Eva María hefur búið sér falleg heimili í sjö borgum

Eva María Daniels er búsett í Sviss ásamt eiginmanni sínum …
Eva María Daniels er búsett í Sviss ásamt eiginmanni sínum Moritz Diller og syni þeirra Henry Alexander. mbl.is/Filippo Bamberghi

Eva María Daniels kvikmyndaframleiðandi er búsett í Sviss, með eiginmanni sínum Moritz Diller og syni þeirra Henry Alexander, í fallegu nýendurgerðu húsi með listagallerí á einni hæðinni. 

Margir þekkja til verkefna Evu Maríu innan kvikmyndanna en hún framleiddi meðal annars myndina Joe Bell sem skartar Mark Wahlberg í aðalhlutverki.

Færri vita kannski af nýjasta verkefni hennar; Diller Daniels, þar sem hún byggir brú á milli myndlistar, kvikmynda og upplifunar á mat svo dæmi sé tekið.

„Ég er alltaf að leita leiða til að kryfja eða greina það sem ég er að gera. Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og hef verið á stöðugu ferðalagi frá því ég flutti að heiman, tuttugu og tveggja ára að aldri, til að mennta mig í kvikmyndagerð. Ég hef búið mér fallegt heimili í sjö ólíkum borgum en hef búið hvað lengst í New York-borg. Þegar ég lít yfir lífið mitt og tengi staðina sem ég hef búið á við lífrás lífsins, þá má segja að New York sé miðpunkturinn og að Reykjavík sé hjartastöðin þar sem ég fæ jarðtenginguna mína.“

Eva María í eldhúsinu sem hún gerði upp nýverið.
Eva María í eldhúsinu sem hún gerði upp nýverið. mbl.is/Filippo Bamberghi

Hún fékk enn þá sterkari þörf fyrir íslensku ræturnar sínar eftir fæðingu sonarins árið 2017.

„Sú ákvörðun að flytja til Sviss var tekin til að vera nær fjölskyldu mannsins míns. Þá langaði mig að gera eitthvað listrænt sem hefði tengingu við Ísland og gefa syni mínum það tækifæri að alast upp í því umhverfi líka. Sem kvikmyndaframleiðandi hef ég alltaf haft þennan brennandi áhuga á að segja sögur. Ég hef einnig alltaf verið með brennandi áhuga á list, hönnun og mat. Því lá það beint við þegar við fluttum hingað að sameina list og kvikmyndir og gefa því eina rödd.“

Fjölskyldan er mikið fyrir menningu og list og bækur.
Fjölskyldan er mikið fyrir menningu og list og bækur. mbl.is/Filippo Bamberghi

Gerðu upp fallegt hús nálægt fjölskyldunni

Eva María og Moritz Diller fundu fallegt húsnæði steinsnar frá fjölskyldunni. Húsið var á því verðbili sem þau vildu hafa það og þarfnaðist viðhalds því það var komið til ára sinna.

„Mig langaði að hanna hús sem gæti verið heimili okkar en einnig staður fyrir vinnuna . Ég hannaði allt að innan sjálf og vann með byggingafyrirtæki á staðnum. Verkefnið tók tólf vikur þar sem við fórum í talsverðar breytingar. Við tókum niður nokkra veggi og settum fallegt efni á gólfin. Endurgerðum eldhúsið og gerðum upp eitt baðherbergi. Síðan bjuggum við til fallegan sýningarsal á annarri hæð hússins þar sem hægt er að ganga út á stóra verönd sem stendur andspænis Zürich-vatni. Svo náttúran kallast á við fegurðina inni í rýminu.

Markmið okkar með þessu sýningarsvæði var að geta boðið litlum hópum að koma að upplifa fallega myndlist frá íslensku listafólki í húsnæði sem væri heimilislegt og fallegt.

Hugmyndin er að bjóða einnig upp á matarupplifun og einstakan félagsskap svo þannig bý ég til sögusvið sem ýtir undir einstaka upplifun.

Ég vildi bjóða upp á stað þar sem fólk getur keypt list utan hins hefðbundna ramma. Þannig að svæðið væri hvorki eins og listasafn né hefðbundið gallerí.

Staðurinn er barnvænn og fáránlega vinalegur sem mér finnst heillandi. Það er ekkert þessu sambærilegt til í Sviss sem sannfærði mig enn þá meira um að framkvæma verkefnið.“

Á heimilinu sem er hlýlegt en einnig staður þar sem …
Á heimilinu sem er hlýlegt en einnig staður þar sem hægt er að vinna. mbl.is/Filippo Bamberghi

Alltaf haft þörf fyrir að flýja í listina

Fyrsta listasýningin ber nafnið Life in a Day – og er inntak sýningarinnar fallegur vinskapur þeirra Sigtryggs Berg og Steingríms Gauta.

„Ég hef alltaf heillast af því sem getur aðstoðað mann við að flýja daglega lífið. Þegar ég var barn gat ég gleymt mér við að horfa á kvikmyndir og var það fyrsta skrefið mitt inn á listasviðið.

Síðan í mars á síðasta ári greindist ég óvænt með þriðja stigs krabbamein af óþekktum uppruna, þá ákvað ég að staldra við og gera hlutina í lífinu mínu öðruvísi. Ég fann hvað ég vildi vera meira í kringum fjölskylduna mína og hvað ég vildi fá ánægju og arðsemi, fallega hluti og gleði á meiri hraða inn í líf mitt.

Mig langaði að gera eitthvað sem ég elskaði að gera og það sem veitir öðrum hamingju líka. Nú er heilsan mín orðin góð aftur og í raun eins og engin veikindi hafi verið. Ég sé mitt líf á einum þegar ég er í kringum verkin þeirra Sigtryggs og Steingríms.“

Töfrandi litir og lýsing.
Töfrandi litir og lýsing. mbl.is/Filippo Bamberghi

Eva María sér ekki skýra línu á milli myndlistar og kvikmynda.

„Báðir heimar taka þig út úr samhenginu þínu og gefa þér innsýn inn í nýja heima. Það sem ég upplifði í kvikmyndagerð upplifi ég einnig í myndlist. Þar sem ástríða er vinna sem maður verður að næra og veita athygli.“

Hún er án efa snillingur í þessu öllu enda hélt hún nokkrar listasýningar í Los Angeles þegar hún leiddi saman myndlistarfólk og kvikmyndaleikara.

„Ég fékk Marisu Tomei og Dakota Johnson meðal annars til að stýra viðburðunum og voru gestirnir aðallega úr kvikmyndaheiminum. Þá fann ég svo skýrt hvað þessir tveir heimar eru í raun og veru einn og hinn sami.“

Diller Daniels er viðskiptahugmynd þar sem búin er til brú …
Diller Daniels er viðskiptahugmynd þar sem búin er til brú á milli myndlistar, kvikmynda og upplifunar í mat. mbl.is/Filippo Bamberghi

Hvernig er að búa í Sviss?

„Það er mjög athyglisvert og ég er svona enn þá að átta mig á því. Svisslendingar elska reglur en við Íslendingar kannski ekki svo mikið. Ég var sem dæmi stoppuð af lögreglunni um daginn og sektuð um 25 þúsund krónur fyrir að gefa ekki stefnuljós. Það er smá svona Truman Show-stemning í þessu hérna. Alltaf verið að fylgjast með manni. En á móti kemur að allt virkar hérna. Vötnin eru hrein, vegirnir sléttir, menntakerfið er gott og heilbrigðiskerfið er algjör lúxus þar sem engin bið er eftir neinni þjónustu og spítalarnir svipaðir góðum hótelum. Þannig að ef litið er til lífsgæðanna er erfitt að finna betri stað.

Ekki skemmir fyrir að það er bara þriggja tíma akstur til Mílanó og fjöggura tíma lestarferð til Parísar.“

Fallegur sýningasalur hefur verið gerður á annari hæð hússins.
Fallegur sýningasalur hefur verið gerður á annari hæð hússins. mbl.is/Filippo Bamberghi

Eva María er með svartan húmor og elskar að framleiða kvikmyndir sem hafa tilgang og merkingu.

„Ég vil hreyfa við fólki og hef alltaf haft ástríðu fyrir því. Sannar sögur af afbrigðilegum fjölskyldum finnst mér alltaf spennandi efni, sérstaklega ef þær bjóða upp á að vera sagðar með húmor. Ég er með frekar svartan húmor sjálf. Því alvarlegri sem hlutirnir verða þeim mun fyndnari verða þeir stundum. Lífið er stundum svo gott en stundum svo glatað líka og það er allt í lagi. Það er hluti af ferðinni.“

Listaverk setja ákveðinn stíl á húsið.
Listaverk setja ákveðinn stíl á húsið. mbl.is/Filippo Bamberghi

Ekki hefðbundin mamma

Hvernig mamma ert þú?

„Ég myndi segja að ég sé góð en kannski óhefðbundin mamma. Kannski svolítið gamaldags í stílnum mínum þar sem ég er ekki þyrluforeldri. Sonur minn fær mikla ást og umhyggju en hann þarf líka að læra að kljást við vandamál sjálfur frá ungum aldri svo hann geti orðið sjálfstæður ungur maður. Hann gengur í alþjóðlegan skóla hér í Sviss þar sem okkur finnst mikilvægt að hann sé í alþjóðlegu umhverfi með fjölbreyttum hópi af börnum frá mörgum mismunandi bakgrunnum.

Við erum með þau plön að fara til Parísar við fyrsta tækifæri en vitum vel að þau plön gætu fallið niður ef önnur bylgja fer af stað annaðhvort hér eða í Frakklandi en það er gaman að geta planað og hlakkað til þótt einhverjar breytingar verði á.“

Veröndin er einstaklega falleg í húsinu.
Veröndin er einstaklega falleg í húsinu. mbl.is/Filippo Bamberghi
Gróðurinn og útsýnið er fallegt í kringum húsið.
Gróðurinn og útsýnið er fallegt í kringum húsið. mbl.is/Filippo Bamberghi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »