Langar þig að leigja íbúð Carrie Bradshaw?

Carrie Bradshaw er til í að leyfa þér að búa …
Carrie Bradshaw er til í að leyfa þér að búa í íbúðinni sinni. Ljósmynd/Airbnb

Sjónvarpsþættirnir Beðmál í borginni, eða Sex and the City eins og þér kallast á frummálinu, slógu áhorfsmet þegar þeir komu í sjónvarpið 1998. Hérlendis voru þættirnir sýndir á RÚV á fimmtudagskvöldum sem gerði það að verkum að skvísur landsins hættu að mæta á barinn á fimmtudögum heldur voru heima hjá sér að horfa á sjónvarpið. Í stað þess að taka þristinn (það er að leita sér að lífsförunaut þrjá daga í röð; fimmtudag, föstudag og laugardag) þá fóru konur að tileinka sér nýja siði og tvisturinn kom sterkur inn. 

Allar einhleypar konur heimsins vildu vera eins og aðalpersóna þáttanna, Carrie Bradshaw. Eða allavega svona út á við. Kannski dreymdi þær raunverulega um að vera hin kynóða Samantha Jones, en út í það verður ekki farið hér.

Ungfrú Bradshaw var blaðamaður sem skrifaði um samskipti kynjanna. Hún þurfti að drekka öll kvöld vikunnar til þess að hafa efnivið í dálkinn sinn. Fara á deit og komast inn í kjarnann þegar samskipti kynjanna voru annars vegar. Hvern dreymir ekki um að skrifa einn pistil á viku og hafa efni á því að drekka Cosmopolitan í morgunmat og fjárfesta í mörgum pörum af Manolo Blahnik-skóm á mánuði. Félagar í Blaðamannafélagi Íslands tengja líklega ekki enda kjörin öðruvísi í sjónvarpsþáttum en í raunveruleikanum. 

Ungfrú Bradshaw bjó í huggulegri íbúð á Upper East Side og lifði hinu fullkomna lífi eða svona næstum því. Það eina sem vantaði í líf hennar var maður sem elskaði hana og hún elskaði hann á móti. Hún var til í að ganga mjög langt til þess að finna hinn eina rétta. Á dögunum horfði ég á fyrstu serínuna af Beðmálum í borginni og komst að ýmsu. Carrie Bradshaw eldist vel í þáttunum og á heillandi fataskáp. En það sem hrjáir hana raunverulega er líklega ástarfíkn. Hún gerir allt sem konur eiga ekki að gera ef þær ætla að finna ástina og leita sér að framtíðarmaka sem vit er í. Hún fær menn á heilann, sem er stranglega bannað, því ef konur gera það þá missa þeir áhugann, en nóg um það. 

Ef þig dreymir um að vera Carrie Bradshaw þá getur þú nú leigt íbúð hennar í New York í gegnum Airbnb og hefst skráning á mánudaginn kemur. 

Ljósmynd/Airbnb
Ljósmynd/Airbnb
Ljósmynd/Airbnb
Hárblásarinn var nokkrum sinnum tekinn á þann stóra úr þessum …
Hárblásarinn var nokkrum sinnum tekinn á þann stóra úr þessum þráðlausa síma. Ljósmynd/Airbnb
Ljósmynd/Airbnb
Ljósmynd/Airbnb
mbl.is