Sjaldan verið færri einbýlishús til sölu

Hannes Steindórsson löggiltur fasteignasali hjá Fasteignasölunni Lind og varaformaður félags …
Hannes Steindórsson löggiltur fasteignasali hjá Fasteignasölunni Lind og varaformaður félags fasteignasala.

Hannes Steindórssonfasteignasali á Lind fasteignasölu segir að fasteignamarkaðurinn sé skrýtinn þessa dagana. Það er skortur á eignum sem gerir það að verkum að íbúðir og hús fara á yfirverði. Hann spáir því að fasteignaverð eigi eftir að hækka. 

„Salan er góð en staðan í raun ekki alveg nægilega góð. Það hafa sennilega sjaldan eða aldrei verið færri eignir í fjölbýli til sölu og miðað við það sem er í byggingu eru nokkur ár þar til framboð annar eftirspurn. Staðan er enn verri ef við tökum einbýlishús. Það eru innan við 90 einbýlishús til sölu á öllu höfuðborgarsvæðinu og lítið sem ekkert í byggingu af svoleiðis eignum. Rétt rúmlega 30% eigna fara á yfirverði, hin 70% á ásettu eða undir ásettu,“ segir Hannes, spurður um stöðuna á fasteignamarkaði þessa stundina.

Það færist í vöxt að fólk sem á auka peninga vilji fjárfesta í litlum íbúðum til að leigja út. Ég spyr Hannes hvað hann myndi ráðleggja fólki að gera sem er í þessum hugleiðingum.

Er tíminn fyrir það núna?

„Það fer í raun allt eftir hversu mikið eigið fé fólk á. Peningar eru í grunninn hvergi betur geymdir en í fasteignum, ef spár bankana ganga eftir þá hækkar fasteignaverð um 22-25% á næstu þremur árum. Þannig að já, ég mæli með kaupum á íbúðum til að setja í leigu.“

Þegar Hannes er spurður að því hvaða fasteignir séu að seljast best þessa dagana segir hann að það seljist í raun allt vel núna.

„Það sem fer einna hraðast eru lítil einbýli, par- og raðhús, það er ekkert til af því.“

Hvað þarf fólk að gera til að geta selt hratt og örugglega?

„Númer eitt, tvö og þrjú er að verðmeta rétt, taka góðar myndir og halda opið hús. Kaupendur eru með mjög gott verðskyn og bakka út ef verðið er of hátt.“

Hvernig á fólk að undirbúa íbúð sína fyrir sölu?

„Fólk á að hafa eins snyrtilegt og kostur er, dytta að því sem hægt er án þess að fara í stórar framkvæmdir. Lausir listar, lausir hurðarhúnar, mála veggi sem eru í sterkum litum, létta á ef fólk er með mikið af húsgögnum,“ segir Hannes.

Þegar ég spyr Hannes út í helstu mistök fólks þegar kemur að fasteignakaupum nefnir hann að fólk þurfi að skoða eignina, sem það er að kaupa, vel.

„Fólk á helst að skoða eignina tvisvar, fá yfirlýsingu húsfélags, fá upplýsingar um allt sem ekki sést, skólp, þak, dren, rafmagn og allt sem ekki sést við hefðbundna skoðun.“

Hvernig sérðu markaðinn þróast næstu mánuði? „Markaðurinn verður svipaður og hann er næstu 8-18 mánuði, mikil eftirspurn, minna framboð.“

Hvaða hverfi eru vinsælust núna?

„Í ljósi stöðunnar og hversu lítið er til af eignum þá eru flestöll hverfi vinsæl, þó eru hverfi eins og Vesturbærinn, Fossvogur, Sala- og Lindahverfi alltaf gríðarlega vinsæl.“

Hvaða hverfi eiga meira inni?

„Þetta er mjög erfið spurning. Við erum á það litlum markaði að ef fasteignaverð hækkar þá hækka öll hverfi. Þau hverfi sem eiga mögulega meira inni en önnur gætu verið Breiðholt, Mosó og Vellirnir Hafnarfirði,“ segir Hannes.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »