Haukur og Hadda ætla að hætta á toppnum

Haukur Snorrason og Hadda Björk Gísladóttir hafa ákveðið að selja …
Haukur Snorrason og Hadda Björk Gísladóttir hafa ákveðið að selja hótelið sitt.

Hjónin Hadda Björk Gísladóttir og Haukur Snorrason hafa undanfarin rúman áratug rekið Hrífunes Guesthouse sem er lítið „boutique“ hótel staðsett í fallegu umhverfi Skaftártungu, milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs.

Hjónin hafa nú ákveðið selja hótelið og snúa sér að öðru eftir farsæl og skemmtileg ár í sveitarómantíkinni eins og Hadda orðar það. Óskað er eftir tilboðum í eignina. Þau munu áfram reka ferðaskrifstofu og bjóða uppá sérferðir.

„Við keyptum eignina árið 2007. Við vorum að leita að einhverju meiru en hefðbundnum sumarbústað. Okkur leist mjög vel á okkur í þessari yndislega fallegu náttúru í Skaftártungu. Ég fann mér strax margt til að dunda mér við þarna. Við vorum fyrst með aðstöðu þarna fyrir okkur og fjölskylduna en fórum fljótlega að láta okkur dreyma um að gera eitthvað meira. Ég á erfitt með að sitja bara og taka því rólega. Haukur maðurinn minn hefur nú stundum sagt að eini staðurinn þar sem ég gæti slakað alveg á væri að búa á kletti út í hafi þar sem yxi ekki strá," segir Hadda og hlær.

Hún hafði unnið sem markaðsstjóri hjá alþjóðlegu lyfjafyrirtæki en sá möguleika á að stofna hótel í paradísinni í Skaftártungu.

Svítan pöntuð langt fram í tímann

„Árið 2009 urðu þáttaskil. Þá opnuðum við formlega Hrífunes Guesthouse og stofnuðum ferðaskrifstofu. Ég hætti svo hjá lyfjafyrirtækinu 2011 og einbeitti mér alfarið að rekstrinum hér. Ég fór meira að segja að elda fyrir gesti. Ég er ekki lærður kokkur en hef alltaf haft gaman af matargerð  og mér fannst þetta skemmtilegt verkefni að stýra eldhúsinu líka. Við höfum notað mikið hráefni hér úr sveitinni beint af býli. Það mælist mjög vel fyrir hjá gestum okkar. Við ákváðum að stækka Hrífunes Guesthouse og gera það að „boutique“ hóteli. Það var reist viðbygging árin 2016 og 2017 sem er stærstur hluti þess. Það eru 10 herbergi í nýju byggingunum, öll með sérbaði. Í eldri byggingunum eru tvö herbergi með sameinginlegu baði og auk þess erum við með tvö herbergi fyrir leiðsögumenn. Þá er 80 fermetra svíta sem yfirleitt er pöntuð langt fram í tímann," segir Hadda.

„Svítan er gullmolinn okkar. Lúxusferðaskrifstofurnar sitja um hana og hún er afar eftirsótt. Það er engin spurning að eftir þessa viðbætur lyftist hótelið á fínna plan. Þetta er flott gisting í fallegri sveit," segir Hadda og bætir við að heildarstærð bygginganna sé samtals 634 fm. 

Mikið af Íslendingum í heimsókn á veirutímum

„Mikill meirihluti gesta hafa undanfarin ár verið erlendir ferðamenn en það breyttist auðvitað talsvert í Covid. Það var krefjandi tími en sem betur fer rættist betur úr því en á horfðist og það má fyrst og fremst þakka því að við fengum mikið af Íslendingum í heimsókn í fyrrasumar í göngu- og jeppaferðirnar okkar sem og einnig nú í sumar. Það var gaman að fá fleiri landsmenn í heimsókn og þeir nutu þess vel að koma og ferðast um landið. Þetta lítur vel út hvað varðar næstu ár og nú sjáum við að Isavia og fleiri eru að spá fleiri ferðamönnum hingað til lands á næstu árum en fyrir Covid þannig að ferðabransinn ætti að ná sér vel á strik aftur. Bókunarstaðan hér á Hrífunesi Guesthouse er mjög góð og við erum með mikið af pöntunum nú þegar fyrir næsta ár og einnig 2023. Við erum svo lánsöm að vera í viðskiptum við traustar ferðaskrifstofur bæði íslenskar og erlendar. Við höfum lagt alúð við að bjóða upp á persónulega og góða þjónustu sem miðuð er fyrir gesti sem vilja njóta þess besta sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Haukur maðurinn minn er ljósmyndari og leiðsögumaður og hefur farið með ferðamenn um endalausa uppsprettu fallegra og spennandi staða eins og Fjallabak syðra og nyrðra sem eru hér í bakgarðinum. Hann býður m.a. upp á jeppa- og gönguferðir auk ljósmyndaferðanna. Haukur mun starfa áfram sem leiðsögumaður og fylgja ferðamönnum, bæði íslenskum sem erlendum um fagra staði landsins," segir Hadda.

Þau hjónin gáfu nýverið út fallega bók á ensku, Our Land, þar sem náttúruljósmyndir Hauks njóta sín afar vel í bland við mataruppskriftir Höddu.

Kvikynd og tískuþáttur Marie Claire

Aðspurð um eftirminnilegar heimsóknir á Hrífunesi Guesthouse rifjar Hadda upp heimsókn frá Marie Claire. 

„Fyrir nokkrum árum vorum við með hóp frá Marie Claire tískutímaritinu sem dvaldi hér í nokkra daga og tók myndir fyrir stóran tískuþátt. Þau mynduðu bæði hér inni og úti hjá okkur og svo fór Haukur með þau á flotta staði í nágrenninu. Það var skemmtilega viðburðaríkt. Nú nýlega kom leikstjórinn Baldvin Z með sínu föruneyti og tók upp senur í þætti sem kallast Svörtu Sandar, þessum þáttum verður dreift um alla Evrópu skilst okkur og verða sýndir á Stöð 2 um jólin. Gistihúsið okkar er svolítið eins og leikmynd og þau þurftu litlu að breyta til að geta nýtt sér það í kvikmyndatökurnar. Annars eru það glaðir og kátir gestir sem skilja mest eftir sig fyrir okkur persónulega og við suma þeirra höldum við enn sambandi, fólk sem við höfðum aldrei áður hitt, en finnst við alltaf hafa þekkt. Það er gaman og gefandi.“

Ætlar að hætta á toppnum

„Við hjónin höfum verið á fullu í rekstri hótelsins og það hefur verið frábær tími en nú finnst mér komin tími til að gera eitthvað annað. Ég ætla að gefa mér meiri tíma til að sinna fjölskyldunni og barnabörnunum en þeim fer fjölgandi. Ég hét mér því að hætta hótelrekstrinum þegar ég yrði sextug og það er að koma að því á næsta ári þannig að ég held þeirri áætlun," segir Hadda og brosir.

„Þetta er ekki auðveld ákvörðun en ég verð að standa með henni. Það er bara komið að þeim tímapunkti finnst mér. Ég mun vera væntanlegum kaupendum til halds og trausts ef þess er óskað. Það er alla vega ljóst að við skilum góðu búi. Við höfum fengið frábær meðmæli frá gestum okkar, ferðaskrifstofum og toppeinkunn á helstu ferðamiðlum eins og Google, Trip Advisor, Booking.com og fleiri sem fara fögrum orðum um hótelið, starfsfólk, veitingar og umhverfið sem þykir tilkomumikið. Ætli það sé ekki bara best að hætta á toppnum."

Sjá nánar um Hrífunes Guesthouse og söluna hér: https://www.hrifunesguesthouse.is/sala

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál