Draumahúsið stendur í miðri náttúruparadís

Fríða Rakel og Rayan Patrekur búa í fallegu heilsárshúsi í …
Fríða Rakel og Rayan Patrekur búa í fallegu heilsárshúsi í Grímsnesinu. mbl.is/Rayan Patrekur

Ryan Patrekur Kevinsson og Fríða Rakel Kaaber segja fátt jafnast á við það að vinna í garðinum. Þau vona að fleiri Íslendingar geti fest kaup á heilsárshúsi á landsbyggðinni enda fátt eins gott fyrir heilsuna og að vera úti í náttúrunni. 

Rayan Patrekur og Fríða Rakel búa í fallegu heilsárshúsi í Grímsnesinu. Áður en kórónuveiran skall á voru þau bæði að vinna í stórborginni. Saman eiga þau Hydra Flot Spa á Hlemmi sem er eins konar vellíðunarstaður fyrir borgarbúa sem hafa ekki tíma til að fara út í náttúruna.

„Böðin eru með 500 kg af epsom-salti sem gefur afslöppun og dregur úr streitu. Það getur reynt á að vera allan daginn í vinnu og hafa ekki afdrep til að núllstilla sig enda tíminn eitthvað sem við borgarbúar þurfum að keppast við stöðugt. Það var síðan í apríl á síðasta ári í miðri kórónuveiru sem við byrjuðum að leita að húsnæði til að kaupa utan borgarinnar.“

Fríða Rakel veit fátt betra en að vera úti í náttúrunni og þótt Ryan Patrekur hafi verið orðinn þreyttur á borginni þá hefur aðlögun að lífi úti í sveit tekið hann aðeins lengri tíma.

Fríða Rakel ræktar tómata í Friðheimum.
Fríða Rakel ræktar tómata í Friðheimum. mbl.is/Rayan Patrekur

Stórbrotin náttúra einungis klukkustund frá borginni

Á landinu sem fylgir húsinu í Grímsnesi er einstök náttúra. Fríða Rakel er völva eða eins konar seiðkona. Það lærði hún í shamanísku jógakennaranámi í Perú árið 2019.

Seiðkona er sú sem gengur í báðum heimum og hefur trú á að allt hafi anda. Bæði fólk, dýr, plöntur, steinar, fjöll, ár, tungl og stjörnurnar. Það er því ekki að undra að hún uni sér vel í nýja húsinu þeirra.

„Heimilið okkar úti í náttúrunni styður fallega við lífsstíl okkar beggja þar sem mikið er af plöntum og auðvelt að tengjast náttúrunni. Ég verð samt að viðurkenna að það hefur tekið mig tíma að venjast náttúrunni og að búa hér. Orkan er svo allt önnur og ég er með þannig huga að það er erfitt að slökkva á honum. Skilin á milli vinnu og leiks eru svo óskýr þegar maður býr í borginni. Ég veit að ég er ekki sá eini sem finnst erfitt að vera með fókusinn alveg við heimilið sér í lagi þegar maður á og rekur fyrirtæki sjálfur. Ég hef hins vegar lært að slaka á í þá klukkustund sem ég keyri á leið til vinnu og aftur heim. Þannig hef ég náð að aftengja mig alveg og vera heima með hugann þegar ég er kominn heim í sveitina.

Garðurinn er stór með allskonar styttum og fallegum munum.
Garðurinn er stór með allskonar styttum og fallegum munum. mbl.is/Rayan Patrekur

Það er einnig notalegt að hlusta á hljóðbækur í bílnum og að spjalla við vini og ættingja í gegnum bluetooth í bílnum.

Það er ekki hægt að bera þetta saman. Að geta spilað tónlist hátt en þó ekki þannig að hún ónáði nágrannanna er lúxus. Að hlusta á kyrrðina og fallegu náttúruhljóðin sem róa hugann og færa okkur vellíðan svo ekki sé talað um að fara í heita pottinn án sundfata. Allir þessir litlu hlutir hafa skapað ótrúleg verðmæti við að búa hér.“

Þau vildu eiga landið sem þau búa á og fannst það gefa þeim meiri tengingu við staðinn.

„Við vildum vera með fallegt útsýni en þó með þannig náttúru að hún héldi fallega utan um okkur. Við fundum það á þessum stað.“

Hvernig hefur viðhald garðsins gengið?

„Við höfum upplifað mikla ánægju af því að viðhalda gróðrinum á landinu. Trén sem voru hér fyrir hafa vaxið talsvert og svo höfum við plantað nokkrum til viðbótar. Við ræktum grænmeti, blóm og ávexti. Við erum einnig með hugmyndir um að setja upp gróðurhús og meiri grænmetisræktun í náinni framtíð.“

Gróður girðir af falleg svæði í garðinum.
Gróður girðir af falleg svæði í garðinum. mbl.is/Rayan Patrekur

Hvers konar blóm og grænmeti eruð þið að rækta?

„Núna erum við með tvær tegundir af jarðarberjum, krækiber, gulrætur og nokkrar tegundir af salati, káli, gulrætur, tómata, kartöflur, graslauk, avókadó, kryddjurtir og fleira. Við erum einnig með eplatré þótt við höfum ekki enn þá fengið epli úr þeim.

Við erum einnig með potta með alls konar blómum í garðinum okkar. Hér eru fjórir litlir lækir og svo vaxa alls konar blóm villt í garðinum. Við höfum sérstaklega gaman að því að setja niður vorlauka sem vaxa hér og þar á landinu. Við erum fljót að gleyma því hvar við setjum þá niður og svo vaxa þeir okkur að óvörum upp á fallegum stöðum sem gefur gleði og ánægju.

Við erum einnig með nokkra rósarunna og svo höfum við sérstakan áhuga á ævarandi plöntum sem vaxa í meira en tvö ár og blómstra fallega í alls konar litum og laða til sín býflugur,“ segja þau.

Grasið er einstaklega fallegt í kringum húsið.
Grasið er einstaklega fallegt í kringum húsið. mbl.is/Rayan Patrekur

Útiveran gerir mikið fyrir líkama og sál

Fríða segir einn stað á landinu sérstaklega góðan fyrir jóga og hugleiðslu. Svo sé leynistaður sem er með mikla jákvæða orku.

„Pallurinn er stór og gefur gott skjól frá veðri og vind. Svo við gerum oft jóga úti í sólinni. Síðan má ekki gleyma hversu róandi það er að vinna í garðinum. Það gefur mikla núvitund og gott að hugleiða og slaka á með mold á fótum og höndum.

Leynistaðurinn er svo útieldstæði sem við gerðum og myndar hring. Þar er mikið skjól og þar getum við setið nokkur saman. Við settum bekki þar sem við bjuggum til úr trjáklumpum og plönkum. Þetta er uppáhaldsstaðurinn minn á svæðinu,“ segir hún.

Er mikil tenging á milli þess sem þið eruð að gera í sveitinni og í starfi ykkar í borginni?

„Við teljum mikilvægt að komast úr úr höfðinu okkar, hvort heldur sem er með jóga, með því að fara í sund, þegar við keyrum á milli staða eða í „hydra floating“. Að vera í náttúrunni gefur manni einnig þessa tilfinningu að komast út úr því að ofhugsa hlutina. Þeir sem kunna vel við sig í náttúrunni þekkja þessa tilfinningu.“

Það vantar ekki tré og blómlegan gróður í kringum húsið …
Það vantar ekki tré og blómlegan gróður í kringum húsið í Grímsnesinu. mbl.is/Rayan Patrekur

Þau eru bæði sammála því að það munar miklu á loftgæðum í sveit og borg.

„Það er svo ferskt loftið hér og róleg orka. Fuglarnir syngja og þegar þetta kemur saman við náttúruna þá hefur þetta heildræn áhrif á líkama okkar að innan sem utan. Við getum bæði staðfest það. Það að hafa ástæðu til þess að fara út og að vera með verkefni úti í náttúrunni gefur manni tilgang. Svo jafnast fátt á við það að hvíla sig í heitum potti eftir langan dag í garðinum. Við gerum ekki upp á milli þess að fara í pottinn á veturna þegar myrkrið er mikið og stjörnurnar gefa birtuna eða á sumrin þegar bjart er úti og fuglarnir að syngja. Í raun má staðhæfa að það sé ómögulegt að halda í streituna og kvíðann í svona fallegu umhverfi. Tengingin við landið og náttúruna eru mun sterkari í sveit en í borg og þessi tenging er svo góð fyrir líkama og sál.“

Pallurinn er notaður fyrir jóga og svo má sjá fallegt …
Pallurinn er notaður fyrir jóga og svo má sjá fallegt umhverfi í kringum heita pottinn. mbl.is/Rayan Patrekur

Væri gaman ef fleiri gætu eignast hús úti á landi

Hvað er gaman að gera í Grímsnesinu?

„Það er svo margt hægt að gera hér. Við mælum með að fara á hestbak, að hjóla og veiða. Við getum einnig mælt með þeim sundlaugum sem eru í nágrenni við okkur sem og golfvöllunum. Sólheimar eru nálægt okkur sem er gaman að heimsækja.

Við erum minna en einn kílómetra frá Minniborg veitingahúsi og bar og versluninni Borg.“

Hvað hefur árið kennt ykkur?

„Kórónuveiran hefur kennt okkur ýmislegt. Við höfum þurft að sækja í ferðalög og samveru í nærumhverfi okkar og höfum lært að vinna að meira magni í gegnum fjarbúnað. Við höfum fengið góða æfingu í að vera meira saman sem fjölskylda og það að búa í sveit gefur okkur tækifæri á að vera lengur og meira með fjölskyldunni okkar heldur en þegar við bjuggum í borginni.

Við vonum að fleiri leiðir verði í boði til að fjármagna það að Íslendingar geti eignast heilsárshús úti á landi. Í dag er enn þá heldur of dýrt og erfitt að eignast hús í náttúrunni. Þótt það hafi algjörlega borgað sig fyrir okkur,“ segja þau að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál