Greipur ætlar alls ekki að missa af þessu næstu daga

Greipur Gíslason tekur HönnunarMars með trompi í ár en hann …
Greipur Gíslason tekur HönnunarMars með trompi í ár en hann er einn af þeim sem bjó til hátíðina á sínum tíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Greipur Gíslason verkefnastjóri ætlar að taka hönnunarhátíðina HönnunarMars með trompi en hátíðin hófst í dag. 

„Það eru margar leiðir til að upplifa HönnunarMars. Frá upphafi má segja að ég hafi nálgast hátíðina með All In-aðferðinni. Hún krefst þess að fólk annaðhvort losi sig úr vinnu og frá öðrum verkefnum meðan á hátíðinni stendur, og helst daginn eftir að henni lýkur, eða, sem kannski ekki allir geta, hreinlega gera HönnunarMars-þátttöku að atvinnu. Ég hef prófað báðar aðferðirnar.

Hvort sem fólk beitir All In–aðferðinni eða öðrum nálgunum er alltaf til bóta að skipuleggja sig aðeins. (Nauðsynlegt reyndar í All In.) Ekki síst nú á dögum þegar takmarkanir geta valdið því að viðburðir hreinlega fyllist.

Í ár ákvað ég að byrja á að skipuleggja þéttan HönnunarMars-laugardag og deili honum glaður hér,“ segir Greipur í viðtali inni á vef Hönnunarmiðstöðvar Íslands. 

„Ég ætla að hefja daginn í miðju höfuðborgarinnar. Ásinn stoppar mjög nálægt Gerðarsafni í Kópavogi. Safnið er opnað kl. 10 en við megum engan tíma missa og því mæti ég upp úr níu og sest á nýoppnað kaffihús Reykjavík Roasters á jarðhæð safnsins. Með því verð ég til í slaginn. Á Gerðarsafni hefur HönnunarMars-sérfræðingurinn Sara Jónsdóttir stýrt sýningunni Fylgið okkur. Á sýningu sinni teflir Sara fram spennandi hönnuðum sem eru kannski ekki að stíga sín fyrstu skref en verður án efa spennandi að fylgjast með í náinni framtíð. Þverfagleg vinna verður áberandi á sýningunni en þar verða verk eftir hönnuði úr öllum geirum hönnunar.

Næst er ferðinni heitið á Lækjartorg. Ásinn kemur okkur hratt og örugglega á leiðarenda. Í skemmtilegu gróðurhúsi Borgarinnar á torginu hafa þrír hönnuðir komið sér fyrir á hátíðinni. Frá upphafi hefur HönnunarMars veitt innsýn í öll stig hönnunarferlisins. Allt frá hugmynd, eða jafnvel vísi að hugmynd, til fullmótaðrar vöru eða byggingar.

Á Lækjartorgi á sér stað rannsókn á lífrænni prentun. Er hægt að prenta með myglusvepp? Hvað gerist að prentun lokinni, stækkar prentverkið og breytist?

Ekta HönnunarMars-viðburður sem býður okkur velkomin í nýtt rými og kynnir okkur nýja hugmynd. Kannski breytir hún heiminum, kannski ekki.

Við stefnum upp á Skólavörðuholt. Á leiðinni þangað stöldrum við við á Skólavörðustíg og upplifum mjög týpískan en spennandi HönnunarMars-viðburð. Í gluggum Rammagerðarinnar verður keramikrenniverkstæði þar sem lærðir keramikhönnuðir bjóða öðrum hönnuðum upp í dans við rennibekkinn. Án efa myndræn og skemmtileg innsetning,“ segir Greipur. 

HÉR er hægt að lesa meira um það sem Greipur ætlar að gera í dag og næstu daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál