„Heimilið hefur alltaf verið mitt hjartans mál“

Ólöf Thorlacius á fallegt heimili.
Ólöf Thorlacius á fallegt heimili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólöf Thorlacius, sérfræðingur í útlánadeild Arion banka, á einstaklega fallegt og tímalaust heimili þar sem hönnunarvörum er blandað saman við fallega myndlist og húsbúnað sem á sér sögu og dýrmætar minningar fyrir heimilisfólkið. 

Þeir sem þekkja til Ólafar vita að sama er hvar hún hefur búið um fjölskylduna sína, heimilin hennar eru alltaf einstaklega smekkleg og aðlaðandi.

Ólöf er fædd og uppalin í Reykjavík og bjó lengi vel í vesturbænum í fallegu látlausu húsi með fjölskyldunni sinni.

„Ég hef alltaf elskað heimilin mín og held ég hafi þennan áhuga frá mömmu sem mér þótti mjög smekklega kona. Æskuheimilið var mjög hefðbundið íslenskt heimili en það var eitthvað við það hvernig mamma var sem smitaðist yfir í mig. Svo þegar ég fór að búa sjálf þá fór úrvalið í verslunum að verða meira og í raun má segja að ég viti fátt eins skemmtilegt og að búa fallega um fjölskylduna og að fylgjast með því hvað er að gerast í heimi menningar og listar og hönnunar, bæði þegar kemur að fatnaði en einnig húsbúnaði.“

Maralunga sófasettið frá Cassina er klassískt. Það fæst í Casa.
Maralunga sófasettið frá Cassina er klassískt. Það fæst í Casa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vil að börnunum líði vel í heimsókn

Ólöf er gift Haraldi L Haraldssyni, hagfræðingi hjá HLH ráðgjöf, og eiga þau saman þrjú börn sem nú eru öll uppkomin.

„Þegar við keyptum húsið fyrir fimm árum hér í Garðabænum var það sem heillaði mig fyrst hversu falleg stofan er. Eldhúsið er einnig opið og ég sá fyrir mér að húsið gæti verið notalegur staður fyrir mig og manninn minn en einnig börnin okkar og barnabörn þegar þau koma.

Ég kaupi fallega og vandaða hluti og fer ég vel með það sem ég kaupi. Sem dæmi get ég nefnt stofusófann sem við keyptum fyrir fjörutíu árum síðan á heimili okkar á Ísafirði. Eins þykir mér mjög mikilvægt að barnabörnunum mínum líði vel hérna hjá okkur og að þau geti verið hamingjusöm, glöð og frjáls og þurfi ekki að passa sig á að umgangast hlutina þótt þeir séu fallegir og sumir hlutir séu vandaðar hönnunarvörur.“

Sumir segja anddyri andlit húsa og það á vel við tilfinninguna sem maður fær við að ganga inn á heimilið. Stórar pottaplöntur taka á móti manni, falleg myndlist og svo bækur sem nóg er af á heimilinu.

„Já, manninum mínum fylgdi mikið af fallegum vönduðum bókum og tók það smá tíma að finna þeim góðan stað hér á heimilinu. Við völdum að gera fallega skrifstofu nálægt sjónvarpsholinu okkar þar sem fer vel um manninn minn þegar hann velur að vinna heima og hann getur teygt sig í bækur ef hann vill lesa.“

Elska að fá fólkið sitt í mat

Eldhúsið er með stórri hvítri eyju þar sem vinnuaðstaðan er góð en einnig vænlegt fyrir gesti að standa við borðið og fylgjast með eldamennskunni.

„Já, við elskum að fá fólk í mat og sérstaklega börnin okkar. Við erum samrýnd fjölskylda og þótt við eins og aðrir höfum verið að hittast aðeins minna á tímum kórónuveirunnar erum við dugleg að koma saman og borða eitthvað gott.“

Það er mikið af fallegum listaverkum á veggjunum, sér í lagi í stofunni þar sem finna má nokkur listaverk eftir Sigurbjörn Jónsson.

„Listaverkin eftir Sigurbjörn eru svo falleg. Málverkin hans sum eru falleg verk af tónlistarfólki en svo erum við með myndlist eftir fleiri listamenn hérna í stofunni. Sem dæmi held ég mikið upp á verkið eftir Eirík Smith. Ég hafði komið mér í samband við hann nokkru áður en hann dó og við höfðum mælt okkur mót sem því miður varð ekki að veruleika. En ég er ánægð með að hafa fest kaup á þessu verki. Ég elska birtuna í stofunni og sér í lagi að sitja í Egginu og drekka morgunkaffið mitt um helgar.“


Leirlistaverk eftir Margréti víða

Það eru einnig leirlistaverk eftir Margréti Jónsdóttur sem passa vel við inni í stofu og í eldhúsinu.

„Þegar ég fer norður á Akureyri þá jafnast fátt á við að koma við hjá Margréti. Það er svo gaman að hitta skemmtilegt listafólk sem leggur svo mikið í það sem það gerir. Það er enginn hlutur eins og annar hjá henni og hver einasta skál, bolli og kökustandur listaverk. Það er mikill heiður að eiga hlutdeild í því.“

Í eldhúsinu eru einnig smart viðarplötur sem Ólöf notar undir brauð og alls konar mat en einnig þegar hún leggur fallega á borð úti á palli.

„Þessar viðarplötur eru gamlar og fást í Heimili og hugmyndum. Þær eru góð fjárfesting og gaman að raða fallega á þær.“

Gólfefnið á heimilinu er hvíttuð eik sem hjónin létu pússa upp áður en þau fluttu sjálf inn í húsið. Allar innréttingar í húsinu eru hvítar og fallegur stílhreinn steinn situr á innréttingunum sem falla vel inn í umhverfið.

Eggið eftir Arne Jacobsen nýtur sín í stofunni.
Eggið eftir Arne Jacobsen nýtur sín í stofunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vildu eignast hús sem myndi henta út lífið

Hægt er að ganga út á pall þar sem er heitur pottur, út frá baðaðstöðu í svefnherbergisálmu hússins.

Síðan er hjónasvítan stílhrein og falleg með fataskáp sem hægt er að ganga inn í.

Það sem við vildum fjárfesta í á sínum tíma væri fallegt hús sem gæti fylgt okkur út lífið. Við erum dugleg að ferðast saman hjónin og veljum þá vanalega að fara til Ítalíu saman. Þar vitum við fátt skemmtilegra en að fara á milli staða og skoða fallegar hönnunarvörur og einstakar byggingar.

Maðurinn minn var eitt sinn spurður hvort við hefðum heimsótt söfnin á Ítalíu, hann svaraði snöggur upp á lagið að það hefðum við svo sannarlega gert þegar við heimsóttum Prada og Gucci og fleiri búðir, enda hátískufatnaðurinn á Ítalíu í þannig anda að það er eins og maður sé að koma inn á safn,“ segir Ólöf. 

Tréð eftir Michael Young og Katrínu Pétursdóttur setur svip sinn …
Tréð eftir Michael Young og Katrínu Pétursdóttur setur svip sinn á heimilið. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Tækjaskápurinn í eldhúsinu er vel skipulagður.
Tækjaskápurinn í eldhúsinu er vel skipulagður. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Eaems-stóllinn fer vel í sjónvarpsherberginu.
Eaems-stóllinn fer vel í sjónvarpsherberginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Lampinn var keyptur í Casa.
Lampinn var keyptur í Casa. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »