Hefur flutt tíu sinnum síðan 2007

Kristjana M. Sigurðardóttir arkitekt hjá Tark arkitektum hefur flutt tíu sinnum síðan 2007. Hún segir að það eina leiðinlega við að flytja sé að ferja kassa og húsgögn á milli staða, allt annað við ferlið sé bara skemmtilegt og gefandi. 

Kristjana býr ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum í Vesturbænum. Fjölskyldan flutti fyrir ári síðan og gerði íbúðina upp á mettíma eða á þremur vikum. Þeir sem hafa staðið í svona brasi vita að þetta á eiginlega ekki að vera hægt.

„Við fluttum fyrir ári síðan og fórum í töluverðar framkvæmdir. Við færðum eldhúsið, stækkuðum fjölskyldubaðherbergi, skiptum um gólfefni, opnuðum á milli rýma og breyttum skipulagi. Það má eiginlega segja að við höfum gert þetta á mettíma,“ segir Kristjana.

Þegar Kristjana er spurð að því hver galdurinn sé við það að gera upp heila íbúð á þremur vikum segir hún að það snúist um skipulag en játar að hún búi að því að vera sjálf arkitekt og þekki því verkferla vel.

„Þetta snýst fyrst og fremst um að vera með iðnaðarmenn sem maður treystir og þeir mæti á réttum tíma. Við vorum búin að stilla öllu upp þannig að þetta gengi eins smurt fyrir sig og hægt er. Á þessum tíma í fyrra var óveður og alls konar sem setti strik í reikninginn og á tímabili leit þetta ekki sérstaklega vel út en þetta hafðist,“ segir hún.

Vissir þú nákvæmlega hvernig þú vildir hafa heimilið?

„Mér finnst auðveldara að hanna fyrir mig. Ég hef skýra sýn á hvað hentar fyrir mig. Er fljót að sjá út möguleika á íbúðum sem aðrir sjá ekki. Svo er smekkur fólks rosalega misjafn. Þegar ég hanna fyrir mig þá tek ég sénsa og geri alls konar vitleysur. Það tekur oft meiri tíma að stilla sig inn á kúnnann og greina þarfir hans þótt ég leggi mig fram við að benda fólki á eitthvað sem því hefði kannski ekki dottið í hug,“ segir hún.

Þegar Kristjana er spurð út í eigin stíl segist hún oftast vilja hafa hvíta veggi og rólegan bakgrunn og svo leikur hún sér með liti í húsgögnum.

„Mér finnst fínt að vinna með ljósa liti sem grunn því það er alltaf hægt að mála í hressilegri litum þegar fólk er flutt inn. Í stórum dráttum vil ég hafa náttúrulegan grunn og það hjálpar líka að ég hef gert þetta ansi oft. Þetta er fjórða skiptið sem ég geri upp gamalt húsnæði síðan 2007,“ segir hún.

Oft finnst fólki mjög mikið vesen að flytja og veigrar sér jafnvel við það. Kristjana segir að henni finnist eiginlega bara skemmtilegt að flytja.

„Mér finnst ekkert mál að flytja, nýir möguleikar og skemmtilegt. Eina leiðinlega við að flytja er að færa húsgögnin og kassana inn og út. Hluti af því er að stúdera hvernig maður geti gert rýmið að sínu. Ég held mögulega að ég verði eirðarlaus þegar ég finn að verkefnin séu að verða búin. Varðandi þessa flutninga þá á maður ekki að mikla hluti fyrir sér. En það væri mjög næs að eiga nægilega peninga til að fara í framkvæmdir við flutninga. Ég hef helst rekið mig á það að það vantar stundum nokkrar milljónir,“ segir hún hressilega.

Þótt stundum væri gott að hafa örlítið meiri peninga segist Kristjana vera nösk á að sjá möguleika í húsnæði sem aðrir koma kannski ekki auga á og segir að þetta fasteignabrölt hafi alveg skilað henni einhverjum peningum en játar að hún hafi þó ekki alltaf riðið feitum hesti frá fasteignakaupum.

„Ég er alveg óhrædd við að takast á við verkefni. Íbúðin sem við búum í núna var búin að vera lengi á sölu en ég sá tækifæri í henni og vildi helst komast í Vesturbæinn aftur þar sem ég er uppalin. Fasteignamarkaðurinn hefur verið þannig síðustu árin að hann er bara búinn að rjúka upp, svo allir þessir flutningar hafa oftast verið góð fjárfesting en ekki allltaf. Stundum þarf bara að grípa tækifærið og vona það besta,“ segir hún.

Ertu handlagin?

„Sko, mér finnst ég geta allt en það er kannski fjarskafallegt. Það þolir ekki nánari skoðun. Ég geri bara hlutina og ef ég klúðra þeim algerlega þá fæ ég fagmann í það. Ég hef alltaf haft þá reglu að það sem snýr að lögnum og þannig hlutum fæ ég fagmenn í. Ég myndi alltaf leggja til að fólk fái fagmenn. Svo fékk ég málara til að mála fyrir mig þegar við fluttum hingað og ætla framvegis að fá málara til að mála fyrir mig. Það margborgar sig,“ segir hún.

Ertu með einhver góð ráð fyrir fólk sem er í flutningahugleiðingum?

„Það er mikilvægt að gera kostnaðaráætlun og setja svo 30% ofan á. Þá ættir þú að fá út rétt kostnaðarmat. Það eru svo margir litlir hlutir sem manni yfirsjást. Það getur alltaf eitthvað gerst þegar fólk kaupir gamalt húsnæði. Yfirleitt þarf að gera miklu meira en fólk ætlar sér,“ segir hún.

Þótt Kristjana og fjölskylda hennar hafi flutt oft á síðustu árum segist hún vera ánægð á núverandi stað og planið er að vera þar áfram. En eru þau alltaf sammála þegar kemur að framkvæmdum?

„Við erum alls ekki sammála. Mér finnst að ég eigi að ráða því ég er arkitekt og hann lyfjafræðingur. Ég er svo ör og veit hvað ég vil og hann heldur mér niðri á jörðinni,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál