Keramik frá Hönnu í M Ó T í Masterclass-þætti

Hanna Margrét Einarsdóttir keramiker og eigandi M Ó T.
Hanna Margrét Einarsdóttir keramiker og eigandi M Ó T.

Hanna Margrét Einarsdóttir, keramiker og eigandi M Ó T, varð þess heiðurs aðnjótandi að keramikvörur hennar voru sýndar í Masterclass-matreiðsluþætti sem fór í loftið á dögunum.

„Þetta atvikaðist þannig að Heimir Sverrisson hjá Frostfilm hafði samband við mig síðasta haust og sagði að þau væru að gera sett fyrir Masterclass-þátt. Kokkurinn væri ekki af verri endanum, sjálf Niki Nakyama, eigandi tveggja n/naka-veitingastaða með tvær Michelin-stjörnur í Los Angeles. Þau vantaði keramik með japönsku yfirbragði. Staðurinn var valinn sá besti í heimi af Food&Wine árið 2019. Í Masterclass-þættinum má sjá glitta í litlar skálar, diska og tvo vasa fyrir aftan Niki sem eru frá M Ó T. Niki tók svo keramikvörurnar með sér heim til Kaliforníu,“ segir Hanna.

„Þetta er mikill heiður fyrir mig að fá vörurnar mínar í Masterclass-þáttinn. Það er mikið áhorf enda vinsæll þáttur. Niki Nakyama er mjög þekkt í Kaliforníu og veitingastaður hennar n/naka var kosinn einn af  bestu veitingastöðum heims hjá Food & Wine 2019. Hún var að kynna japanska matreiðslu í þættinum en Gordon Ramsey og fleiri heimsfrægir matreiðslumeistarar hafa komið fram í þáttunum,“ segir Hanna og bætir við: 

„Það er gaman að mörgum finnst keramikið mitt hafa japanskt yfirbragð. Það er eitthvað sem bara gerist. Mér finnst japönsk menning mjög heillandi og falleg,“ segir Hanna. 

Hún lærði keramikhönnun í Myndlistarskólanum í Reykjavík sem er hönnunarnám á háskólastigi.

„Ég hef verið með vinnustofu á Grandanum og í Íshúsi Hafnarfjarðar en er nú með vinnustofu í kjallaranum heima á Neshaga í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem ég er líka með búð og tek á móti hópum og vinnustöðum. M Ó T heitir eftir börnunum mínum, þetta eru upphafsstafirnir þeirra,“ segir Hanna. M Ó T-vörurnar hennar fást meðal annars í Mix Mix á Langholtsvegi og Safnbúð Gerðarsafns í Kópavogi auk þess sem vörur hennar eru í sölu hjá Studio Home Sted í Osló.

HÉR er hægt að sjá brot úr Materclass-þættinum. Þess má geta að það er ekki bara keramík frá Hönnu í þættinum þótt það sé í forgrunni.

mbl.is