Féllu fyrir hvort öðru og létu draumana rætast

Sigurborg Hannesdóttir og Ingi Hans.
Sigurborg Hannesdóttir og Ingi Hans.

Hjónin Sigurborg Kristín Hannesdóttir og Ingi Hans Jónsson féllu fyrir hvort öðru fyrir 17 árum. Fyrir rúmlega áratug féllu þau svo fyrir ævintýrahúsi sem hefur hýst bæði heimili þeirra og vinnuna þeirra. Nú er húsið komið á sölu því hjónin hyggjast minnka við sig þar sem styttist í að þau komist á eftirlaunaaldur. 

Þegar ég spyr Sigurborgu um þau hjónin segir hún að þau hafi alltaf vitað af hvort öðru en ekki haft tækifæri til að vera hjón fyrr en fyrir 17 árum síðan. 

„Ingi Hans, maðurinn minn, er frá Grundarfirði og þangað flutti ég fyrir 17 árum, eftir að við féllum hvort fyrir öðru. Ég hef starfað við það sem kallast þátttaka almennings í rúm 20 ár. Vinn verkefni um allt land í okkar eigin fyrirtæki, ILDI, stýri samráði, fundum og íbúaþingum, ásamt því að fást við sitthvað fleira. Ingi Hans hefur fengist við ýmislegt, meðal annars byggði hann upp Sögumiðstöð í Grundarfirði  og hann er einn af færustu sagnamönnum landsins. Það var einmitt sagnalistin sem leiddi okkur saman þegar ég skipulagði námskeið með skoskum sagnaþulum á Vesturlandi og hringdi í hann til að láta hann vita. Við höfðum reyndar vitað hvort af öðru síðan hann var í heimavistinni í Stykkishólmi, þaðan sem ég er. Hann þá 16 ára og ég 12 ára. Hann segir stundum að það hafi tekið hann 35 ár að ná í stelpu úr Hólminum,“ segir hún og hlær. 

Hvað var það við þetta hús sem heillaði ykkur á sínum tíma þegar þið keyptuð það?

„Við sáum þarna möguleika á að fara með allt það sem við vorum að fást við undir eitt þak. Að eiga hús sem væri bæði heimili og vinnustaður. Ingi Hans er snillingur í að hanna og smíða,“ segir hún og játar að hann sé eiginlega með byggingarbrjálæði eins og hann orðar það sjálfur. Í húsinu fékk hans einstakt tækifæri til að leyfa hugmyndafluginu að njóta sín að sögn Sigurborgar. 

Húsið stendur á frábærum stað, með sér aðkomu og stóru bílastæði og er nánast eins og herragarður. Sigurborg segir að það sé mun skjólsælla þarna en víða annarsstaðar í bænum. Hjónin hafa notað húsið sem vinnustofu og haldið eftirminnilega viðburði á heimili sínu. 

„Ég er jógakennari og kenni líka 5Rytma dans og hef nýtt stofuna okkar stóru sem sal fyrir þá kennslu. Í stofunni höfum við líka haldið tónleika, sagnakvöld, ljóðakvöld og ýmiss konar námskeið. Á hverju ári höfum við haldið dásamleg jólaböll með fjölskyldunni þar sem er dansað í kringum jólatréð. Svo hefur Ingi Hans tekið á móti hópum í sögustundir í elsta hluta hússins, þar sem hann bjó til svokallaða Sögustofu, þar sem hann er meðal annars með safn leikfanga frá 7. áratugnum. Einnig erum við bæði með skrifstofur og vinnustofur okkar í húsinu.“ 

Hvað gerðuð þið við húsið eftir þið keyptuð það?

„Húsið hefur vaxið og breyst frá því elsti hlutinn var byggður sem íbúðarhúsi á fimmta áratugnum. Síðar bættist við vélageymsla meðan húsið var í eigu Björgunarsveitarinnar Klakks og þar er nú stofan okkar, borðstofa, eldhús og fleira með um 3,5 metra lofthæð. Í húsinu var rekið þekkt og vinsælt veitingahús, Krákan, í á annan áratug. Þegar við keyptum húsið höfðu nýrir eigendur hafið allsherjar endurbyggingu, svo við byrjuðum frá grunni, klæddum að utan og mótuðum húsið að innan eftir eftir okkar hugmyndum. 

Endurbyggingin tók eitt og hálft ár. Ingi Hans vann mest í þessu sjálfur, en með einn mann með sér í heilt ár og svo fengum við rafvirkja og pípara í þannig verk.

Við keyptum húsið árið 2010 og þá var íslenskt samfélag enn að jafna sig eftir hrunið. Það þýddi að það var hægt að gera góð kaup á ýmsum byggingarvörum. Til dæmis keyptum við heilt bretti af flottum flísum og þess vegna eru baðherbergin í húsinu flísalögð í hólf og gólf. Við höfðum líka endurnýtingu og endurvinnslu að leiðarljósi, með góðum árangri, því húsið er hvorutveggja í senn skapandi rými og glæsilegt. 

Svo er gaman að segja frá því að húsið hefur fengið mikið lof fagmanna fyrir góða hljóðvist og þar þykir mjög góð orka - höfum einnig látið kortleggja orkulínur í húsinu, sem kom einstaklega vel út.“

Hvers vegna eruð þið að selja húsið núna?

„Nú höfum við búið í húsinu í 9 ár og komið að næsta kafla með nýjum tækifærum. Við erum ekki lengur að nýta húsið eins mikið og áður sem menningar- og mannræktarhús. Það hefur æxlast svo að við erum komin með þá starfsemi annað. Við ætlum að minnka við okkur, nú þegar styttist í starfslok og lifa og leika okkur,“ segir Sigurborg. 

Af fasteignavef mbl.is: Sæból 13

mbl.is