Vigdís flytur í bæinn og selur einstaka íbúð á Akureyri

Vigdís Rún Jónsdóttir hefur búið sér fallegt heimili á Akureyri.
Vigdís Rún Jónsdóttir hefur búið sér fallegt heimili á Akureyri.

Vigdís Rún Jónsdóttir var á dögunum ráðin verkefnastjóri sýninga hjá Listasafni Íslands. Hún hefur síðustu ár búið á Akureyri en flytur nú í bæinn vegna nýja starfsins. Af því tilefni hefur hún sett sína fallegu íbúð á Akureyri á sölu.

Um er að ræða 138 fm íbúð sem er í húsi sem byggt var 1903. Íbúðin býr yfir miklum sjarma en í stofunni er gömul kamína og er klæðning upp á veggina sem er máluð svört. Ljóst parket er á gólfum og allir skrautlistar stíflakkaðir. 

Í eldhúsinu er nútímaleg innrétting sem er hvít að lit og risastór gaseldavél. Í miðju eldhúsi er antík borðstofuborð sem spilar vel við loftljósið og svartmálaða veggina. 

Húsið er reisulegt og fallegt, og stendur á stórri hornlóð á gatnamótum Aðalstrætis og Hafnarstrætis í Innbænum á Akureyri. Húsið mun hafa komið tilhöggvið frá Noregi og er nokkuð dæmigert fyrir norsk sveitser-hús, með útskornu skrauti á kvisti og skrautgluggum. Í húsinu var fyrsta símstöð Akureyrar og tók hún til starfa 1914. Húsið er friðað og hefur hátt friðunargildi vegna sögu þess og staðsetningar. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsinu og undanfarin ár hefur húsið fengið styrk frá Minjastofnun og t.a.m. liggur fyrir samþykki fyrir styrk fyrir tröppum á norðurhlið hússins sem og fyrir grind og gluggum í sólskála á austurhlið.

Af fasteignavef mbl.is: Hafnarstræti 3

mbl.is