Dreymdi um að verða arkitekt og gerði upp íbúð með dætrunum

Kolbrún Karla Róberts listmálari gerði upp íbúð með dætrum sínum.
Kolbrún Karla Róberts listmálari gerði upp íbúð með dætrum sínum.

Kolbrún Karla Róberts myndlistarmaður festi kaup á íbúð ásamt dætrum sínum í Reykjanesbæ. Kolbrún er myndlistarmaður og hefur frá barnsaldri teiknað hús og skipulag innanhúss. Hana langaði alltaf til þess að verða arkitekt og fékk útrás fyrir sköpunargáfuna í íbúðinni við Holtsgötu í Njarðvík. 

„Mig langaði alltaf í arkitektinn en svo þegar ég byrjaði að mála olíumálverk þá tók það yfir. Ég hef tekið nokkrar eignir í gegn um tíðina, byggt sjálf og aðstoðað vini og vandamenn með þeirra eignir. Mér finnst mjög gaman að teikna upp rými og spái mikið í innanhússhönnun samhliða því. Ég var með verslunina Augnakonfekt í mörg ár og var að flytja inn frá öllum heimshornum húsgögn, listmuni, borðbúnað og fleira til að fullnægja þessari þörf minni. Í dag finnst mér æðislegt að fá sérpantanir á stórum málverkum sem ég hanna sérstaklega miðað við rými og litaval viðskiptavina minna þannig að verkin fá að flæða betur og verða hluti af eigninni og veggjunum,“ segir Kolbrún Karla í samtali við Smartland

Kolbrún er með annan fótinn á Spáni en hefur dvalið á Íslandi upp á síðkastið. Hún var því í sínu uppáhaldshlutverki þegar kom að þessu verkefni en þar fékk hún að hanna, breyta og fegra og smíðaði til dæmis tvær rennihurðir, aðra úr eldhúsinu inn í þvotta- og fataherbergið og hina í forstofuherberginu, ásamt því að breyta allverulega eldhúsinu og allri herbergjaskipan þar sem fjórir veggir voru teknir niður til að mynda bjart og fallegt flæði í eigninni. Annars voru það iðnaðarmenn sem sáu um að skipta um rafmagn, pípulagnir, smíða og múra. 

Hún segir að það hafi verið gefandi að verja tíma með dætrum sínum í þessu verkefni. 

„Við dætur mínar ákváðum að kaupa saman þessa sérhæð í október 2020 en ég sá möguleikann á að láta ljós okkar skína með því að taka hana í gegn og gera að hlýlegu og fallegu heimili fyrir okkur. Ég er með annan fótinn á Spáni en langaði líka til að fjárfesta hérna á Íslandi til að hafa samastað fyrir okkur saman í landinu fagra. Dætur mínar eru einnig mjög duglegar og handlagnar. Önnur þeirra hyggst í nám í innanhússarkitektúr og aldrei að vita nema ég skelli mér í formlegt nám með henni. Einnig er virkilega gefandi að vinna að svona verkefnum með sínum nánustu og þeir sem til okkar þekkja vita hversu samrýndar við erum. Við erum búnar að nýta þennan Covid-tíma afar vel með miklum jákvæðum pælingum og uppbyggilegum framtíðarplönum,“ segir hún. 

Hvers vegna ertu að selja?

„Þetta samverkefni okkar dætranna heppnaðist bara svona svakalega vel og okkur langar í frekari verkefni. Við erum enn nánari og hugmyndaríkari eftir þessa miklu samveru með þakklæti í hjarta.“ 

Af fasteignavef mbl.is: Holtsgata 27

mbl.is