Jón Axel og María selja glæsihús með bátaskýli

Jón Axel Ólafsson og María Johnson
Jón Axel Ólafsson og María Johnson mbl.is/Ómar Óskarsson

Hjónin Jón Axel Ólafsson og María B. Johnson hafa sett einstakan sumarbústað á sölu. Sumarbústaðurinn stendur við vatn þar sem friðsældin ríkir. Hjónin þarf ekki að kynna en Jón Axel hefur unnið í fjölmiðlum síðan það var ekki sjónvarp á fimmtudögum og skaut hressilega upp á stjörnuhimininn þegar útvarpsþátturinn Tveir með öllu fór í loftið á Bylgjunni á sínum tíma en þættinum stýrði hann ásamt Gulla Helga. Í dag stýrir Jón Axel einum vinsælasta útvarpsþætti landsins, Ísland vaknar, á K100 ásamt Kristínu Sif og Ásgeiri Páli. María hefur unnið lengi í bókaheiminum en hún er útgáfustjóri Eddu útgáfu sem gefur út Andrés önd og fleiri stórmenni.

Sumarbústaður þeirra hjóna er skráður 90 fm að stærð og var hann byggður 1996. Síðan þá er búið að byggja við hann og er heildarfermetrafjöldinn 120 ásamt 40 fm bátaskýli. Í kringum bústaðinn er risastór pallur með heitum potti og öllu tilheyrandi. Úr bátaskýlinu er hægt að renna hraðbát út á vatn. 

Ef einhvern dreymir um að eiga skjól á friðsælum stað þar sem fegurðin og kyrrðin er í algleymingi þá er þetta málið.

Af fasteignavef mbl.is: Fitjahlíð

mbl.is