Bjó í 58 fm íbúð og leið eins og hún væri að kafna

Þórhildur Magnúsdóttir, naumhyggjusinni, nýútskrifuð hagfræðingur, jógakennari og stofnandi áhugamannahóps um mínimalískan lífsstíl á Facebook er nýjasti gestur bræðranna Gunnars Dan Wiium og Davíð Karls Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu.

Hún fer yfir söguna um hvernig hún byrjaði ung að skoða naumhyggjulegan lífsstíl sem leið undan þyngd efnishyggjunnar. Það ferðalag færði hana enn lengra inn í grisjun eigin hugarfars með jóga og aukinni núvitund. Hún heimfærði einnig naumhyggjuna yfir í samskipti sín við sína nánustu, innan hjónabands og í uppeldi á drengjunum sínum tveimur.

„Við bjuggum í þessari 58 fermetra stúdentaíbúð og tilfinningin var bara að ég væri að kafna í drasli heima hjá mér,“ segir Þórhildur í hlaðvarpsþættinum. 

„Við vorum akkkúrat að fara að flytja, svo þetta var svolítið svoleiðis: Ætla ég að pakka þessu í kassa til að keyra með þetta á næsta stað til að þola þetta ekki þar?“

Svona lýsir Þórhildur aðdraganda sveiflunnar inn í þennan naumhyggjuheim sem hún nú hefur kynnt sér síðustu ár.

„Ég myndi segja að frelsið væri markmiðið í þessu, að ég þurfi ekki alltaf að vera að þrífa eða að ef þú flytur að það verði ekki bara ógeðslega yfirþyrmandi verkefni og einmitt að vera frjáls frá að samsama sig með þessum hlutum. Ef húsið mitt brennur þá bara hrynur heimsmyndin mín, þá veit ég ekki hver ég er því ég á ekki lengur þetta sófasett eða þetta málverk og allt sem ég hafði byggt, bara ég, sagan um mig,“ segir Þórhildur þegar hún er spurð út í markmiðið eða forsendur hennar fyrir lífsstíl naumhyggjunnar.

Svo bætir hún við: „Við gerum þetta einnig með maka og vinnu, þú veist og útlit og holdafar og allt, ég „er“ allt þetta efnislega, sem er ekki satt.

Það var eitthvert augnablik þar sem ég var horfa í spegilinn og ég var að fatta þetta, að ég er ekki að eltast við meira dót, ég veit að það er ekki hamingjan, ég veit ég vil ekki stærra þetta og flottara hitt því það er ekki að fara að veita mér hamingju. Og þá kom það, hvað er ég þá að fara að eltast við?“ segir Þórhildur er hún er spurð út í hvernig þessi ytri naumhyggjulega hreyfing hennar svo færði hana inn í þá innri vinnu eða grisjun sem svo hófst með iðkun á núvitund og yoga.

„Það sem ég hef séð hjá mér, er að ég er svo mikið að æfa mig í að vera einlæg og tala í hreinskilni, viðurkenna ótta og viðurkenna allar þessar tilfinningar sem við viljum svo mikið fela, við viljum svo mikið vera með allt á hreinu og bara moka yfir þetta,“ segir Þórhildur í samhengi við Instagram-síðuna Kyrra (@kyrra.lifstill) sem hún stofnaði ásamt vinkonum sínum í þeim tilgangi að stuðla að vitundarvakningu hvað varðar kyrra lífið, auka tilfinningagreind, núvitund og mennsku.

„Að samsama sig ekki allt of mikið með börnunum sínum, þetta er eins og ef barnið mitt fær frekjukast í búðinni, þá þarf ég ekki að taka því sem stimpli að ég sé slæm manneskja, að ég sé slæm móðir. Ég sé bara að barnið mitt er ekki að höndla þetta, þessar aðstæður og það hefur ekkert að gera með mig sérstaklega sem móður.“

„Að leyfa allar tilfinningar, ef barninu leiðist þá þarf ég ekki að gefa því skjá, ég get bara verið í núvitund með tilfinningunum, bara að afbera það að barninu mínu líði illa, mér þarf ekki að líða illa þótt barninu mínu líði illa.“

Þetta segir Þórhildur um naumhyggjulegar meðvirknipælingar sem uppalandi, móðir tveggja ungra drengja.

Hún bætir svo við þegar hún er spurð út í nauðsyn þess að hafa hugrekkið til að sjá og umbera þjáningu barnsins síns:

„Algjörlega, hugrekkið og núvitundin er undirstaðan, og þessi vitneskja um að ég á ekkert barnið mitt, ég á ekki að stjórna öllu og ég á ekki að móta barnið mitt.“

„Við erum alltaf að leita að einhvers konar viðurkenningu, og ef við leitum af henni utanfrá þá dettum við í þessa gildru, þá viljum við vera eins og hópurinn og fá viðurkenningu frá hópnum. Og það eru örugglega allir að hugsa setninguna sem þú sagðir áðan; mér líður aldrei eins og mér finnst aðrir líta út fyrir að vera – og það eru allir að hugsa það sama. Það eru allir að sjá hinn og hugsa þú ert flottari en ég og hinn hugsar það sama um þig, þetta er bara þessi spírall sem við lendum í,“ segir Þórhildur varðandi lífsgæðakapphlaupið eða "keeping up with the Jones’s". 

Þáttinn er hægt að hlusta á í heild sinni á  hlaðvarpsvef mbl.is og horfa á hann á YouTube: 

mbl.is