Stærstu mistökin á litlum baðherbergjum

Lítil baðherbergi þurfa ekki að vera hvít.
Lítil baðherbergi þurfa ekki að vera hvít. Ljósmynd/Pexels/ Andrew Neel

Baðherbergi eiga það til að vera lítil en það þýðir ekki að þau þurfi að vera öll úti í drasli eða hvít og leiðinleg. Fólk eyðir góðum tíma á baðherberginu á hverjum degi. Af hverju ætti þetta mikilvæga herbergi að mæta afgangi þegar heimili eru innréttuð? Hér eru nokkur mistök sem fólk gerir þegar lítil baðherbergi eru innréttuð að því er fram kemur á vef Mydomaine. 

Hvítt og aftur hvítt

Oftar en ekki eru baðherbergi hvít, sérstaklega lítil baðherbergi. Sérfræðingur mælir með að velja áberandi liti í lítil rými. Litir geta gert mikið fyrir herbergi. Ef það er veggfóður á veggjunum er sniðugt að nota málningu sem passar við veggfóðrið á loftið. 

Opnar hillur

Drasl gerir lítil rými minni. Það getur verið besta lausnin að vera með lokaðar hirslur í bland við opnar hillur. Naglaklippur og aðrar nauðsynjavörur gera ekki mikið fyrir baðherbergið. Í mesta lagi ætti að sjást í tannbursta, sápu og einn skrauthlut við vaskinn. Það er sniðugt að nota veggpláss fyrir skápa undir það nauðsynlegasta, jafnvel speglaskápa. 

Skraut án tilgangs

Þegar um lítið baðherbergi er að ræða margborgar sig að eyða ekki dýrmætum fermetrum í óþarfa skraut. Þetta þýðir samt ekki að það sé ekki hægt að koma fyrir fallegum skrautmunum. Falleg handklæði geta til dæmis bæði verið falleg og nýst vel. 

Baðherbergi eru oft lítil.
Baðherbergi eru oft lítil. Ljósmynd/Pexels.com/Tim Gouw

Bara hlutir sem tengjast baðherberginu

Það borgar sig að innrétta baðherbergið eins og hvert annað herbergi. Það er til dæmis hægt að hengja upp myndir án þess að það fari mikið fyrir þeim inni á litlu baðherbergi. 

Litlir hlutir inni á litlu baðherbergi

Þó svo baðherbergið sé lítið er ekki nauðsynlegt að hafa allt pínulitið þar inni. Að hafa of marga litla hluti saman getur búið til drasl. Það getur verið betri kostur að velja einn stóran hlut. 

Ekki gleyma spegli og lýsingu

Tilgangur baðherbergis er ekki bara að fara í sturtu og á klósettið. Flestir nota baðherbergið einnig til þess að hugsa um útlitið, taka sig til fyrir daginn. Baðherbergið er kannski lítið en það er alltaf pláss fyrir spegil, ljós og málningu á veggina. Passaðu að velja spegil og lýsingu sem henta.

Góð lýsing og spegill skiptir máli.
Góð lýsing og spegill skiptir máli. mbl.is/Colourbox
mbl.is