listgreinin aftur í tísku og svo aftur fyrir stuttu með tilkomu samfélagsmiðla og auknum áhuga á náttúrulegum vörum.

Blómapottahengi eftir Kötlu.
Blómapottahengi eftir Kötlu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margir voru gáttaðir á nýju áhugamáli

Katla er uppalin í Reykjavík en flutti sumarið 2019 tímabundið út á land. Þar lengdist sólahringurinn hennar töluvert og hún tók upp á því að hnýta.

„Ég hafði meiri tíma fyrir sjálfa mig og ákvað að fara út fyrir þægindahringinn minn og læra eitthvað nýtt. Ég hef aldrei verið listræn, lært að prjóna né hekla en macramé kom til mín á náttúrulegan hátt. Með hverjum mánuði stækkaði áhugamálið og fylgjendahópurinn sömuleiðis. Núna í sumar náði áhugamálið hæðum þar sem ég ákvað að láta reyna á kennarahæfileika mína og auglýsti byrjendanámskeið í macramé. Ég vona að Hekla Macramé eigi eftir að halda áfram að stækka og að einn daginn opni ég litla vinnustofu þar sem ég kenni áhugasömu fólki að hnýta frá morgni til kvölds.

Fyndið er að segja frá því að ég þorði ekki að koma undir eigin nafni í upphafi Heklu Macramé-ferilsins. Fáir vissu hvað macramé væri og margir voru hálfgáttaðir á nýja áhugamálinu mínu. Sem betur fer lét ég ekki skoðun annarra á mig fá, því mér sjálfri fannst þessi list svo fagur og ég naut þess að hnýta,“ segir Katla sem í dag þykir vænt um listamanninn í sjálfri sér.

Falleg blátt macramé-vegghengi kemur vel út á hvítum vegg.
Falleg blátt macramé-vegghengi kemur vel út á hvítum vegg. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Macramé er aldagömul listgrein.
Macramé er aldagömul listgrein. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fallegt með notagildi

Á heimili Kötlu er að finna falleg listaverk hennar en hún segir að helsti tilgangur hnútalistarinnar macramé sé að fegra heimili með til dæmis vegghengjum eða blómahengjum.

„Persónulega er ég jarðbundin og því þykir mér náttúrulegu litirnir fallegastir en skemmtilegast finnst mér að fá pantanir af verkum í lit. Macramé er ekki einungis fagurt skraut heldur þjónar það notagildi. Sem dæmi má nefna eru blómahengi afar vinsæl um þessar mundir þar sem blómaáhugi er mikill. Margir hverjir eiga of margar plöntur og koma þeim varla fyrir. Þá er gott að geta hengt blómin upp í blómahengi um alla íbúð. Einnig eru glasamottur og kertamottur vinsælar. Ég hef líka hnýtt eina tösku og mikið af lyklakippum og jólaskrauti úr afgöngum. Möguleikarnir eru endalausir, maður þarf bara að hafa ímyndunarafl í að skapa og hafa gaman að þessu,“ segir Katla.

Hvítt vegghengi á dökkum fleti.
Hvítt vegghengi á dökkum fleti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katla hannar öll sín listaverk sjálf og segir að listaverk eftir hana hangi nú inn á um 300 íslenskum heimilum. „Mér þykir líka afar vænt um þegar fólk kaupir uppskriftir eftir mig og hnýtir sjálft. Ég fæ oft sendar myndir af verkum annarra og ég fyllist stolti hvað fólk nær góðum tökum á hnýtingum með uppskriftunum mínum.“

Vegghengi eftir Kötlu kemur vel út í stofunni.
Vegghengi eftir Kötlu kemur vel út í stofunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Macramé er meira en list. Hún er sköpunargleði, hugarró, núvitund, hugleiðsla og svo margt meira. Í amstri hversdagsleikans er afar gott að skapa með höndunum og um leið fá ró fyrir hugann. Sjálf finn ég mikið fyrir þessu og það fyrsta sem ég geri eftir erfiðan vinnudag eða krefjandi skóladag er að standa við slána og hnýta. Það er eins og það hægist á veruleikanum þegar maður er einn með sjálfum sér að skapa. Síðustu ár hefur mikil vitundavakning orðið fyrir umhverfið, því má ég til með að nefna að macramé er umhverfisvæn list. Verkin eru hnýtt úr 100% endurunnum bómul og hangir á viðargrein úr náttúrinni.

Macramé hefur einnig gefið mér nokkrar mikilvægar vinkonur. Það hefur myndast lítill saumaklúbbur út frá námskeiðunum mínum og ég nýt þess mikið að hnýta með þeim hópi af stelpum. Því má segja að þetta litla áhugamál hafi gefið mér miklu meira en ég þorði að vonast eftir í upphafi. Mig langaði bara að læra eitthvað nýtt en í staðinn fékk ég hafsjó af nýjum tækifærum og vinum.“

Heimilið loksins að verða heimilislegt

Katla enn að koma sér upp heimili en allt stefnir í rétta átt með sífelldum breytingum. Falleg listaverk hennar setja svip á íbúðina og hjálpa við að gera heimilið notalegt og heimilislegt. 

„Nýlega sagði ég við kærasta minn hversu glöð ég væri að heimilið okkar væri loksins orðið heimilislegt. Það tekur tíma að gera heimili að heimili. Stíllinn minn er allt frá fögrum gersemum af nytjamörkuðum í hefðbundnar IKEA-mublur. Ég kann einnig vel að meta fagra íslenska hönnun og gæti óskað þess að ég ætti meira af henni. Ætli ég myndi ekki lýsa heimilisstílnum mínum sem skandinavískum stíl í bland við hlýleika og hönnun. Ég fékk þann eiginleika í vöggugjöf frá móður minni að hafa gaman af því breyta og því á heimilið mitt til með að líta öðruvísi út á mánudegi og föstudegi sömu vikuna.“

Íbúð Kötlu er með stórum gluggum eins og á stúdentagörðunum …
Íbúð Kötlu er með stórum gluggum eins og á stúdentagörðunum í Hollandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katla flutti fyrst að heiman þegar hún flutti til Hollands í skiptinám. Þá bjó hún í rúmgóðu herbergi á stúdentagörðum með stórum gluggum.

„Þegar að því kom að kaupa fyrstu íbúðina voru einu kröfurnar sem ég hafði að íbúðin þyrfti að vera björt og opin, með stórum gluggum, eins og herbergið í Hollandi,“ segir Katla sem festi kaup á íbúð með kærasta sínum í Smárahverfinu í Kópavogi.

„Fólk miklar það oft fyrir sér að kaupa sína fyrstu eign en það var minna mál en okkur grunaði. Með góðu skipulagi og dugnaði er allt hægt. Að búa sjálfur veitir mikið frelsi, sem dæmi má nefna er nægt rými til sköpunar og macramé-dokkurnar mega vera um alla íbúð. Suma daga lítur íbúðin út eins og lítil macramé vinnustofa, sem er allt gott og blessað.“

Heimili Kötlu er að taka á sig notalega mynd.
Heimili Kötlu er að taka á sig notalega mynd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framtíðin björt

„Markmið Heklu Macramé er að kenna öðrum að hnýta og geri ég það með því að deila þekkingu minni á námskeiðum, í formi uppskrifta eða með kennslumyndböndum á Instagram. Ég nýt þess að deila þessu áhugamáli mínu með öðrum, hvort sem það er að hnýta í hópi kvenna á góðu kvöldi eða hnýta verk af umhyggju og ást fyrir heimili annarra. Það allra skemmtilegasta finnst mér að vera vitni að sköpunargleði og stolti annarra. Ég elska að heyra konur segja á námskeiðum: „Vá ég bara gerði þetta.“

Katla kennir macramé.
Katla kennir macramé. Ljósmynd/Birta Þöll Sveinbjörnsdóttir

Í upphafi sumars ætluðum við einungis að kenna eitt námskeið en eftirspurnin var svo mikil að þau enduðu á að vera 15 talsins. Við þurftum að hætta vegna ástandsins í samfélaginu en okkur hlakkar til að byrja aftur þegar tækifæri gefst,“ segir Katla og bendir áhugasömum á heimasíðu Heklu Macremé þar sem hægt er að finna macramé uppskriftir eftir hana. 

Hvaðan færð þú innblástur?

„Það að vera listakona lætur mann byrja að horfa meira á list í kringum sig. Hvort sem það sé fatahönnun, skartgripir, málverk, keramik vörur eða hver önnur list. Mér finnst listakonurnar í kringum mig veita mér innblástur. Einnig fæ ég innblástur frá íslensku náttúrunni, skandinavíska hönnunarheiminum og öðrum hæfileikaríkum macramé-listakonum.“

Auk námskeiðanna er Katla að hanna hluti sem hafa notagildi. 

„Ég er byrjuð að hanna línu af verkum með innblæstri frá Skandinavíu og mig dreymir að gefa hana út í vor. Mig langar einnig að gefa út fleiri uppskriftir, vonandi læt ég verða að því.“

Katla hefur eignast góðar vinkonur í gegnum kennsluna.
Katla hefur eignast góðar vinkonur í gegnum kennsluna. Ljósmynd/Birta Þöll Sveinbjörnsdóttir
mbl.is