Þurfti að hafa mikið fyrir því að eignast húsnæði

Elín Káradóttir fasteignasali í Hveragerði.
Elín Káradóttir fasteignasali í Hveragerði.

Elín Káradóttir flutti í Hveragerði árið 2016 ásamt eiginmanni sínum. Hún segir starfið lifandi og það gerist alveg að fólk hætti við að selja fasteign sína þegar það er búið að taka til heima hjá sér fyrir fasteignamyndatöku. 

„Þetta byrjaði sennilega á því að ég gerði mig ekki upptekna við að fylgjast með árangri annarra heldur nýtti ég minn tíma í að plana minn eigin árangur og fylgdist með öðrum, til að tileinka mér góða hluti og læra,“ segir Elín Káradóttir, eigandi og löggiltur fasteignasali á Byr fasteignasölu í Hveragerði. Hún er líka markþjálfi og hefur í mörg ár hjálpað fólki að taka til í lífi sínu. Elín rekur fasteignasöluna ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Vilberg Svavarssyni, eða Sigga eins og hún kallar hann. Hann sagði upp sinni vinnu í lok árs 2019 til að einfalda líf fjölskyldunnar og byrjaði að vinna á fasteignasölunni með Elínu og dreif sig svo í nám til löggildingar fasteignasala nú í haust. „Siggi er viðskiptafræðingur og verkefnastjóri frá Háskólanum í Reykjavík og það var mikil lukka að fá hann með mér í að reka fasteignasöluna. Margir sögðu að það væri ekki hægt að vinna með makanum sínum en þetta gengur vel upp hjá okkur,“ segir Elín.

Þegar hjónin fluttu í Hveragerði í febrúar 2016 þekktu þau engan í bæjarfélaginu. „Við fluttum hingað fyrst og fremst vegna þess að hér voru leikskólamál í talsvert betra standi en hjá Reykjavíkurborg, því ég var ólétt að mínu fyrsta barni þegar við fluttum. Ég var alveg ákveðin í því að ala mín börn ekki upp í bíl á rauðu ljósi. Við hjónin vorum sammála um að Hveragerði hefði allt, rólegheitin og nálægð við náttúruna, gott íþrótta- og skólastarf og síðan mjög stutt í höfuðborgina ef mann vantar eitthvað. Það líða alveg fleiri vikur án þess að ég fari til Reykjavíkur,“ segir Elín og hlær.

Þegar Elín og Siggi fluttu í Hveragerði var hún að eignast sína fyrstu íbúð en hann átti íbúð í Reykjavík fyrir sem hann seldi.

„Við þurftum að hafa töluvert fyrir því, þar sem við vorum að stækka úr 63 fermetra gamalli íbúð í nýtt 146 fermetra endaraðhús. Til þess að eiga fyrir útborgun, flutningum, og kostnaði við kaup og sölu þurftum við að leggja mikið til hliðar í eitt og hálft ár. Um tíma áttum við bara einn bíl og þegar allir voru á ferðalögum vorum við bara ánægð með að fara í göngutúr um nærumhverfið. Þetta hefur lítið breyst hjá okkur. Þessi venja, að leggja til hliðar í hverjum mánuði og vera sjálfum sér nóg, er mikil lífsgæði. Ég hef alla tíð talað fyrir nægjusemi og ég skil ekki af hverju fólk er að kaupa sér alls konar óþarfa sem það notar aldrei. Ég mun seint skilja af hverju fólk fyllir geymsluna sína eða bílskúrinn af dóti sem hefur nánast aldrei verið notað. Talandi um þetta, þá létum við verða af því að minnka við okkur í fyrra, úr 146 fermetrum niður í 96 fermetra. Það var alveg meiriháttar! Við notum öll rými og við erum ekki að borga fyrir auka fermetra sem við notum aldrei,“ segir Elín.

Nú eru hjónin búin að selja 96 fermetra íbúðina sína og kaupa efri sérhæð í tvíbýli. Íbúðin er staðsett í einu af elstu húsum Hveragerðis. Það þarf að gera nokkrar endurbætur á íbúðinni áður en þau flytja inn.

„Við viljum búa passlega stórt. Núna eru börnin okkar lítil og þurfa ekki mikið pláss. Þegar þau stækka, þá munum við stækka við okkur og fara í stærra hús, en þangað til er þetta fullkomið fyrir okkur, hver fermetri í notkun og enginn möguleiki á ruslasöfnun,“ segir Elín spennt fyrir nýju verkefni fjölskyldunnar.

Hveragerði er fallegur bær.
Hveragerði er fallegur bær.

Ertu með gott ráð fyrir fólk sem vill flytja?

„Mitt besta ráð til fólks er að byrja að taka til heima hjá sér ef það er í söluhugleiðingum. Það kemur sér alltaf vel, hvort sem þú ert að fara í fasteignamyndatöku, að sýna húsið væntanlegum tilboðsgjöfum eða flutninga. Þá er alltaf best að byrja á því að taka til og taka í burtu það sem á ekki að fara með á nýja heimilið. Þetta er það sem vex flestum í augum, þetta er erfitt en ofsalega gott þegar það er búið. Meira að segja eru þess dæmi að þegar fólk hefur tekið hressilega til, þá loksins sjái það húsið sem það býr í og hætti við að selja. Sumum finnst kannski skrýtið að ég fagni því, verandi fasteignasali, en mér finnst það frábært. Það kemur að því að húsið hentar ekki lengur og þá er rétti tíminn til að skipta um húsnæði.

Mér finnst gaman að aðstoða fólk við að finna sér annað hús sem hentar hverju sinni. Það er svo gaman að vita af einum sem vill minnka við sig, öðrum sem vill stækka og koma þannig af stað keðju sem gengur upp. Það er gaman að geta aðstoðað fólk við að finna sitt draumahús til að geta skapað sér nýtt heimili. Mest finnst mér gaman þegar mér er boðið í heimsókn nokkrum mánuðum eftir að kaup takast og ég fæ að sjá breytingar hjá fólki eftir að það er flutt inn, mér þykir vænt um slík boð. Mér finnst líka gaman að vinna með verktökum sem eru að selja nýbyggingar. Margir verktakar sýna mér drög að teikningum og það er gaman að geta gefið nokkur góð ráð þegar innra skipulag er teiknað,“ segir Elín og bætir við:

„Umfram allt þá snýst starf fasteignasalans um það að koma fólki úr einu húsi yfir í annað á sem öruggasta hátt og þetta þarf að meðhöndla af mikilli virðingu við alla aðila málsins. Langflest við fasteignasölustarfið er mjög skemmtilegt en það getur líka verið krefjandi. Það getur verið krefjandi að koma aðilum saman um helstu atriði kaupsamningsins, sömuleiðis getur það oft verið snúið að fá lánastofnanir til að tala saman og gefa eftir í veðréttarröð þótt það sé alltaf að verða betra. Það getur verið erfitt þegar einn aðilinn í málinu sinnir ekki sínu eins og til var ætlast í upphafi og þegar einhver þarf að gefa eftir eitthvað sem er ekki endilega sanngjarnt að gefa eftir. Þetta eru allt verkefni sem þarf að leysa og það reyni ég að gera samkvæmt bestu getu.

Góður fasteignasali er sá sem áttar sig á því að þetta er þjónustustarf en ekki sölustarf. Stærsti hlutinn af þjónustunni er að gefa sér tíma til að hlusta á fólk og leggja sig fram um að skilja aðstæður þess og útskýra svo næsta skref í ferlinu. Kaupferlið getur verið flókið og góðir fasteignasalar leiða sína viðskiptavini í gegnum ferlið, alla leið fram yfir afsal. Mér finnst gott að reka litla fasteignasölu, þar sem allir starfsmenn stofunnar koma að kaupferlinu, hver með sína sérþekkingu. Með þessu fyrirkomulagi verður þjónustan persónulegri, þetta er mögulega tímafrekara en þetta er að reynast vel hjá okkur á Byr fasteignasölu.“

Hvernig er fasteignamarkaðurinn núna, 2021?

„Hann er allt of hraður. Það er lítið framboð á eignum og verðið er að hækka mjög hratt. Það væri betra að hafa hægari stígandi í fasteignaverðinu en þar sem framboð og eftirspurn ræður för, þá er þetta niðurstaðan. Þegar ég flutti í Hveragerði árið 2016 þá voru margir að gera það sama og við hjónin, fara frá höfuðborgarsvæðinu til að bæta lífsgæði sín með því að fá húsnæði á lægra verði. Nú í dag, árið 2021, er þetta enn að gerast. Það er mikil uppbygging hér á svæðinu. Í Hveragerði, Þorlákshöfn og Selfossi ásamt minni byggðarkjörnunum eru margar nýbyggingar að rísa og því er ég bjartsýn á góðan markað og mikla möguleika fyrir fólk að flytja hingað austur fyrir fjall.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »