Er bara 15 mínútur að keyra í paradís

Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir er með fallegt land í Skammadal í …
Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir er með fallegt land í Skammadal í Mosfellsbænum.

Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir er búsett í Reykjavík en er með garðland með kofa í Skammadal í Mosfellsbænum þar sem nú hefur myndast þyrping pínulítilla og krúttlegra húsa. 

Í Skammadal eru gömul garðyrkjulönd sem Mosfellsbær leigði Reykvíkingum sem vildu rækta kartöflur fjarri borginni. Hér áður fyrr þurftu borgarbúar að leggja á sig svolítið ferðalag til að komast í Skammadal en nú á tímum er lítið mál að skjótast þangað á góðum degi á hvaða tíma árs sem er. Fólk sem leigði garð undir ræktunina gat líka fengið smá land til leigu undir skúr til að dvelja í og hefur myndast þar þyrping pínulítilla og krúttlegra húsa.

Þessi staður hefur heillað konur eins og Guðrúnu Lilju sem kann vel við sig í skapandi umhverfi náttúrunnar.

Guðrún Lilja starfar á Borgarbókasafninu þar sem hún leiðir stefnumótun og nýsköpunarverkefni bókasafnsins. Sjálf hefur hún tekið þátt í alls konar hönnunarverkefnum, meðal annars á árunum 2005 til ársins 2015 þegar hún rak hönnunarstúdíó í gamla Alliance-húsinu. Þar framleiddi hún og seldi íslenska hönnun og tók þátt í að hanna búðir og ilmvatnsflöskur fyrir rússneskt snyrtivörumerki.

„Garðurinn í Mosfellsbænum er dásemdarstaður fyrir andrými og uppskeru nálægt borgarmörkum. Lóðirnar á þessum stað eru almennt í kringum 300 fermetrar en okkar lóð er eitthvað aðeins stærri. Þessi garður kom til okkar af algjörri tilviljun. Við vorum í Mosskógum í Mosfellsdal fyrir fimm árum og ákváðum að keyra upp í Skammadal því við höfðum aldrei komið þangað. Í stuttu máli þá heilluðumst við af þessu svæði, sem minnti mjög á þessi litlu garðlönd með kofum sem maður sér víða í Evrópu og er einstakt hér á landi. Daginn eftir vorum við búin að kaupa kofa sem stendur þar á leigulóð.“

Húsið er lítið og sætt í garðinum sem er góður.
Húsið er lítið og sætt í garðinum sem er góður.

Tekur fimmtán mínútur að keyra í garðinn

Guðrún Lilja býr nærri Laugardalnum í Reykjavík en þar sem fjölskyldan býr er ekki garður.

„Það tekur ekki nema fimmtán mínútur að keyra í Skammadal. Það má segja að ég noti garðinn mest til að fá útrás fyrir að smíða en ég lærði húsgagnasmíði á sínum tíma og finnst mér fátt jafn skemmtilegt og að sjá árangur af því að búa til eitthvað nýtt úti í náttúrunni. Manninum mínum finnst best að hugsa um gróðurinn, hvort sem það er að grisja, gróðursetja eða snyrta, og er frábær í því svo verkaskiptingin er nokkuð skýr þó að við gerum auðvitað margt saman líka.“

Það jafnast fátt á við að borða úti í guðsgrænni …
Það jafnast fátt á við að borða úti í guðsgrænni náttúrunni.

Hvernig notið þið garðinn?

„Á fallegum sólríkum degi fer fjölskyldan í garðinn til að leyfa hundinum að hreyfa sig.

Stundum förum við í garðinn til þess að hella upp á kaffi, spjöllum saman og slökum á. Svo eru auðvitað vinnudagar þarna upp frá þar sem gott getur verið að gera eitthvað úti og sjá árangur. Við erum búin að smíða lítinn sólkofa til að sitja inni í á haustin og vorin eða þegar sumarnæturnar eru kaldar. Við erum langt komin með útiborðstofu og eldhús.

Hvort tveggja er hugsað sem skjól en samt þannig að maður geti verið nálægt náttúrunni. Við gerðum girðingu úr viði sem var grisjaður á lóðinni og skjólgirðingu á milli lóða. Þetta er allt mjög klassískt. Kofinn sjálfur sem er á lóðinni er gamall og lúinn en þar er hvorki vatn né rafmagn svo að maður hverfur inn í annað tímabil um leið og maður mætir á staðinn.“

Vatn með myntu úr garðinum.
Vatn með myntu úr garðinum.

Ætla að klára útieldhúsið í sumar

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Í Skammadal er markmiðið að klára útieldhúsið en „borðstofu“-hlutinn af því er búinn og mjög mikið notaður. Svo þarf að snyrta tré og runna, laga til í beðum og byrja mögulega á að undirbúa að endurgera kofann á lóðinni. Við eyðum stórum hluta af sumarfríinu þarna en svo ætla ég að stinga af og fara í tvær gönguferðir. Eina um svæðið í Landmannalaugum og aðra fyrir austan, þar sem gengið verður um Víknaslóðir og Stórurð. Svo verða örugglega margar stundir eftir vinnu hér í garðinum því það er svo gott að skreppa í tvo til þrjá tíma og láta daginn líða úr sér í náttúrunni og fuglasöng.“

Hvað ræktið þið á landinu ykkar?

„Við ræktum ekki mikið þar enn þá. Mesta vinnan hefur farið í að snyrta lóðina því það var svo mikill gróður á henni. Það þurfti að grisja tré og endurhugsa hana eftir okkar þörfum. Lóðin hafði ekki verið notuð í 10 ár svo hún var í algerri órækt þegar við tókum við henni. Við erum samt búin að forrækta smávegis grænmeti og saga niður í gróðurkassa svo að þetta verður fyrsta sumarið sem einhver ræktun verður.“

Girnilega Paella er elduð í sveitinni.
Girnilega Paella er elduð í sveitinni.

Börnin njóta sín í garðinum

Hvað gera börnin og nánir ættingjar þegar þau koma í garðinn ykkar?

„Við eigum samtals sex börn, tengdabörn og fjögur barnabörn svo það er stór hópur sem kemur til okkar af og til. Þá grillum við eða erum með paellu, nú eða förum bara í sólbað á góðum degi.

Á aðventunni hengdum við pakka upp í tré handa barnabörnunum og þau fóru í mjög skemmtilega pakkaleit í skóginum. Við höfum líka haldið alls konar veislur, bæði stórar og smáar, með vinum og vandamönnum á staðnum. Útiborðsofan er algjör lykill að því að geta boðið í veislu í garðinum. Þar er skjól fyrir regni og vindum en samt er maður í náttúrustemningu og fer svo bara í lopapeysuna þegar sólin sest.“

Guðrún Lilja og fjölskylda hafa búið erlendis og hafa lengi horft til þess að vera með garð nálægt byggð.

„Okkur fannst eitthvað svo spennandi að geta átt svona afdrep til að kúpla sig út í. Við höfum bæði verið mikið í sveit og svo bjuggum við líka í Aðaldalnum fyrir norðan í átta ár þegar krakkarnir voru litlir þannig að við sækjum í náttúruna. Foreldrum mínum þykir voða notalegt að koma og mamma nælir sér alltaf í nokkra rabarbara í sultugerð hér.“

Jarðaberin í garðinum er lítil og gómsæt.
Jarðaberin í garðinum er lítil og gómsæt.

Fjölær blóm og laukar í garðinum

Hvernig blóm ertu með á sumrin í garðinum?

„Það eru mest fjölær blóm og laukar í garðinum og hann er nokkuð náttúrulegur. Ég er ekki með sérstaklega græna fingur en maðurinn minn er með það. Ég fæ samt yfirleitt að velja hluta af sumarblómunum. Hann er með afmarkaðan hluta sem er algerlega hans að velja plöntur í. Ég er ekki mesti sérfræðingurinn í hvað blómin heita. Ég þekki risavalmúa sem blómstrar æðislegu blómi á hverju ári. Í sumar ætlar hann að halda áfram að velja plöntur og planta einhverju sem lifir vel á lækjarbakka því það rennur lítill lækur um lóðina.“

Hvað með tré og annan gróður?

„Það eru margar gerðir af trjám. Stórar og gamlar aspir, grenitré, reyniviður, fura, birki og mikið af lerki. Það eru líka sjaldgæfari tré eins og askur og álmur en álmurinn fékk ótrúlega skrítna heimsókn í fyrra þegar álmlús huldi hann að stórum hluta svo ég vona að hann verði í lagi í sumar og fái ekki aftur svona heimsókn. Svo eru sólberjarunnar og nokkrir aðrir sem ég man ekki hvað heita. Eitt af því skemmtilegasta sem vex frjálst á lóðinni eru ofursmá jarðarber. Þau eru ekki mörg en nógu mörg til þess að barnabörnin geti tínt þau og borðað með rjóma einu sinni á ári. Uppáhaldsplantan mín á lóðinni er fallegt geitaskegg sem er fyrir framan kofann. Fróðir menn segja að það haldi lúsmýi frá og ég held að það sé satt.

Það er mjög mikið fuglalíf á lóðinni. Svartþrestir, skógarþrestir, auðnutittlingar, hrossagaukur og meira að segja sáum við músarrindil eitt sumarið. Humlan lifir góðu lífi með okkur og sækir í blómin en það eru fáar vespur sem betur fer.“

Fegurðin er mikil í Mosfellsbænum.
Fegurðin er mikil í Mosfellsbænum.

Góð hugmynd að prófa sig áfram í garðinum

Ertu með góða hugmynd um hvernig best er að njóta sín í garðinum í sumar?

„Ef maður hefur kost á því að byggja yfir eitthvert smá setsvæði þá lengir það tímann sem maður getur verið úti og fjölgar möguleikum á skemmtilegum samverustundum. Ég mæli hiklaust með því. Svo bara að þora að prófa sig áfram, ef mann langar að byrja á einhverju, hvort sem það eru gróðurkassar, hellulagnir eða að búa til skjól fyrir veðri og vindum þá eru til endalausar upplýsingar á netinu um leiðir til að gera hlutina sjálfur með alls konar útfærslum. Ég mæli samt alltaf með því að fá fagmenn ef maður er að fara í stærri aðgerðir svo sem undirstöður og önnur lykilatriði.“

Kaffi og gong út í sveitinni.
Kaffi og gong út í sveitinni.
Það er notalegt að hugleiða við gong út í sveitinni.
Það er notalegt að hugleiða við gong út í sveitinni.
Setustofan er hugguleg á sumrin.
Setustofan er hugguleg á sumrin.
Þegar allir koma með eitthvað á grillið þá verður málsverðurinn …
Þegar allir koma með eitthvað á grillið þá verður málsverðurinn fjölbreyttur og góður.
Þegar grænmetið og blómin koma úr garðinum verður salatið aðeins …
Þegar grænmetið og blómin koma úr garðinum verður salatið aðeins betra á bragðið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »