Hefur áhyggjur af fasteignamarkaðnum

Ólafur Finnbogason fasteignasali á Mikluborg.
Ólafur Finnbogason fasteignasali á Mikluborg. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Finnbogason hefur starfað sem fasteignasali í 17 ár, þar af í tíu ár hjá Mikluborg. Hann hefur miklar áhyggjur af fasteignamarkaðnum og segir að það sé vont þegar svona lítið framboð sé á fasteignum. 

„Þegar ég hóf störf á sínum tíma á www.fasteign.is þá var starfið aðeins öðruvísi. Fasteignasali sýndi sjaldnast eignirnar nema um nýbyggingar væri að ræða og þá var ekki skylda að vera löggiltur fasteignasali. Það voru mun færri fasteignasalar/sölumenn og fasteignasölur starfandi. Netið var rétt að byrja og man ég eftir að keyra með ljósmyndir úr framköllun upp á Morgunblaðið til að þær næðust í blaðið. Að vísu á öðru ári mínu voru allar myndir orðnar stafrænar og komnar á netið. Ég fékk mjög góða kennslu frá vinnuveitanda mínum þá og sölustjóranum. Ég mátti til að mynda ekki taka niður tilboð fyrr en ég hafði lært fasteignalögin og hafði starfað hjá honum í sex mánuði,“ segir Ólafur.

Hvernig finnst þér fasteignamarkaðurinn vera að þróast?

„Ég hef miklar áhyggjur af markaðinum á næstu 12-18 mánuðum fyrir kaupendur þar sem úrval sem er til sölu í dag er allt of lítið miðað við eftirspurn. Við á Mikluborg höfum kannað hversu margar eignir eru til sölu í dag og eru það um 850 eignir þegar búið er að taka út tvískráningar og eignir sem eru seldar með fyrirvörum. Næsta stóra nýbyggingaverkefni okkar er líklega ekki að koma inn fyrr en í byrjun 2022,“ segir hann.

Sérðu fram á frekari hækkanir?

„Já, það getur ekki annað gerst á meðan framboð er þetta lítið. Það eina sem gæti hægt á sölu er ef vextir myndu hækka aftur sem ég tel ólíklegt á næstunni og vona innilega ekki því lækkun vaxta er líklega ein besta kjarabót sem heimili hafa fengið og man ég þegar ég byrjaði að þá var bara Íbúðalánasjóður sem lánaði til íbúðarkaupa og voru þeir vextir 5,1% auk verðtryggingar en eru í niður í 1,5% í dag, sem þýðir lækkun um 90.000 kr. á mánuði á vaxtabyrði af 30 milljóna kr. lánum.“

Hvaða hverfi/bæjarfélög njóta mestra vinsælda?

„Svæðin í kringum 101 hafa alltaf verið vinsælust en einnig öll gróin og fullbyggð hverfi. En í dag skiptir svo sem ekki máli hvar á höfuðborgarsvæðinu er verið að selja því það er skortur á öllum svæðum.“

Ertu með einhver góð ráð fyrir þá sem dreymir um að flytja?

„Gefið ykkur tíma til að skoða nokkrar eignir áður en þið takið ákvörðun. Vandið valið á fasteignasölu og þeim fasteignasala sem sér um viðskiptin fyrir ykkur. Kannið vel þá greiðslugetu sem þið ráðið við,“ segir Ólafur.

Hvernig verður 2021 í fasteignsölu?

„Árið 2021 mun einkennast af seljandamarkaði. Það er ljóst að úrval eigna verður ekki mikið og mun taka langan tíma að vinna upp þennan skort. Til að mynda er ein 2ja herbergja íbúð til sölu í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal. Salan mun stýrast af því sem er til sölu svo ég sé ekki fram á annað en samdrátt í þinglýstum kaupsamningum þó svo að það endurspegli ekki þörfina á markaðinum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »