Með hálft listasafn í betri stofunni

Serena Williams leggur áherslu á listina í betri stofunni sinni.
Serena Williams leggur áherslu á listina í betri stofunni sinni. AFP

Tennisstjarnan Serena Williams er mikill listunnandi og á fjölda verðmætra verka. Þegar hún keypti sér hús í Flórída fyrir fimm árum ákvað hún að betri stofan yrði að hálfgerðu listasafni þar sem verkin fengju að njóta sín. 

Húsið sem Serena og eiginmaður hennar Alexis Ohanian eiga er í spænskum stíl en með hjálp Venus systur hennar og innanhússhönnunarstofu hennar gerðu þau húsið að draumahúsinu sínu. 

Serena hafði úrslitavaldið þegar kom að listrænni hönnun hússins, en leyfði þó systur sinni að ráða ferðinni upp að vissu marki. „Maður verður að þekkja sín mörk. Ég er mjög góð í tennis, ég er ekki jafn góður innanhússhönnuður,“ sagði Serena í viðtali við Architectural Digest á dögunum.

Serena og Venus Williams hönnuðu húsið saman.
Serena og Venus Williams hönnuðu húsið saman. AFP

„Þegar þú gengur inn, þá er það eins og að labba inn á listasafn. Þetta rými er í uppáhaldi hjá mér. Það er svo einstakt, ég hef ekki séð neitt eins og það,“ sagði Serena. 

„Ég er ekki aðdáandi þess að hafa rými og nota það ekki. Kannski notar eitthvert fólk fínu stofuna sína, við gerum það ekki. Þannig að við bjuggum til rými sem hún getur notað og búið með listinni, boðið öðru fólki að koma og skoða og fá að upplifa tilfinningalegu tenginguna um leið og þú gengur inn,“ sagði Venus.

mbl.is