Einstakur heimur Rutar Kára í Kópavogi

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Innanhússarkitektinn Rut Káradóttir vill ekki hafa einn og einn vegg í æpandi lit heldur að heimilið skapi hlýlega heild. Að kalla það fram tókst svona líka vel í þessu fagra raðhúsi í Kópavogi. 

„Þetta verkefni vann ég í byrjun árs 2019 fyrir eigendur að þessu nýja raðhúsi í Kópavogi. Húsið sjálft var hannað af arkitektastofu Guðmundar Gunnlaugssonar og ég vann síðan að innanhússhönnuninni í góðri samvinnu við byggingarverktakann BYGG og iðnaðarmenn á þeirra vegum. Ég kom inn í verkið snemma á byggingarferlinu og gat því gert ýmsar bætur og breytingar á grunnskipulaginu í samræmi við þarfir eigendanna,“ segir Rut.

Þegar hún er spurð að því hvað eigendurnir hafi viljað kalla fram segir hún að þau hafi eiginlega leyft henni að ráða för.

„Þetta var algjört draumaverkefni fyrir mig því eigendurnir sýndu mér mikið traust og leyfðu mér að ráða för að miklu leyti. Þegar manni er treyst svona vel þá er samt mjög mikilvægt að vinna grunnvinnuna vel og greina þarfir eigendanna og hvaða væntingar og óskir þeir hafa. Eigendurnir lögðu upp með að skapa hlýlegt heimili sem væri þægilegt í umgengni. Það sem ég hef reyndar að leiðarljósi í öllum verkefnum mínum er að reyna að skapa tímalausa umgjörð með vönduðu efnisvali,“ segir hún.

Hægt að breyta öllu með því að mála

Litapallettan í húsinu er mjúk. Hvers vegna fórstu þá leið?

„Litirnir sem valdir voru leika mikilvægt hlutverk við skapa þessa hlýlegu stemningu sem við sóttumst eftir. Við notuðum jarðliti úr litapallettu minni, Roma, sem ég hafði nýlega sett saman fyrir Sérefni þegar þetta verk var unnið. Litirnir eru í rauðbrúnum og karrýgulum og beige-tónum og þóttu frekar djarfir og dökkir þegar ég kom fyrst með þá. Núna þykir þetta minna mál og fleiri farnir að treysta sér í að mála með þeim. Með því að breyta um liti eftir 5-6 ár má síðan skipta algjörlega um „lúkk“.“

Undir ítölskum áhrifum

Hvernig notaðir þú efnisvalið til að ná fram þessum hlýleika sem eigendurnir sóttust eftir?

„Mér finnst mikilvægt að allt efnisval í húsinu falli saman og myndi eina heild. Ég er ekki hrifin af því að einstakir hlutir eða veggir keppist um athyglina. Litir á veggjum, gluggatjöld, áklæði, gólfefni og innréttingar tóna saman og mynda mjúka heild. Ég lærði á sínum tíma á Ítalíu og ef það er eitthvað sem ég reyndi að taka með mér þaðan þá var það þetta næma auga sem Ítalir hafa fyrir efnissamsetningum og litatónum. Húsgögnin sem við völdum í stofuna eru til dæmis frá Minotti á Ítalíu sem eru í algjöru uppáhaldi hjá mér enda einstaklega vönduð og gott dæma um tímalausa og fágaða ítalska hönnun.

Við völdum fallegar gólfflísar í hlýjum gul-beige tónum á allt húsið. Þær eru ótrúlega praktískar og auðveldar í notkun. Með því að hafa flísaranar á öllu húsinu fær hlýr og vandaður viðurinn í innréttingum og innihurðum alls staðar að njóta sín,“ segir Rut og bendir á að þegar parket sé á gólfum sé það stundum að keppa við viðinn í innréttingunum. Hún segir að það geti þó alveg unnið saman.

„Lýsingin er síðan mikilvægur þáttur til sem skapar hlýleika, sérstaklega þegar notaðir eru dökkir litir eins og í þessu tilfelli. Oft gleymist að hugsa um lýsinguna sem hluta af hönnuninni og hversu mikilvægt það að er að vinna með góðum lýsingarhönnuðum.“

Nú er hljóðvist oft vandamál í nýjum húsum, var eitthvað hugsað um það?

„Það alltaf best að vinna með þetta atriði strax í grunnhönnuninni og ýmislegt hægt að gera til að hljóðvistin verði góð. Í þessu verkefni settum við svartan hljóðdúk í loftin og mér finnst hann algjör snilld, bæði vegna betri hljóðvistar og hvernig hann auðveldar alla vinnu við raflagnir og staðsetningu ljósa. Þessir hljóðdúkar eru sérstaklega hannaðir með það í huga að þeir dempi hljóð í rýminu og komi í veg fyrir bergmál.“

Geggjaður gangur

Gangurinn er mjög sérstakur með klæðningu og lýsingu. Hver er hugsunin á bak við það?

„Mér finnst alltaf gaman að vinna með aukarýmin í húsum, það er að segja ganga, forstofu og önnur rými sem tengja sama aðalrýmin. Það er svo skemmtilegt að láta þessi rými koma svolítið á óvart þar sem enginn á von á neinu. Með því að hanna þessi rými til enda þá ertu líka búin að koma þeim í „öruggt skjól“ þannig að eigendurnir fari nú ekki að prjóna eitthvað sjálfir þar,“ segir Rut og hlær.

Hillurnar í stofunni, er það eitthvað sem er að koma aftur inn?

„Hugmyndin hér var fyrst og fremst að hafa einhvers staðar vegg þar sem koma mætti fyrir ýmsum persónulegum hlutum, bókum, myndum, skrautmunum og fleiru. Ég hef alltaf verið meira hrifin af því að reyna að grúbba saman slíkum hlutum frekar en að dreifa þeim um allt. Mér tekst nú samt ekki alltaf að gera þetta á mínu heimili, en þetta er ágæt áminning fyrir mig að fara að grisja hjá mér eða rýma fyrir nýjum vörum eins og eiginmaður minn myndi segja. Það má nefnilega líka setja svona hluti inn í lokaða skápa og hvíla sig á þeim um stund. Svo verða þessir hlutir eins og nýir þegar maður tekur þá aftur fram og stingur öðrum inn í skáp.“

Secto-ljósið er úr Módern.
Secto-ljósið er úr Módern. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Hillurnar í stofunni eru sérsmíðaðar og hannaðar af Rut. Sófinn …
Hillurnar í stofunni eru sérsmíðaðar og hannaðar af Rut. Sófinn er úr Húsgagnahöllinni. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Rut hannaði ganginn þannig að það væri eitthvað að gerast …
Rut hannaði ganginn þannig að það væri eitthvað að gerast þar. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »