Einstakt heimili Margrétar í páskabúningi

Margrét Kristín Sigurðardóttir á einstakt heimili.
Margrét Kristín Sigurðardóttir á einstakt heimili. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Margrét Kristín Sigurðardóttir viðskiptafræðingur og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins saknar þess að geta ekki ferðast til útlanda um páskana. Hún hefur leitað meira í útivist en vanalega og þakkar það kórónuveirunni. 

Margrét Kristín stóð í ströngu fyrir skömmu þegar samtökin héldu Iðnþing sem var í beinni útsendingu frá Hörpu en á þinginu var hvatt til þess að hlaupið yrði hraðar og tækifærin sótt til að koma efnahagslífinu aftur í gang með kröftugum hætti. Margrét hefur komið sér vel fyrir í nýju bryggjuhverfi í Kópavoginum.

„Hjá Samtökum iðnaðarins, þar sem ég starfa, er alltaf mikið að gerast. Verkefni mín eru af fjölbreyttum toga og enginn dagur eins því það eru alltaf ný mál að fást við og nýir viðburðir sem þarf að setja á dagskrá. Þar eru allir að leggja sig fram og kappkosta að gæta hagsmuna félagsmanna og hreyfa við hlutum sem þarf að hreyfa við. Við erum nýbúin að gefa út skýrslu um hvað þarf að gerast til að ná efnahagnum aftur á réttan kjöl eftir hamfarirnar sem hafa fylgt kórónuveirunni og erum að setja fram 33 umbótatillögur sem ráðast þarf í á næstu mánuðum til að hraða uppbyggingunni.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Alltaf ljúft að vera heima

Ertu mikil páskakona?

„Páskarnir eru alltaf kærkomnir. Ég hef oftast notað þá til að ferðast til útlanda en vegna kórónuveirunnar verður það að bíða betri tíma. En svo er nú alltaf ljúft að vera bara heima í rólegheitum og njóta þess að vera í fríi og þurfa ekki að mæta neins staðar.“

Hvað ætlarðu að gera um páskana?

„Ég stefni á að fara í fjallgöngu með æskuvinkonu minni, borða smá af páskaeggi, mæta í vöfflur í Þingholtin til mömmu og pabba og kannski hitta nokkrar vinkonur til að spjalla og hlæja.“

Hvað getur þú sagt mér um nýfundinn áhuga þinn á útivist?

„Það er hægt að skrifa hann á kórónuveiruna, því ég er í hópi fjögurra vinkvenna sem hafa gengið á hverjum einasta sunnudagsmorgni frá því að veiran fór að herja á okkur. Við hefjum gönguna klukkan níu að morgni og látum veðrið ekki stoppa okkur, enda lítið að marka að horfa út um gluggann og ætla að ákveða hvort óhætt sé að fara í göngu, það hefur allt sinn sjarma hvort sem það er rok og rigning eða sól og blíða.“

Hún segir tilhlökkunarefni alla vikuna að mæta í sunnudagsgönguna.

„Enda einstaklega skemmtilegar vinkonur sem ég geng með. Það er gaman að fylgjast með hvernig náttúran breytist frá viku til viku og smám saman hefur verið að bætast við birtuna eftir göngur í niðamyrkri í allan vetur. Til að bæta aðeins við útivistina skráði ég mig í Útivist og er núna að fara í fjallgöngur og náttúrujóga fram á vorið. Fimmvörðuhálsinn er síðan kominn á lista fyrir sumarið.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Fær ferskan blómvönd að gjöf á páskunum

Hvernig skreytir þú heima um páskana?

„Þegar stelpan mín, Helena Margrét Jónsdóttir, var lítil þá var ég dugleg að setja upp alls konar páskaskreytingar, með ungum og eggjum, sem eru allar komnar í geymsluna. Núna læt ég duga að skreyta með fallegum ferskum blómum. Mamma mín gefur mér alltaf vönd með hvítum liljum en túlípanar eru líka alveg ómissandi um páskana. Ég hef þá annaðhvort hvíta eða bleika þó flestum finnist kannski guli liturinn vera páskaliturinn.“

Hvað eldarðu á páskunum?

„Ég er mjög góð í að njóta matar sem aðrir elda en er lítið fyrir að standa í mikilli eldamennsku sjálf. Mínir hæfileikar liggja á öðrum sviðum þótt ég geti alveg gert góðan mat þegar ég þarf. Ég er góðu vön eftir að hafa unnið með íslenska kokkalandsliðinu fyrir nokkrum árum þar sem ég sá hvernig besti maturinn er búinn til. Ætli ég noti ekki páskana til að fara út að borða og bjóða dóttur minni og kærastanum hennar á einhvern góðan veitingastað. Það eru komnir svo margir frábærir veitingastaðir en helstu vandræðin núna er að fá borð og verður líklega ennþá erfiðara þegar ferðamenn byrja að streyma aftur til landsins.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Heimili Margrétar er fallegt og henni líður hvergi jafn vel og heima hjá sér.

„Mér finnst heimilið vera griðastaður þar sem allt á að vera eftir manns eigin höfði, þannig að það sé alltaf tilhlökkun að koma heim. Mér finnst gaman að hafa fallega hluti í kringum mig og finn gleði í því að horfa á listaverk og sérstaka muni sem minna mig á eitthvað, hvort sem það eru ferðalög sem ég hef farið í eða fólk sem ég hef hitt á lífsleiðinni. Ég skipti lítið um húsgögn en breyti kannski mottum, púðum og skrautmunum til að fá nýjan svip á heimilið mitt. Ilmkerti finnst mér vera ómissandi enda það fyrsta sem ég geri þegar ég kem heim úr vinnunni er að kveikja á einu slíku. Ég legg líka töluvert upp úr því að hafa góð sængurver og handklæði þótt það sé ekki sýnilegt öðrum en mér. Íslensk hönnun hefur verið að sækja í sig veðrið að undanförnu og ég ætla að fjárfesta meira í henni.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Leggur áherslu á að klæða sig fallega

Hvað með fatnað og klæðaburð á páskunum?

„Ég held að allir séu orðnir leiðir á kósígöllunum og vilji draga fram betri fötin. Það hafa fá tækifæri gefist til að klæða sig upp á, enda nánast engar samkomur verið í heilt ár. Mér finnst alltaf skemmtilegt þegar fólk skreytir sig með einhverjum litum þótt auðvitað sé svart alltaf klassískt. Um páskana ætla ég blanda saman einhverju sem er í fölbleikum lit og kamel. Annars er aðalatriðið að fötin séu úr góðum efnum og þægileg.“

Ferðu í páskadekur?

„Já, ég mun örugglega dekra vel við mig um páskana. Það er alveg hægt að dekra vel við sig heima og það þarf ekki annað en góða bók og eplasíder í fallegu glasi. Maski á andlitið og gott ilmvatn gerir líka heilmikið fyrir mann. En ef ég vil gera sérstaklega vel við mig þá er mitt besta dekur að komast í nudd og heitan pott. Kannski kemst ég í svoleiðis trít um páskana.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hefur ferðast með páskaegg víða

Ef þú ættir eina ósk, hver væri hún á páskunum?

„Eiga ekki allir þá einu ósk að kórónuveiran hverfi með öllu úr lífi okkar þannig að við getum aftur ferðast um heiminn og faðmað vini og vandamenn án ótta um smit. Það gefur líka meiri möguleika á að rekast á einhvern skemmtilegan.“

Áttu skemmtilega minningu af þér á páskunum?

„Þegar ég hef farið í ferðalög um páskana hef ég alltaf passað upp á að taka með súkkulaðipáskaegg sem ég pakka vandlega í ferðatöskuna og alveg ótrúlegt hvað hefur tekist vel að koma þeim óbrotnum á milli landa, meira að segja alla leið til Kína. Það er bara ekkert sem toppar íslenska súkkulaðið sem maður er alinn upp við og ég hef fengið um hverja einustu páska frá því ég man eftir mér.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál