„Góður fasteignaljósmyndari færir hundaskál úr mynd“

Ljósmynd/Kristján Orri/Eignamyndbönd.is

Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt hefur í gegnum tíðina gert upp eigin heimili þannig að eftir sé tekið. Eftir að hún kynntist manninum sínum, Hreiðari Levý Guðmundssyni fasteignasala, uppgötvaði hún að fólk í söluhugleiðingum vantaði oft hjálp við að fegra heimili sitt fyrir fasteignamyndatökur. Nú hefur hún stofnað fyrirtæki ásamt öðrum arkitekt til að mæta þessum þörfum. 

Þú ert ekki bara sérfræðingur í að gera fallegt í kringum þig og fjölskyldu þína heldur hefur tekið að þér að græja íbúðir fyrir sölu. Hvernig kom þetta til?

„Ég byrjaði á þessu vegna þess að ég fór að aðstoða manninn minn, Hreiðar Levý Guðmundsson fasteignasala, og ráðleggja hvernig mætti breyta fasteignum þannig að þær yrðu söluvænlegri. Hreiðar tók eftir því að oft einfaldar breytingar juku áhuga kaupenda á íbúðum. Við Ásta Birna Árnadóttir arkitekt ákváðum í kjölfarið að taka slík verkefni að okkur og erum að stofna fyrirtæki sem heitir Kot hönnunarstúdíó. Ég hef alltaf verið fylgjandi því að fólk móti sinn persónulega stíl og að heimili fólks endurspegli persónuleika þess og líf, það er hins vegar ekki alltaf sem það skilar sér í söluvænlegri íbúð og þá getur verið gott að leita sér aðstoðar hjá fagfólki,“ segir Hildur.

Ljósmynd/Kristján Orri/Eignamyndbönd.is

Hvað skiptir máli þegar íbúð er til dæmis ljósmynduð?

„Það skiptir miklu máli að fá góðan ljósmyndara. Því miður gerist það of oft að fasteignasalar taki sjálfir myndir sem eru misgóðar, og sumir fasteignaljósmyndarar leggja metnað sinn í að klára myndatöku á undir 20 mínútum, en þá eru gæðin því miður oft samkvæmt því. Best er ef það er bjart úti og þá þarf að velja tímasetningu myndatökunnar vel, sér í lagi á veturna. Ef það er súld og dimmt daginn sem mynda á eignina þá er gott að fresta myndatökunni. Góður fasteignaljósmyndari færir hundaskál úr mynd og fleira þess háttar en það má samt ekki reiða sig á það, passa þarf að allt sé eins og það á að vera. Myndirnar sýna rýmin en ættu líka að sýna samband milli rýma þannig að hægt sé að átta sig betur á eigninni. Það má líka ekki gleymast að taka myndir sem sýna útsýnið ef það er til staðar, en það er of oft sem það gleymist. Í sumum tilfellum getur verið sniðugt að láta útbúa fasteignamyndband, sér í lagi í stærri eignum til þess að gefa kaupendum enn betri innsýn í eignina. Það skiptir miklu máli að íbúðin sjálf fái að njóta sín en til þess má hún ekki vera yfirfull af húsgögnum og húsmunum.“

Hvernig þarf íbúð að líta út til þess að hún seljist?

„Eðlilega þróast heimili fólks í takt við fjölskyldulífið og þá gæti stofunni verið raðað upp þannig að allir sjái á sjónvarpið eða heimaskrifstofan er kannski flutt inn í stofu því þar er best að vinna. Það er ekki endilega að slík uppröðun sýni rýmin í bestu ljósi og geta þannig höfðað síður til tilvonandi kaupenda. Það ber að varast þá hugsun að nokkrir skrautpúðar, upplífgandi textaspjöld og kertastjakar selji íbúðina því heildarmyndin er það sem skiptir máli. Best er ef íbúðin er smekklega innréttuð á fremur hlutlausan hátt þar sem loftar á milli húsgagna,“ segir Hildur.

Er nauðsynlegt að mála íbúðina fyrir söluferli?

„Það fer eftir ástandi íbúðarinnar. Það er betra að hafa fremur hlutlausa liti á veggjum þar sem það höfðar til flestra. Ef málningin er gömul, veggir sótaðir eða álíka þá er mjög gott að mála þá. Ef gluggar þarfnast málningar er gott að mála þá líka. Það getur borgað sig að lappa upp á það sem auðvelt er að kippa í liðinn. Það þarf þó að passa að mála ekki yfir ummerki um raka eða viðvarandi leka því það má ekki fela galla sem geta verið á eigninni,“ segir Hildur.

Á fólk að hafa mikið af hlutum eða lítið af hlutum?

„Við virðumst flest vera þannig að við sönkum að okkur mörgum hlutum og hættum jafnvel að taka eftir því hvað er orðið mikið í kringum okkur. Það er langsamlega oftast þannig að það þarf að fækka hlutum fyrir sölu. Oft er fólk að flytja vegna þess að eignin er orðin of lítil og þá er oft allt of mikið af húsgögnum. Þegar eldra fólk er hins vegar að minnka við sig þá getur jafnvel þurft að bæta við húsgögnum, þá getur til dæmis verið búið að breyta aukasvefnherbergjum í skrifstofu eða koma fyrir þar hlaupabretti en það getur verið betra að sýna fram á að herbergið nýtist sem svefnherbergi. Of mikið af skrautmunum og persónulegum munum getur líka verið fráhrindandi því þá getur verið erfiðara fyrir kaupandann að sjá fyrir sér eignina sem sitt heimili. Íbúð full af uppstoppuðum dýrum og rifflum er til að mynda fráhrindandi fyrir marga.“

Er mikið mál að gera íbúð klára fyrir sölu?

„Það fer mikið eftir ástandi íbúðarinnar og innbúsins. Við höfum tekið að okkur að mublera tómar eignir fyrir sölu og þá getur þetta verið ansi mikil vinna. Þetta eru þó langoftast aðeins tilfæringar á húsgögnum sem eru á staðnum fyrir og þess háttar, allt með það að markmiði að rýmin njóti sín sem best og höfði til sem flestra. Við höfum þróað aðferð sem gengur út á það að seljandinn tekur myndir af hverju rými fyrir sig, og við sendum síðan skjal þar sem farið er yfir það hverju þarf breyta, en seljandinn sér þá sjálfur um að fylgja eftir því sem stendur í skjalinu. Í sumum tilfellum velur seljandinn að fá meiri þjónustu og þá komum við og stillum upp, komum með aukahluti sem seljandinn fær lánaða í myndatökunni og í opnu húsi, og þá erum við í myndatökunni til þess að ganga úr skugga um að allt sé eins og það á að vera.“

Er það satt að þið eigið húsgögn á lager sem þið notið fyrir íbúðasölur?

„Já, við erum komin með ágætan lager af húsgögnum og húsmunum. Við erum til dæmis með sjöur og sóleyjarstóla sem við notum oft til að skipta út borðstofustólum, sófaborð, plöntur, vasa, myndir á veggi og allt upp í jafnvel sófa og borðstofuborð.“

Hvað drífur þig áfram í þessum verkefnum?

„Sem arkitekt nýt ég þess að gera fallegt í kringum mig, hvort sem það er heima eða í öðrum verkefnum. Það veitir mér mikla gleði að geta aðstoðað fólk í þessum aðstæðum, þetta eru oftast stærstu viðskipti sem fólk á í um ævina. Svo er dásamlegt að vinna með Ástu Birnu arkitekt að Kot hönnunarstúdíó en hún er mjög hæfileikaríkur arkitekt.“

Hægt er að fylgjast með verkum þeirra á Instagram undir heitinu kothonnunarstudio. Sjálf er Hildur með Instagrammið hvasso heima.

Ljósmynd/Kristján Orri/Eignamyndbönd.is
Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »