Hætti í flugfreyjunni og gerðist landslagsarkitekt

Svanfríður Hallgrímsdóttir, fyrrverandi flugfreyja, hafði látið sig dreyma um að verða landslagsarkitekt í tuttugu ár þegar hún tók loks af skarið og skráði sig í Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2017, þá 45 ára. Nú hefur hún ákveðið að helga sig alfarið því starfi og varla vanþörf á því eftirspurnin eftir kunnáttu landslagsarkitekta hefur stóraukist á síðustu árum. 

Áður en hún settist á skólabekk hafði Svanfríður hannað nokkra garða og tók þá fullan þátt í að smíða þá og græja enda skorti hana á þeim tíma þekkinguna til að koma hugmyndum sínum á blað þótt ástríðan væri alveg fyrir hendi.

„Að byggja garða frá grunni var bæði skemmtileg og lærdómsrík reynsla sem nýttist mér virkilega vel í náminu síðar,“ segir Svanfríður hress í bragði en spurð að því hvað hafi heillað hana mest við námið segir hún það vera hversu yfirgripsmikið og vítt fagsviðið landslagsarkitektúr sé í raun.

„Það er ekki nóg að vera með góða hugmynd að hönnun og skipulagi. Landslagsarkitektúr er þverfaglegt svið sem tengir saman arkitektúr og listir, fagurfræði, grasafræði, umhverfissálfræði, lýðheilsu, félagsfræði, jarðfræði, vistfræði og veðurfræði og allt þetta þarf að hafa með inni í myndinni þegar til stendur að skipuleggja garða og útisvæði,“ útskýrir hún en fyrir henni felst helsta áskorunin í starfinu í því að auka lífsgæði fólks, vellíðan og slökun.

„Sumarið á Íslandi er svo stutt en ef maður er með fallegan garð og/eða útisvæði til að njóta lengir það sumarið. Mér finnst gott að hugsa til þess að fólk upplifi slökun og vellíðan í sínum draumagarði, og geti notið skjóls og mismunandi lita og áferða gróðursins eftir árstíðum,“ segir Svanfríður og bætir við að sú vitundarvakning sem nú er í gangi hvað varðar umhverfismál, sjálfbærni og endurnýtingu hafi orðið til þess að fólk leitar í auknum mæli til landslagsarkitekta.

„Fólk er til dæmis í vaxandi mæli tilbúið að prófa sig áfram í smá heimaræktun eins og á kryddjurtum, salati og berjarunnum og margir stunda lágmarksheimilisjarðgerð eða moltugerð. Heimilisræktun er skemmtilegt dæmi um sjálfbærni og um leið er hún auðveld leið fyrir hvert okkar til að taka þátt í að fækka kolefnissporunum.“

Sækir sér innblástur um allan heim

Áður en Svanfríður settist á skólabekk hafði hún starfað sem flugfreyja í fimmtán ár. Flakk um heiminn fylgir flugfreyjustarfinu og það að hafa ferðast mjög víða hefur reynst Svanfríði afar vel þegar kemur að því að sækja sér innblástur og setja saman ólík áhrif sem hún hefur fundið um víðan völl, í Asíu, Ameríku og víðar. Hún segir íslenska landslagsarkitekta einkum horfa til norrænu landanna í sinni hönnun og bætir við að þau lönd séu þó töluvert lengra komin á sviði landslagsarkitektúrs en við hér á Íslandi.

„Hér er einnig meiri áskorun í hönnun vegna legu landsins á hnettinum og veðurfarsins og það er mjög mikilvægt að taka þessa þætti inn við hönnun og skipulag á umhverfinu úti,“ segir hún.

Fallegur garður hefur góð áhrif á heilsuna

Svanfríður heillast meira af því að hanna garða fyrir einstaklinga fremur en stofnanir og ástæða þess er meira af andlega toganum en hinum veraldlega en eins og allir garðunnendur vita felast mikil lífsgæði í því að rækta garðinn sinn.

„Ég tel að vel hannaður einkagarður eftir óskum eiganda, í bland við hugmyndir hönnuðar, sé stórt skref í að kalla fram vellíðan, minnka streitu og hjálpa okkur að dvelja í núvitund og njóta líðandi stundar. Að hafa fallegt og vel skipulagt flæði um garðinn, fjölbreytta liti og vellyktandi plöntur er talið bæta heilsu og líðan þeirra sem finna sig í slíku umhverfi og þessu hef ég reynslu af.“

Spurð hvaða mistök fólk eigi helst til að gera þegar það leitar ekki ráða hjá landslagsarkitektum heldur ræðst bara í málin sjálft segir hún það helst vera of stórar skjólgirðingar.

Alþingisgarðurinn er falinn fjársjóður

„Þær eiga að gefa heimilisfólkinu meira næði frá nágrönnum og skýla fyrir vindi, en oft skapa þéttir timburskjólveggir, eða steyptir veggir, mikil vandamál innan girðingar því það gleymist að hugsa út í vindáttir. Það er mjög mikilvægt að skoða ríkjandi vindáttir og hvaða aðrir þættir í nærumhverfinu geti hugsanlega haft áhrif á hegðun vindsins. Fólk þarf að gæta þess að hafa ákveðið mikla „opnun“ á skjólgirðingu því við náum ekki að stoppa vindinn, en getum dreift honum og vísað aðeins frá svo hann skelli ekki á með meiri þunga inni á því svæði sem verið er að reyna að skýla,“ segir hún og bætir við að fólk eigi einnig til að setja niður plöntur án þess að vita hvað þær þurfi mikið pláss eða hvort þær þoli þær aðstæður og umhverfi sem þær eru settar í. „Starfsfólk gróðrarstöðva er samt alltaf mjög hjálplegt við ráðleggingar svo allir ættu að vera duglegir að nýta sér það,“ segir hún. Svanfríður á sér marga eftirlætisgarða í Reykjavík og þar nefnir hún til dæmis Grasagarðinn og Alþingisgarðinn.

„Í Grasagarðinum er svo mikil fjölbreytni gróðurs og fallegt skipulag og Klambratúnið, sem Reynir Vilhjálmsson hannaði árið 1963, finnst mér koma vel út en það er enn verið að vinna í þeim garði sem býður upp á skemmtilega fjölbreytni til útiveru fyrir alla aldurshópa. Alþingisgarðurinn okkar er líka falinn fjársjóður í íslenskri garðlistasögu, fæstir vita að garðurinn er opinn almenningi og er eini garðurinn í íslenskri garðsögu sem hefur náðst að varðveita í upprunalegri mynd.

Hellisgerði í Hafnarfirði er einnig algjör demantur þar sem hraunið leikur aðalhlutverkið og myndar ævintýralegt yfirbragð. Svo á ég líka eftirlætislandslagsarkitekta og þá eru það helst Björn Jóhannsson og hinn danski Jan Ghel sem eru í miklu uppáhaldi. Ghel nálgast hönnun út frá því hvernig hún hefur áhrif á skynjun og félagslegar athafnir fólks á leið sinni um borgir og önnur hönnuð svæði, – og það finnst mér virkilega áhugavert,“ segir Svanfríður að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál